Saturday, November 29, 2008

Hugleiðing um byltingu

Síðasta bloggi mínu svaraði Eva Hauksdóttir í kommenti. Í staðinn fyrir að svara kommentinu þar, ætla ég að svara því og leggja út af því hér, í sér bloggi.

Það eru orðalagshártoganir hvort byltingar verða eða koma eða hvort fólk gerir byltingu eða byltir. Merkingin er sú sama. Það sem kemur og fer er byltingarástand. Kapítalisminn gengur í bylgjum; það skiptast á vaxtarskeið og kreppur og þegar kreppurnar brenna upp afkomu fólks er það sem byltingar komast á dagskrá. Fólk gerir ekki byltingar fyrr en það á engar aðrar leiðir út úr stöðunni. Fólk vill ekki leggja sig í hættu eða vandræði og þess vegna gerir það ekki byltingar meðan einhverjar aðrar leiðir virðast færar. Umbæturnar trompa byltinguna alltaf í venjulegu árferði vegna þess að þær eru ekki eins eldfimar.

Byltingin er ekki spurning um hvort fólk nennir eða ekki, heldur hvort fólk neyðist til þess eða ekki að gera hana eða, réttara sagt, hvenær fólk skilur að það neyðist til þess. Byltingar verða ekki í flippi eða vegna þess að einhver "nenni" að gera þær. Þær eru nauðsyn og þær koma ekki til af góðu. Þegar kerfið hrynur og fólk missir viðurværið, þá opnast augu þess: Kerfið bregst því og það skuldar þessu kerfi ekki neitt. Kerfið er heimskulegt og ósanngjarnt og það verður að koma á nýju kerfi sem er skynsamlegra og sanngjarnara.

Það eru vissulega til byltingarsinnar sem vilja byltingu en hafa "ekki skýra hugmynd um hvað eigi að taka við" og fá ekki "nógu marga með sér fyrr en við förum að sjá hungurdauða" og það eru til byltingarsinnar sem vilja byltingu en eru svo hræddir "um að fá bara verra ástand" að þeir leggja "ekki í að bylta neinu" sjálfir. Eva skipar sjálfir sér í fyrri flokkinn en mér í þann síðari. Ég held að æði margir byltingarsinnar séu í fyrri flokknum. Hver veit hvað "á að taka við"? Ekki þykist ég geta hannað hið fullkomna þjóðfélag. Ég get lagt fram vissar forsendur sem það ætti að byggja á, en ég veit ekki hvort ég treysti mér til að útfæra það í smáatriðum. En það er heldur ekkert mitt hlutverk. Það eru ekki róttæklingarnir, hvorki sem hópur né sem einstaklingar, sem gera byltingar, það er bara venjulegt fólk. Byltingin stendur og fellur með alþýðunni.

Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki gert byltingu er ekki sú að ég sé smeykur við hvernig málin gætu þróast. Ástandinu gæti alveg hrakað mjög mikið, en ef það væri gerð bylting þykir mér samt líklegra að það mundi skána. Málið er bara að hingað til, a.m.k. frá því í stríðinu, hefur íslensk alþýða ekki verið á byltingarbuxunum. Fyrr en kannski núna á allra seinustu vikum.

Eva svartsýna skrifar að "þeir sem á endanum munu gera byltingu eru þeir sem kæra sig því aðeins um byltingu að þeir fái völdin sjálfir" -- þessu játa ég bæði og neita. Ég neita því að litlar klíkur geri byltingar. Þær gera valdarán. Oftast vinna þær sig samt upp metorðastiga kerfisins án þess mikilla átaka; það er auðveldara og öruggara fyrir alla hlutaðeigandi. Hins vegar játa ég því að þeir sem á endanum geri byltinguna geri það til að fá völdin sjálfir. Skárra væri það nú. Það er nefnilega alþýðan sem gerir byltinguna þegar öllur er á botninn hvolft, alþýðan og alþýðan ein.

