Friday, January 23, 2015

Tipp-ex í Flateyjarbók: Þjóðminjasafn Egyptalands

Menn hafa lært mikið um forvarnir á fornminjum og öðrum hlutum undanfarna áratugi en ennþá sitja forverðir við heysáturnar af verkefnum sem forverar þeirra í starfi bjuggu til. Í Ísrael eru forverðir t.d. ennþá að pilla límband af Dauðahafshandritunum.

Menn hafa líka lært mikið í safnafræði og í að miðla því sem söfn geyma. Íslenska þjóðminjasafnið er gott dæmi um þá breytingu; þegar ég var lítill var hilla með miða, þar sem stóð "Prjónastokkar" og svo lágu þar 40 prjónastokkar í röð. Og önnur hilla með öskum, önnur með trafastokkum o.s.frv. -- ég veit að þetta er dálítil einföldun, en ég hygg að fólk viti hvað ég meina: "Gamla" safnið raðar upp rosalega mörgum munum. "Nýja" safnið reynir frekar að miðla þekkingu í gegn um fjölbreyttari og hugmyndaríkari upplifun. Það er alla vega hugmyndin.

Það er ennþá til fullt af gamaldags söfnum. Ég skoðaði Hofjagd- und Rüstmuseum í Vínarborg
Hjálmur Skanderbegs Epírótakappa er
geymdur á Hofjagd- und Rüstmuseum í Vínarborg
Mynd: Wikipedia
(herklæða- og veiðisafn) fyrir nokkrum árum og það var nánast sjúklegt dæmi um "gamla" safnið. Salur eftir sal af gömlum brynjum. Og síðast þegar ég kom á British Museum voru þar ennþá tilgangslausir salir með mörghundruð grískum vösum.

Þjóðminjasafn Egyptalands er samt það versta sem ég hef skoðað. Ef Egyptalandi væri stjórnað af meira viti, meiri metnaði og meiri umhyggju, þá ætti þetta safn að vera eitt flottasta þjóðminjasafn í heimi. En það er það ekki. Það er rykfallið, illa upplýst, og minnir sumpart meira á geymslu heldur en sýningarsali. Þar eru salir þar sem standa 50 gamlar steinkistur. Í salnum við hliðina eru aðrar 50 steinkistur og í þarnæsta sal enn aðrar 50 steinkistur.

Ég skoðaði helgrímuna frægu af Tútankamon, gullgrímuna. Hún var flott, ótrúlega flott, en umgjörðin sem henni var búin var dapurleg. Ég verð að taka fram að hún var samt ekki eins dapurleg og restin af safninu -- en langt frá því að vera samboðin þessari gersemi.

Við stóðum þarna og skoðuðum eitthvert gamalt signet eða hring eða eitthvað. Aðrir gestir voru farnir úr úr herberginu. Þá kom vörðurinn og spurði hvort við vildum taka myndir með flassi. Við sögðum honum að það mætti ekki, það stóð skilti að það væri bannað. Iss, hann hélt nú að það skipti ekki máli. Við skyldum bara láta hann hafa seðla í lófann, þá væri það ekki lengur bannað!

Nú er í fréttum að einhver fábjáni, sem er kollegi þessa varðar, hafi verið að þrífa helgrímuna og rekið sig í hana þannig að skeggið brotnaði af! Það mætti kannski fyrirgefa klaufaskap sem kannski getur hent hvern sem er - en það sem gerir þennan fábjána að fábjána er að í staðinn fyrir að kalla til forverði og láta þá taka málið að sér, reddaði hann því bara sjálfur. Með epoxy-lími. Límdi skeggið skakkt á, svo það sést rifa á milli, og límið klíndist íka út fyrir límflötinn - en þessi hálfviti skrapaði það bara af með sköfu. Og rispaði gljáfægt gullið um leið. Og þetta gerði hann fyrir framan stóran hóp af túristum:
Fábjáni að vinna spjöll á menningararfi mannkynsins
Mynd: AP Photo/Jacqueline Rodriguez, hér fengin frá Yahoo News
Þetta er um það bil eins heimskulegt og krota óvart í Flateyjarbók og leiðrétta það svo með tipp-exi.

