Tuesday, May 17, 2016

Endurnýjun Samfylkingarinnar?

Ég fullyrði að nafn eða merki Samfylkingarinnar er ekki ástæðan fyrir því að fólk nennir ekki að styðja hana. Það mundi hvorki duga Samfylkingunni að skipta á þeim, né að leggja sig niður og stofna sig upp á nýtt með sömu stefnuskrána. Krítískur massi í forystuliði Samfylkingarinnar er ótrúverðugur og nýtur ekki trausts. Fólk er dæmt af verkum sínum á síðasta kjörtímabili. Því kann sjálfu að þykja það ósanngjarnt, en það er staðreynd að síðasta ríkisstjórn brást vonum mikils fjölda fólks sem trúði á hana. Hún þjónaði auðvaldinu af trúmennsku, undir nafninu "vinstristjórn". Með því ruddi hún brautina fyrir hægristjórnina sem nú ríkir. Þetta geta allir séð sem kæra sig um það.

Árni Páll var reyndar merkilega glöggskyggn í gagnrýnis-og-sjálfgagnrýnis-bréfi sínu til flokksmanna sinna fyrir nokkrum mánuðum. Sumpart glámskyggn að vísu, en það er efni í aðra grein.

Ég held satt að segja að sameining Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og VG væri lífvænleg leið og gæti skilað þeim sameinaða flokki dálaglegum þingflokki. Ekki ætti málefnaágreiningurinn að þvælast fyrir núna, eftir að vinstriarmurinn í VG hraktist meira og minna burt í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Reyndar er hjákátlegt að sjá þetta fólk í þremur flokkum, sem gæti vel rúmast í einum.

(Það er fyndið að sjá menn fabúlera um að Píratar gætu verið með í þessari sameiningu. Hvers vegna ættu þeir að vilja það?)

Óttarr Proppé reifaði það í viðtali fyrir nokkrum vikum, að einhverjir væru spenntir fyrir R-listaævintýri. Framboð í anda Reykjavíkurlistans væri kannski ekki galið, en listabókstafurinn R er reyndar frátekinn fyrir Alþýðufylkinguna. Það hefur enginn haft samband við okkur enn um að sameinast krötum, og ég sýti það svosem ekki.

Sameinið ykkur, kratar, það skýrir línurnar.

No comments:

Post a Comment