Hún hefur ekki gert það hingað til vegna þess að skilyrðin hafa ekki verið rétt. Það eru tvenns konar skilyrði sem þurfa að passa til þess að bylting geti orðið:

(A) Hlutlæg (objektíf) skilyrði eru efnahagsástandið. Á meðan flestir eru mettir, þá eru flestir latir og hafa engan áhuga á að gera byltingu. Þegar hin reglubundna kreppa kemur -- og hún kemur alltaf aftur og aftur -- þá byrjar fjöldinn að missa viðurværið eða hrapar í lífskjörum. Því verra sem ástandið verður -- og það verður verra og verra þangað til kreppan leysist (og til að leysa kreppur þarf vanalega annað hvort stríð eða byltingar) -- þess fleiri sjá að bylting er eina leiðin. Þegar hlutlæg skilyrði hafa opnað augu nógu margra, þá getur orðið bylting.

(B) Huglæg (súbjektíf) skilyrði eru vitundar- og skipulagsstig fjöldans, hin viljaða og/eða vitaða hlið á málinu. Það hefur til skamms tíma ekki verið hátt á Íslandi. Flest fólk hefur ekki áhuga á að velta fyrir sér stéttapólitík eða byltingu fyrr en það fer að leita að rótum vandamálanna, og það gerir það ekki fyrr en vandamálin reka það af stað til þess og lausnirnar láta á sér standa. Huglægu skilyrðin fela m.a. í sér hversu meðvitað fólk er um hvernig kapítalisminn virkar, hvort það skoðar samfélagið út frá þjóðerni, stéttum eða öðru og hvort það á sín eigin óháðu baráttusamtök.

Til skamms tíma hafa huglægu skilyrðin ekki verið til staðar og þau hlutlægu ekki heldur. Þegar hlutlægu skilyrðin byrja að breytast -- þ.e.a.s. þegar kreppan kemur -- þá snúast hjólin hins vegar hratt og breytingarnar geta orðið örari en við áttum okkur á. Fólk getur logað upp í skilningi, meðvitund og umfram allt hneykslun og reiði og baráttuanda á svipstundu. Það hefur verið að gerast hér á Íslandi undanfarnar vikur.

Spurningarnar er bara hvað þessi öldudalur verður djúpur og langvarandi og hversu fljótt fólk er að tileinka sér baráttuanda og skynsamlegar hugmyndir. Það eru atriðin sem skera úr um hvort það verður bylting eða ekki.

Ég er sæmilega bjartsýnn.

Má vera að þá lifi hana hvorugur okkar

Ég sat í gærkvöldi á tali við mann á níræðisaldri. Við vorum að ræða hvort það væri að skapast byltingarástand núna og hver sénsinn sé á því að á næstu misserum verði Byltingin loksins, sem gott fólk hefur verið að bíða eftir undanfarnar kynslóðir. Það hafa komið nokkur tímabil þegar hún virtist vera innan seilingar, og var það kannski, þótt hún hafi ekki orðið ennþá, hverju sem um er að kenna.

Allavega, þá sagði ég þessum manni, sem ég endurtek að er á níræðisaldri, að ef hún yrði ekki á næstu misserum þá mættum við líklega bíða lengi enn. Að annað hvort mundum við báðir lifa það að sjá hana verða, eða þá að hvorugur okkar mundi lifa það.

Ég held, svei mér þá, að þetta gæti verið rétt hjá mér.

En á hinn bóginn, þá gæti mér skjátlast líka.

Annað eins hefur víst gerst.

Wednesday, November 26, 2008

Piparúði, Taíland og Kosovo

Á laugardaginn lét löggan bara vaða með piparúðanum, fólkið var ekki varað við. (Fólk hefði hvort sem er varla heyrt það vegna hávaða og troðnings.) Úðinn fór bara af stað. Á myndbandsupptökum heyrist greinilega kallað "Gas gas" -- það eru mótmælendur sem kalla það til að vara aðra mótmælendur við, eftir að gasið er byrjað að sprautast.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekki allt sem sýnist í þessum mótmælum í Taílandi. Fólkið hefur auðvitað góða ástæðu til að mótmæla og vera reitt, en mótmælahreyfingin er leidd af annarri spilltri valdaklíku sem er engu betri en sú sem er við völd. Þessi mótmæli eru ekki byltingarsinnaðri en svo að konungurinn og herinn tilheyra klíkunni sem leiðir þau. Hver veit samt, þegar svona eldar eru einu sinni kviknaðir kann að vera að þeir njóti hans ekki síðastir sem fyrstir kveiktu þá. Kannski bera Taílendingar gæfu til að steypa öllu gamla draslinu og reisa betra ríki á rústum þess gamla. Það er samt ekki ýkja líklegt held ég. Lesið um málið á WSWS: Thailand’s political crisis intensifies amid economic slowdown.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þrír Þjóðverjar í gæslu í Kosovo segir Mogginn.