Víða um heim liggja ómetanlegir egypskir fornleifafjársjóðir á söfnum. Egyptar krefjast þess oft að fá þá til baka. Það er réttmæt krafa í sjálfu sér - en það væri óábyrgt að senda ómetanlega muni á safn þar sem þeir eru ekki a.m.k. sæmilega öruggir. Egyptum er því miður greiði gerður með því að halda þessu frá þeim, á meðan þeir geta ekki komið sér upp þokkalegri aðstöðu fyrir þjóðminjasafnið sitt, og ráðið safnverði sem er klaufskt, heimskt og spillt.

Thursday, January 22, 2015

Mannfýla af gamla skólanum

Ég ætla ekki að fullyrða að Gústaf Níelsson sé rasisti, í þeim þrönga skilningi þess orðs að hann aðhyllist kynþáttahyggju. En hann er alveg greinilega haldinn útlendingaandúð. Það er nákvæmara hugtak en rasismi, þótt "xenófób" sé óþjálla orð þegar verið er að munnhöggvast. Hræðslan við múslima, "Ísland er síðasta vígið, og það er að falla" og tillaga hans um að afnema trúfrelsi í landinu með því að banna íslam -- svona birtist hræðslan, sem reiði. Þegar maður er hræddur, þá upplifir maður sig veikan, en hatur og reiði eru valdeflandi fyrir fordómapoka eins og Gústaf. Þetta er í daglegu tali kallað rasismi, en það er auðvitað ónákvæmt hugtak. Útlendingaandúð er hins vegar nákvæmara hugtak.

Ég ætla ekki að halda því fram að Gústaf Níelsson sé hommahatari, í þeim þrönga skilningi að hann vilji hommum beinlínis illt. En hann fyrirlítur homma (og lessur) alveg greinilega og finnst allt í lagi að veitast að þeim með háði. Ég hef sjálfur heyrt hann tala þannig á Útvarpi Sögu, tala um "blómálfa" og "dillibossa" og fleira slíkt, sem maður hélt að heyrði sögunni til. Og maður heyrði á röddinni að hann setti stút á munninn til að herma eftir "krútt"-rödd, ef þið skiljið hvað ég á við. Svona fordómar eru orðnir svo sjaldgæfir á Íslandi að ég var eiginlega alveg gáttaður. Hvort sem hommahatur er nákvæmt eða ekki, eru hommaandúð, hommafælni og hommafóbía eru allt hugtök sem eiga vel og nákvæmlega við Gústaf.

Ég ætla heldur ekki að fullyrða að Gústaf sé kvenhatari. En hann hefur lýst sér sem "íhaldi af gamla skólanum", hefur tekið þátt í baráttunni gegn fóstureyðingum, og hefur unnið við að reka fatafellustað. Ég held að menn sem reka fatafellustaði, án þess að vera karlrembur, séu álíka sjaldgæfir og albínó-tapírar. Á Íslandi. En það er auðvitað strangt til tekið ekki hægt að útiloka að Gústaf sé mikill jafnréttissinni, og hafi bara verið að grínast með hinu öllu.

Það er orðin til sérstök grein fréttamennsku á Íslandi, sem gæti heitið "Hvað finnst Brynjari Níelssyni um [mál]?" Þessar einstaklega ómerkilegu fréttir eru svo algengar að þetta virðist vera hluti af stöðluðu verklagi íslenskra blaðamanna. Finna upp á frétt, finna heimildir fyrir henni, spyrja Brynjar Níelsson hvað honum finnist og láta svo prófarkarlesa. Botninum í þessari tegund frétta hlýtur samt að vera náð þegar það er orðið fréttnæmt að Brynjar Níelsson segi Gústaf bróður sinn ekki hata neinn. Og það í tveim fréttum, frekar en einni.

Ég hef heimildir fyrir því að Gústaf Níelsson hafi verið hrekkjusvín þegar hann var barn. Og hann er við sama heygarðshornið í dag. Hann ber ekki tilhlýðilega virðingu fyrir fólki sem slíku, og þess vegna finnst honum allt í lagi að drulla yfir þá sem eru ekki nákvæmlega eins og hann sjálfur. Fólk sem þolir öðrum að vera öðruvísi, fólk sem lætur ekki segja sér hverja það má elska, fólk sem trúir ekki á kirkjuna, fólk sem er ekki með litla skorpna sjálfsmynd og typpi.

