Thursday, August 30, 2012

Ég er genginn úr VG

Ég hef sagt skilið við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og hætti um leið í stjórn VG í Reykjavík og öllum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Ástæðan er megn óánægja með störf og stefnu flokksins í ríkisstjórn, ásamt því að ég tel fullreynt að gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru til að ég gæti átt samleið með flokknum.

Stjórnarsáttmálinn vissi á illt frá upphafi, þar sem flokksforystan lét undan í öllum aðalatriðum og fékk lítið í staðinn, og það við aðstæður sem fáir aðrir en smáborgaralegir tækifærissinnar í vinstrigæru hefðu getað gert. Fyrir tækifærissinna eru völd ekki verkfæri til að ná pólitísku markmiði, heldur eru völdin markmiðið sjálft. Sleikjuskapur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sæmir ekki vinstrisinnaðri ríkisstjórn fullvalda ríkis, en er eðlileg hegðun fyrir smáborgaralega sýndarvinstristjórn sem er hvort sem er tilbúin til að selja fullveldið fyrir baunadisk. Úrræðaleysi í skuldamálum heimilanna sýnir glöggt að fjármálaauðvaldið hefur hér tögl og hagldir. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var líka löðrungur sem erfitt verður að gleyma.

Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur. Íslenskir kratar hafa undanfarin ár haft fordæmalaust tækifæri til að sýna hvað í þeim býr – eða, réttara sagt, að í þeim býr hvorki vilji né geta til að ganga gegn auðvaldsskipulaginu.

Ísland sárvantar sósíalískan flokk. Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.