Í stjórnkerfum heimsins vinna menn sem eru heiðarlegir og grandvarir og menn sem eru óheiðarlegir og svífast einskis. Þeir síðarnefndu eru hlutfallslega fleiri í leyniþjónustunum en öðrum stofnunum stjórnvalda. Stundum sjá þeir að óhæfuverk geti komið þeim vel ef það er hægt að kenna andstæðingunum um þau. Stundum komast þeir á snoðir um óhæfuverk sem andstæðingarnir eru að plana en sjá sér leik á borði með því að stöðva þau ekki heldur nýta sér þau. Dæmi um þetta er byssupúðursplottið í London árið 1605 og neðanjarðarlestasprengingarnar í sömu borg í júlí 2005. Þessi grófa taktík er stundum kölluð "LIHOP" (fyrir "Let it happen on purpose").

Nú, svo er það stundum að þessi krímínel element sjá að eitthvert óhæfuverk mundi hræða almenning til að sætta sig við útfærðar valdheimildir, eða jafnvel fagna þeim, án þess að andstæðingarnir séu með neitt slíkt á prjónunum. Þá er alltaf hægt að fremja bara sjálfur óhæfuverkin, gæta þess vandlega að enginn sjái í gegn um samsærið, kenna andstæðingunum strax um og hjóla beint í að þjarma að þeim. Sígilda dæmið um þetta er þinghúsbruninn í Berlín 1933. Önnur dæmi þar sem þetta er sennileg skýring er þegar USS Maine sprakk í höfninni í Havana árið 1898 og varð Bandaríkjamönnum tilefni til stríðs við Spánverja, þar sem þeir unnu Kúbu og Filippseyjar af þeim, -- og síðan 11. september 2001, sem varð Bandaríkjastjórn tilefni til að hjóla í mannréttindi bandarískra borgara og ráðast inn í a.m.k. tvö ríki, allt í nafni "stríðs gegn hryðjuverkum". Þessi grófa taktík er stundum kölluð "MIHOP" (fyrir "Made it happen on purpose").

En svo er það stundum að heiðarlegir menn, sem oft eru í lögreglunni, fletta ofan af svona plottum og ná jafnvel að stöðva þau. Þegar G8-fundurinn stóð yfir í Heiligendamm í Þýskalandi í fyrra, þá voru mjög mikil mótmæli gegn þeim í Rostock og víðar í nágrenni Heiligendamm. (Þorpið sjálft var girt af og gríðarlega öflug löggæsla hélt því einangruðu frá mótmælum.) Nú, á einum vegatálmanum fundu öryggisverðir þýsku lögreglunnar sprengiefni í bíl sem nokkrir bandarískir leyniþjónustumenn óku. Þeir sögðu lúpulegir að þeir hefðu nú bara verið að reyna hversu örugg öryggisgæslan væri. Einmitt.

En núna eru það þýskir leyniþjónustumenn sem böndin berast að, í Kosovo. Spurningin hlýtur að vakna, hvað gengur þeim til? Hvaða hagsmunir búa að baki? Ég veit það ekki. Kannski vilja þeir láta líta út fyrir að reiðir Kosovo-Serbar séu að hegna ESB fyrir að styðja sjálfstæði Kosovo.

En eitt er víst: Svona fréttum verður að halda til haga.

Monday, November 24, 2008

Götubardagi, hryðjuverkamenn, sjóræningjar og ráðherrar!