Tuesday, January 20, 2015

IS í Danmörku: snúa baki við Enhedslisten

IS (Internationale socialister) ákváðu á landsfundi sínum að snúa baki við Enhedslisten, sem flokkur. Ástæðuna segja þeir vera að þeir eigi ekki lengur pólitíska samleið, en Enhedslisten hefur undanfarin ár verið á vegferð til hægri og til aukinnar tækifærisstefnu. IS, sem eru trotskíistar, munu nú snúa sér að uppbyggingu eigin flokks og friðarhreyfingarinnar. Frá þessu greinir Modkraft.dk.

Wednesday, January 14, 2015

Fáfróður karlsauður

Ég er ekki vanur að hafa samúð með Sjálfstæðisflokknum, en mikið virðist það vera pínlegt að vera með svona drumbi eins og Ásmundi Friðrikssyni í þingflokki. Meinleysisleg hugmynd hans um að taka múslima fyrir og mismuna þeim afhjúpar tregan skilning á mannréttindum. Eins og oftast, þegar fáfrótt fólk tjáir útlendingaandúð sína -- eða þegar lævísir stjórnmálamenn tjá hana við fólk sem þeim finnst vera fáfrótt -- þá tekur Ásmundur það sérstaklega fram að hann sé sko ekki rasisti og þetta sé sko enginn rasismi: „Ég er nú ekkert þannig“ segir karlinn. Nei, þeir sjá það oftast ekki sjálfir, er það? Það er eftirtektarvert, að þetta segja eiginlega aldrei neinir nema rasistar þegar þeir eru að tala um rasisma. Já, meðan ég man, það er best að taka fram að ég tel Ásmund ekki tilheyra lævísa hópnum.

Ef orðið „rasisti“ vekur hugrenningartengsl um hatursfulla fanta með kvalalosta, þá er það misskilningur. Flestir rasistar eru hvorki snoðaðir nasistar né fullir af hatri eða illmennsku. Þeir eru hins vegar oft fullir af ótta eða vanmáttarkennd -- og tómir af viti. Þeir óttast það sem þeir skilja ekki. Þeir eru oftast venjulegt, óupplýst fólk. Svolítið eins og Ásmundur Friðriksson.

Ásmundur gleymir ekki möntrunni um að það þurfi að „taka þessa umræðu“ -- sem rasistar nota alltaf til að svara gagnrýni á tortryggnis- og óttaboðskap. „Aðspurður um að gefa nánari skýringar á orðunum segist Ásmundur ... aðallega vera að varpa fram spurningum til að vekja umræðu um þessi mál.“ Jæja, ef spurningin er hvort eigi að mismuna fólki vegna trúarskoðana, þá er svarið einfalt: Nei, Ásmundur, það á ekki að gera það.

Ég eltist ekki við einhverjar sögur sem Ásmundur hefur heyrt með sínum trúgjörnu eyrum.

En hvað í andskotanum er „múslimisti“?

Ásmundur spyr „hvort við þurfum ekki að hugsa málið og vanda okkur til framtíðar“ -- spurningin svarar sér sjálf, auðvitað á að gera það. Og hvað á þá að passa? Það væri góð byrjun að mismuna ekki innflytjendum og ýtta þeim ekki út á jaðar samfélagsins. Og að sjálfsögðu þarf íslenskt samfélag að breytast í takt við breytta samsetningu þess. Eins og það hefur alltaf gert. En ekki hvað?

