Tuesday, May 24, 2016

Alþýðufylkingin annað kvöld: Opinn fundur um þingkosningarnar

Á morgun miðvikudag kl. 20 heldur Alþýðufylkingin opinn fund í Friðarhúsi um Alþingiskosningarnar framundan. Þorvaldur Þorvaldsson kynnir drög að kosningastefnuskrá. Umræður um kosningaundirbúning. Sjá hér.

Friday, May 20, 2016

Þorvaldur í sjónvarpsviðtali á Hringbraut

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í fyrrakvöld og ræddi þar starf og stefnu flokksins.

Tuesday, May 17, 2016

Endurnýjun Samfylkingarinnar?

Ég fullyrði að nafn eða merki Samfylkingarinnar er ekki ástæðan fyrir því að fólk nennir ekki að styðja hana. Það mundi hvorki duga Samfylkingunni að skipta á þeim, né að leggja sig niður og stofna sig upp á nýtt með sömu stefnuskrána. Krítískur massi í forystuliði Samfylkingarinnar er ótrúverðugur og nýtur ekki trausts. Fólk er dæmt af verkum sínum á síðasta kjörtímabili. Því kann sjálfu að þykja það ósanngjarnt, en það er staðreynd að síðasta ríkisstjórn brást vonum mikils fjölda fólks sem trúði á hana. Hún þjónaði auðvaldinu af trúmennsku, undir nafninu "vinstristjórn". Með því ruddi hún brautina fyrir hægristjórnina sem nú ríkir. Þetta geta allir séð sem kæra sig um það.

Árni Páll var reyndar merkilega glöggskyggn í gagnrýnis-og-sjálfgagnrýnis-bréfi sínu til flokksmanna sinna fyrir nokkrum mánuðum. Sumpart glámskyggn að vísu, en það er efni í aðra grein.

Ég held satt að segja að sameining Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og VG væri lífvænleg leið og gæti skilað þeim sameinaða flokki dálaglegum þingflokki. Ekki ætti málefnaágreiningurinn að þvælast fyrir núna, eftir að vinstriarmurinn í VG hraktist meira og minna burt í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Reyndar er hjákátlegt að sjá þetta fólk í þremur flokkum, sem gæti vel rúmast í einum.

(Það er fyndið að sjá menn fabúlera um að Píratar gætu verið með í þessari sameiningu. Hvers vegna ættu þeir að vilja það?)

Óttarr Proppé reifaði það í viðtali fyrir nokkrum vikum, að einhverjir væru spenntir fyrir R-listaævintýri. Framboð í anda Reykjavíkurlistans væri kannski ekki galið, en listabókstafurinn R er reyndar frátekinn fyrir Alþýðufylkinguna. Það hefur enginn haft samband við okkur enn um að sameinast krötum, og ég sýti það svosem ekki.

Sameinið ykkur, kratar, það skýrir línurnar.

Friday, May 13, 2016

ESB-aðild: Kjarni málsins

"Að sjálfsögðu á að skoða aðild" segja menn stundum.

Það er að sjálfsögðu rétt.
Að sjálfsögðu á að skoða ESB-aðild, vel og vandlega, og síðan á að hafna henni.

- - - -

Menn segja stundum 'skoða aðild' þegar þeir meina að sækja um aðild, semja um aðild og ganga svo frá aðild. Það er röng meðferð á orðinu "skoða". Það orð þýðir að kynna sér eitthvað. Jæja, ég skal að vísu játa að það væri alveg hægt að ganga í ESB og skoða hvernig aðildin hefur áhrif á landið okkar og hvað gerist og þannig ... næstu áratugina ... ef það er það sem einhver meinar.

En svo er líka hægt að skoða aðild 28 ríkja sem þegar eru með samning -- og þá sér í lagi samning þeirra sem nýjust eru í sambandinu. Þar fær maður meira en nægar upplýsingar til að mynda sér skoðun.