Laugardagurinn var einn af þeim viðburðaríkari sem ég man eftir nýlega. Útifundurinn á Austurvelli gríðarlega vel heppnaður í alla staði. Katrín Oddsdóttir og Sindri Viðarsson með fantagóðar ræður -- og tímabærir úrslitakostirnir sem Katrín setti ríkisstjórninni: Stjórnin fær viku til að boða til kosninga, annars fer illa. Tímamörk voru það sem vantaði (eða a.m.k. eitt af því). "Hingað og ekki lengra"-lína. Auðvitað á ríkisstjórnin að boða til kosninga strax og það á ekki að þurfa margra vikna mótmæli til að leiða þeim það fyrir sjónir.

Ég leyfi mér að segja að það vilja fáir að næstu valdaskipti fari fram með illu, en ef þau fara ekki fljótlega fram með góðu munu þau fara fljótlega fram með illu! Ríkisstjórnin mun ekki hanga mikið lengur á roðinu. Úff, ég vona að þau komi því inn í þykka hausinn á sér að þau eru að leika sér að eldi. Hvað halda þau að þau græði á því að hanga svona!?

Það er líklega skynsamlegt af þeim að hafa lífverði þessa dagana. Án gríns.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Það er hægt að finna einhverjar hryðjuverkanaglaþjalir eða of stórar kókómjólkurfernur með öryggisleit á flugvöllum, en öryggið eykst ekki af viti með reaktífu rugli rugli. Sá sem ætlar sér í alvörunni að fremja hryðjuverk í kring um flugsamgöngur og veit eitthvað hvað hann er að gera, verður ekki stoppaður með strípimyndavélum. Það er bara of auðvelt.

Það er til nóg af útsmognum aðferðum sem er ekki séns að verjast. Ef þetta er stríð og víglínan er dregin á flugvellinum, þá er stríðið þegar tapað. Eina leiðin til að hindra hryðjuverk gegn flugvöllum er að banna flugvelli.

Í fyrsta lagi, þá eru hin réttu viðbrögð við hryðjuverkum ekki að þjarma að almenningi heldur að ráðast að rótum vandans. Hvers vegna fremur einhver hryðjuverk? Getur verið að það sé eitthvað athugavert hérna megin við járnmúr Vesturlanda, sem mætti bæta? Hvað með t.d. utanríkisstefnu? Hvað ef það væri tekin upp ábyrg utanríkisstefna í staðinn fyrir heimsvaldastefnu? (Það verður auðvitað ekki breytt um stefnu sem er inngróin í auðvaldsskipulagið nema skipta um þjóðskipulag -- ég er auðvitað fylgjandi því, en það er önnur saga.)

Í öðru lagi, þá snúast "hryðjuverkalög" ekki um að vernda okkur, vestrænan almenning, fyrir hryðjuverkum. Nei. Þau eru samt réttnefni. Þau snúast nefnilega um að beita okkur hryðjuverkum. Og hver skyldi gera það? Jú: Þeir sem þykjast vera að passa okkur. Það eru þeir sem eru að byggja upp eftirlitssamfélag, svipta burtu mannréttindum heima fyrir og leggja línurnar fyrir hátæknivætt lögregluríki þegar stéttabaráttan fer að fara harðnandi. "Hryðjuverk" eru oft sviðsett til þess að réttlæta óeðlilega útfærslu á valdheimildum valdstjórnarinnar, til að hræða okkur í fangið á stóra bróður. Dæmi? Ríkisþinghúsbruninn í Berlín 1933.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í Sómalíu er íslamistarnir eina aflið sem er fært um að koma á lögum og reglu. Allir aðrir kostir í stöðunni eru verri.

Sómalía hefur, sem kunnugt er, verið án ríkisstjórnar síðan stjórn Siad Barre hrundi árið 1991. Hún hefur, sem kunnugt er, verið í hers höndum, eða réttara sagt hers, stríðsherra, ættbálkahöfðingja og íslamista.

Í fyrstu réðu stríðsherrar lögum og lofum. Síðan klufu tvö héröð sig frá, Sómalíland og Puntland, bæði norðantil í landinu, og lýstu sig sjálfstæð. Ættbálkahöfðingjar réðu miklu um það. Ættbálkurinn er sterkasta samfélagsfestið í Sómalíu, og er einmitt það samfélagsfesti sem torveldar samstöðu hvað mest. Ættbálkurinn stendur svo þétt saman, sér um sína og stendur fólki svo nærri. Þótt klofningshéröðin tvö hafi verið í raun sjálfstæð árum saman, hafa stríðsherrarnir haldið áfram að deila restinni af landinu á milli sín.