En hvað er það sem hann óttast um? „Það eru þessi algildu gildi um samfélag og að það sé byggt á kristinni trú. Ég hef áhyggjur af því að mikill minnihluti þjóðarinnar vilji úthýsa kristinni trú úr grunnskólum.“ -- Það var nefnilega það. Voru það ekki skuggalegu útlendingarnir sem ógna siðnum í landinu! Á Þorláksmessu birtist grein eftir mig á Vísi, þar sem ég reyndi m.a. að þurrka aðeins upp eftir Ásmund. Þótt mér finnist leiðinlegt að þurfa að endurtaka sjálfan mig, verður bara að hafa það: 
Það má fyrirgefa karlinum fyrir að halda að hann sé í meirihluta, en það setur að manni stugg yfir hvernig honum finnst eðlilegt að fara með minnihlutahópa: þeir megi ... vera til, bara ef þeir ... sætta sig við að vera annars flokks. Þetta er trúfrelsi Ásmundar, að meirihlutinn kúgi minnihlutan.
Þar stóð reyndar líka:
Íslendingar ... sem standa utan kristinna trúfélaga eru miklu fleiri en innflytjendur sem standa utan kristinna trúfélaga. Það erum við, sem höfum flykkst út úr kirkjunni af sívaxandi þunga undanfarna áratugi. Það erum við, sem erum þyngsta lóðið í baráttunni fyrir trúfrelsi. Það erum við, þjóðin.
Ég leyfi þessu bara að standa og skýra sig sjálft.

Ásmundur segir að það eigi að gera eðlilegar kröfur til innflytjenda um þekkingu á sögu þjóðarinnar og viðurkenningu á þeim gildum sem íslenskt samfélag er reist á. Gott og vel -- það ætti þá líka að gera þær kröfur til Alþingismanna, að þeir hefðu grundvallarskilning á sögu og gildum þjóðarinnar, eins og sagan og gildin eru í alvörunni en ekki eins og þau eru kennd í sunnudagaskólanum þar sem nýjasta hetja kristilegu íslensku teboðshreyfingarinnar virðist hafa meðtekið mestalla sína visku.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir segist halda að karlsauðurinn hafi bara „komist óheppilega að orði“. Ég held að hann hafi ekkert komist óheppilega að orði. Ég held að hann sé bara vitlaus.

Friday, January 9, 2015

Hörð átök framundan á vinnumarkaði?

Eftir að læknar semja um launahækkun -- og allir virðast vera sammála um að sú launahækkun sé veruleg, án þess að hafa séð samninginn -- þá tala sumir forkólfar í verkalýðshreyfingunni eins og samningar lækna gefi tóninn fyrir verkfallsátök þegar aðrar stéttir fara að semja, Ríkisútvarpið segir jafvel að „Gylfi spáir hörðum átökum framundan.“ Og ekki nóg með það: „Gylfi ... segir að sú sáttastefna sem markaði síðustu kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ og BSRB sé brostin“. Rétt nú upp hend sem trúir því að Gylfi Arnbjörnsson eigi eftir að ganga í lið með verkalýðnum og fara að leiða einhverja alvöru baráttu! Rétt upp hend!


Kratísk/ökónómísk verkalýðshreyfing gengur út á að verkamenn og atvinnurekendur komist að einhverri niðurstöðu sem báðir aðilar eru sáttir við. Atvinnurekendur verða seint sáttir við að gefa eftir eitthvað að ráði af gróða sínum. Þess vegna er sáttastefnan, sem m.a. markaði síðustu kjarasamninga, ekki bara gagnslaus, heldur skaðleg fyrir vinnandi fólk. Sem betur fer kjósa félagar íslenskra verkalýðsfélaga um samninga, og ef nógu margir kjósa gegn ónýtum samningi, þá er hann felldur. Þessi réttur er ekki sjálfsagður, á dönskum vinnumarkaði þarf t.d. meirihluti allra félagsmanna að kjósa gegn samningi til að fella hann.


Það er út af fyrir sig kannski rétt hjá Gylfa að það verði átök um næstu samninga. Að stéttabaráttan hætti að vera bara að ofan á Íslandi, og íslenskt verkafólk fari aftur að berjast fyrir kaupi og kjörum sem sæma því. Eitt fyrsta vígið sem verkalýðurinn þarf að sækja að í þeirri baráttu verður sáttastefnan, þ.e.a.s. stéttasamvinnan -- að koma fulltrúum hennar út úr forystusveit sinni. Og hver ætli sé þar eftur á listanum?