Monday, May 9, 2016

Fyrsta maí-ávarp

Fyrsta maí-ávarp Alþýðufylkingarinnar er komið á heimasíðu flokksins. Lesið það:

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2016

Wednesday, May 4, 2016

1. maí-ræða Björgvins

Björgvin R. Leifsson flutti ræðu á baráttufundi Stefnu á Akureyri á fyrsta maí. Alveg hreint helvíti fína ræðu. Lesið hana hér:

Ræða á baráttufundi Stefnu 1. maí 2016




Tuesday, May 3, 2016

Rótgrónu sérverslanirnar og minjagripabúðirnar

Sú var tíðin að maður heyrði oft áhyggjur af framtíð verslunar í miðbænum. Það tal hef ég ekki heyrt nú um nokkurra ára skeið -- a.m.k. ekki af framtíð verslunar almennt -- en áhyggjurnar af gömlu verslununum hafa skotið upp kollinum í staðinn. Þið þekki þetta: Gamalgrónar búðir, sem Reykvíkingar hafa verið vanir í áratugi, týna tölunni. Búðir sem okkur þykir/þótti vænt um. Einsleitar minjagripabúðir spretta í staðinn upp eins og gorkúlur. Vísir er hættur, Litur og föndur er farin, ýmsar fleiri sem ég ætla ekki að telja upp. Verslanir með hönnunarvarning sem túristum finnst kúl en velta samt kannski ekki miklu. Aðrar hafa túristabóluna hangandi yfir sér eins og sverð.

Í pistlinum "Rótgrónar sérverslanir kveðja miðborgina" (RÚV 29. apríl) er fjallað um þetta. Ég ætla ekki að endurtaka þann pistil. En ég hnaut um orð Hjálmars Sveinssonar. Hann „segir það sorglegt að rótgrónar sérverslanir hverfi úr miðbænum. En hann telur ekki rétt að setja kvóta á minjagripabúðir almennt.“ -- Ef rétt er eftir haft, takið þá eftir orðalaginu: hann telur.

Þá kemur rökstuðningur Hjálmars:

„Borgin er þegar búin að vera með mjög mikil inngrip, inn á þetta svæði og inn í ráðstöfunarrétt þeirra sem eiga fasteign við Laugaveginn með því að banna fólki að opna veitingastað ef það uppfyllir ekki kvóta, þú ert að grípa inn í þennan ráðstöfunarrétt og eignaréttinn en það hefur gefist vel svo ég segi það enn og aftur. Svarið hefur verið að það sé ekki hlutverk borgarinnar að stjórna því hverju kaupmenn raða í hillurnar. Kaupmenn verða sjálfir að finna út hvað selst best og það er eðli verslunar. Keðjutakmarkanir eru hins vegar til umræðu, að setja takmörk á hversu margar verslanir eitt fyrirtæki má eiga.“

Aftur, takið eftir orðalaginu þarna í miðjum textanum: „Svarið hefur verið að það sé ekki hlutverk borgarinnar...“ -- svar hvers er það? Ég man eftir svipuðu orðalagi, þegar var verið að reyna að fá borgina til að stofna borgarbanka. Tilgangur hans hefði í stuttu máli verið að veita borginni sjálfri fjármálaþjónustu, og spara henni þannig fjármagnskostnað. Svar Dags Eggertssonar var að það væri „ekki hlutverk borgarinnar að reka banka“. Engin frekari rök þar. En er það „hlutverk borgarinnar“ að borga vexti?

Þetta er auðvitað bara bull. Hlutverk borgarinnar er, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem við viljum að það sé. Við, sem búum í borginni. Eins og Hjálmar segir sjálfur, þá gerir borgin nú þegar mikil inngrip. Það er kvóti á því hve víða má selja tilbúinn mat eða drykki í glösum. Og hann talar líka um takmarkanir á verslunarkeðjur. Gott og vel. En hvers vegna þá ekki minjagripabúðir?

Sko: Laugavegurinn er ekki eign þeirra sem eiga fasteign við hann. Hann er sameign okkar allra. Ef þar er ekki hægt að kaupa annað en lunda og flíspeysur, þá er búið að eyðileggja hann. Ekki bara fyrir heimamönnum, -- meira að segja líka fyrir túristum. Hver nennir að koma og skoða eintómar minjagripabúðir?

Það er hlutverk borgarinnar að hlú að menningu og mannlífi í borginni. Því hlutverki bregst hún ef ferðamennskufarsóttin fær að þurrka út miðbæinn.

Þess vegna á borgin að setja skorður við því hvað má hafa minjagripabúðir í mörgum húsum við Laugaveg eða í miðbænum. Og hún á líka að stöðva þetta vitskerta hótelæði, sem tröllríður miðbænum.

Við verðum að hafa stefnu til þess að ferðamannastraumurinn drekki okkur ekki. Við þurfum að geta tekið á móti fólki á okkar forsendum, án þess að það skaði okkur sjálf.

Svo þurfum við auðvitað líka að muna að þetta gullæði mun taka enda þegar næsta kreppa kemur í löndunum sem túristarnir koma frá. Bólan mun svo sannarlega springa. Hver á þá að sofa á öllum þessum hótelum, og kaupa alla þessa lunda?