Bandaríkjaher reyndi að bæla Sómala niður fyrir hálfum öðrum áratug en snýtti rauðu, eins og lýst er í Black Hawk Down. Fyrir tveim árum réðust Eþíópíumenn inn, sem leppar Bandaríkjamanna og með stuðningi þeirra, að sögn til að koma til valda einhverri "stjórn" sem Sameinuðu þjóðirnar hafa úthlutað Sómalíu en Sómalir virðast ekki kæra sig um. Allavega hefur hún ekki fest rætur. Raunverulegur tilgangur innrásarinnar er auðvitað að tryggja siglingaleiðina um Aden-flóa og þar með Rauðahaf og Súez-skurð, siglingaleið sem stór hluti olíuframleiðslu heimsins fer um. Sómalir eru herskáir og hugrakkir og hafa snýtt Eþíópíumönnum duglega líka.

Nú, eitt er það samfélagsfesti sem er til í Sómalíu og sker þvert á ættbálkana. Það er íslam. Í stjórnlausu landinu sættust menn á að láta íslamska dómstóla skera úr í mörgum deilumálum, og smám saman öðluðust þeir viðurkenningu og vald. Vopnaðir menn fóru að ganga þeim á hönd og hjálpa til við að framfylgja dómum og treysta vald þeirra í sessi. Þetta hélt áfram þangað til Bandalág íslamskra dómstóla sté fram sem sterkasti aðilinn meðal deilenda í Sómalíu, og vígi stríðsherranna féllu eitt af öðru. Það leit út fyrir að upp úr rjúkandi rústum landsins væri að rísa afl sem gæti orðið nýtt ríkisvald.

Þessu undu Vesturveldin ekki og gerðu Eþíópíuher út af örkinni til að ráðast inn. Þeir bættust s.s. við sem enn ein fylkingin, fylking sem er frekar auðvelt að sameina Sómalina um vegna þess að innrásarherinn er erlendur. Íslamistarnir eru sterkir. Þótt þeir eigi í vök að verjast gegn bandarískum loftárásum, þá njóta þeir baklands meðal fólksins og heyja árangursríkan skæruhernað. Innrásarherinn getur ekki sigrað þá.

Ríkisvald er framkvæmdanefnd ríkjandi afla, það vitum við. Ríkisvald er ekki stöðugt nema það njóti stuðnings ríkjandi afla í landinu. Ríkisvaldið sem SÞ reyna að koma að mun aldrei geta setið á friðarstóli á meðan fólk tengir það við Bandaríkin og innrásarher. Aldrei. Ekki frekar en í Írak eða Afganistan. Eina leiðin til þess að koma á relatífum friði í Sómalíu er að eftirláta hana öflunum sem ráðandi öfl í Sómalíu velja sjálf -- það er að segja, íslamistunum. Þeir eru þeir einu sem geta þetta.

Það eru líka þeir sem hafa náð mestum árangri í baráttunni við sjóræningjana hingað til.
Sjóránum snarfækkaði nefnilega á meðan þeir voru á hátindi valda sinna. Þegar þeim var bolað burt (í bili) snarjukust sjóránin aftur.

Svipað og með ópíumræktun í Afganistan.

Valið í Sómalíu stendur milli þess að hafa skálmöld stríðsherra og sjóræningja eða röð og reglu að hætti íslamista. Það eru ekki aðrir kostir í boði.

(Ég reikna með að af þessum ástæðum styðji saúdi-arabískir olíuflytjendur íslamistana rausnarlega.)

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Forysta Samfylkingarinnar er ekki að fara að rjúfa samstarfið, einfaldlega vegna þess að hún á engan valkost sem hentar henni jafn vel.

Það er aftur spurning hvað öfl innan Samfylkingarinnar, sem eru ekki ofan á í svipinn, eru að spá. Það er óneitanlega mikil spenna í einum flokki þegar annar endinn vill fyrir alla muni vera í stjórninni en hinn armurinn alls ekki.

Hvað eru kjósendur að segja með því að þyrpast frá Sjálfstæðisflokki til Samfylkingar skv. skoðanakönnunum? Að þeir styðji ríkisstjórnina? Hljómar það ekki afkáralega? Og á maður að trúa því að þingmenn Samfylkingarinnar séu allir svona ánægðir með ástandið? Og vilji halda áfram að hafa Davíð Oddsson í boði Samfylkingarinnar?

Á sama tíma stynur Sjálfstæðisflokkurinn og er við það að rifna líka. Munu einhver öfl innan hans gera miðsvetrarhreingerningu á landsfundinum í janúar?

Ég held að þetta sé "a game of dare" -- hvor hrekkur og hvor stekkur? Annar hvor flokkurinn á eftir að bresta innan frá, bara spurning hvor verður á undan. Báðir flokkarnir hljóta að hugsa hvort það sé ekki réttara að slíta samstarfinu áður en samstarfsaðilinn dettur í sundur. Forysta hvorugs vill slíta því, en bakland Samfylkingarinnar vill það greinilega og bakland Sjálfstæðisflokks er eitthvað að stokkast upp og spurning hvert það fer.

Um leið og annar flokkurinn springur, þá verður stjórnarkreppa og hún endar varla öðruvísi en með kosningum. Það er bara tímaspursmál. Því lengur sem það bíður, þess verr mun það líta út fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og þetta nýja fylgi Samfylkingarinnar er varla traust heldur.

Væri þá ekki snyrtilegast að horfast bara í augu við það og boða strax nýjar kosningar, kannski í febrúar?

Saturday, November 22, 2008

Limra um handtekinn Bónusflaggara

Í ríkinu eitthvað er rotið,
rækalli dýrt er smábrotið;
ef svo er ein flís
af fjármagnsins grís
þá gyltunnar dýrt mundi gotið!
(V.V.22/11)

Anarkisti tekinn úr umferð

Í gærkvöldi var ungur maður, aktífisti, handtekinn saklaus og verður haldið í fangelsi fram yfir helgi. Tilgangurinn? Að hindra hann í að fremja pólitísk prakkarastrik á almannafæri í síðdeginu í dag.
Lesið nánar um málið á bloggi Evu Hauksdóttur: Aktivisti úr umferð - valdníðsla í verki -- í alvörunni, lesið þetta, þetta er skandall dagsins og þótt víðar væri leitað.

Friday, November 21, 2008

Hvað ber að skera?

Ég vil segja fernt um niðurskurð og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu:
1. Það er ekki hægt að skera mikið niður í grunnþjónustu, "á gólfinu". Þar er boginn nú þegar spenntur til hins ítrasta og nær að auka framlög þangað til muna. Lesið Ávarp Lárusar Páls frá 1. nóvember til að skilja hvað ég á við. Aukin framlög kosta ekki peninga heldur spara peninga. Betri mönnun þýðir betri aðhlynning, þar á meðal færri mistök. Betri aðhlynning þýðir að færri þurfa að leggjast aftur inn.
2. Það má hagræða talsvert innan heilbrigðiskerfisins! Svo ég taki dæmi af Landspítalanum, þar sem ég vinn, þá rogast hann með úr sér vaxna yfirbyggingu, mjög dýra og pilsmikla. Ég get ekki metið hvað væri hægt að skera niður mikið þar, en held að það sé talsvert meira en 10%!
3. Einkavæðing er ekki hagræðing. Hún er dýrari og verri. Lesið erindi dr. Allyson Pollock frá því í vor.
4. Nú er ekki tíminn til að lækka launin hjá heilbrigðisstarfsfólki eða segja því upp. Við erum láglaunastéttir sem bárum ekki of mikið úr býtum í þessu svokallaða góðæri. Það erum ekki við sem eigum að fjúka núna. Við erum saklaus af ástandinu og mér er til efs að við tökum stórfelldum niðurskurði þegjandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~


Mótmæli á Austurvelli klukkan 15.00 laugardag!
Raddir fólksins boða til mótmæla á Austurvelli á morgun, laugardag kl. 15:00.
Komum vanhæfum ráðamönnum úr embættum sem þeir ráða ekki við, stöndum saman!
Ræðumenn:Sindri Viðarsson, sagnfræðinemi; Katrín Oddsdóttir, laganemi og Gerður Pálma, atvinnurekandi frá Hollandi. Fundarstjóri: Hörður Torfason.
(Svona fundir kosta því miður peninga. Vinsamlegast styrkið: 1132-05-41500)

~~~ ~~~ ~~~ ~~~


Það var Malcolm X, ef ég man rétt, sem skipti svertingjum í tvo hópa, akurnegra og húsnegra (field negro og house negro). Þessi orð hafa nokkurn veginn sömu merkingu og í Íslandsklukkunni: Betra er að vera barinn þræll en feitur þjónn.
Barack Obama er karlkyns lögfræðingur miklu frekar en að vera svertingi. Já, málstaður svertingja sem slíkra á alveg eftir að hafa eitthvað gott af setu hans sem forseta, en málstaður karlkyns lögfræðinga sem slíkra á eftir að njóta hans ennþá betur. Að ég nú ekki tali um auðvaldið.
Já, Barack Obama er hvítahúsnegri. Er það ekki?

Thursday, November 13, 2008

Skúli Thoroddsen

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinssambandsins, talar réttilega um ábyrgð útrásardólganna og skuldadaga þeirra, og um óbærilega skuldabagga, sem eiga að sliga okkur það sem við eigum eftir ólifað, ef allt heldur áfram að fara á versta veg. Á sama tíma er erfitt að skilja annað af honum en að hann telji það vera okkur nauðsynlegt að fá lán hjá IMF ("brýnasta nauðsyn dagsins í dag").
Í áramótagrein Skúla varaði hann við útrásinni og hvernig fjármálaauðvaldið væri að fara með okkur (1. janúar 2008 - Um nýkapitalisma). Núna vill hann ganga bónarveg til IMF, sem er alþjóðlegt fjármálaauðvald holdi klætt. Það má bóka að undir forræði IMF verður ekkert "til hagsbóta í þágu þegnanna" eins og hann sagði um áramótin að markaðskerfið ætti að vinna. Það má bóka það.
Ég skrifaði grein í janúar þar sem ég mótmælti nýársgrein Skúla: Af ný-auðvaldi og ný-misskilningi. Lesið þær báðar.

Tuesday, November 11, 2008

Opinn fundur Rauðs vettvangs

Rauður vettvangur heldur opinn fund í kvöld, þriðjudagskvöld 11. nóvember, klukkan 20, í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar).

Umræðuefnið er erindi sósíalismans inn í þjóðmálin á Íslandi í dag, hvert skal stefna, hvað skal gera, stofnun sósíalískrar hreyfingar og hvernig hún á að vera.

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta.

Þetta fundarboð má gjarnan fara lengra, með tölvupósti, bloggi eða á annan hátt.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson ritar á Eggina: Hversdagslegar lausnir á efnahagskreppunni.

Friday, November 7, 2008

Margt á seyði

Það er í mörg horn að líta þessa dagana. Mótmæli, stíf fundahöld Rauðs vettvangs, ýmis önnur félagsstörf, skriftir -- og svo vinnan.
Það er kannski síðasti séns til að lyfta grettistaki í garðinum, og ég hef ekki tíma til þess.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað fær fólk til þess að skrifa moggablogg sem er ekkert annað en endursögn á fréttinni sem er bloggað við? Hvernig getur fólk fengið það af sér að ofnota leturbreytingar? Af hverju er til fólk sem ofnotar upphrópunar- og spurningarmerki? Hvers vegna ofnota sumir semikommur?
Hvers vegna hafa sumir andlag á undan umsögn, í upphafi setningar, þar sem það á ekki við? (Dæmi: Kosningar í Bandaríkjunum vann svertingi.)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ætli Hvíta húsið verði núna málað svart?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru svo margir brandarar sem mig langar til að deila með heiminum en geri ekki vegna pólitískrar rétthugsunar. Og nei, þeir eru hvorki á kostnað svertingja, homma, gyðinga, kvenna né neinna slíkra hópa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvers vegna þurfa tækifærissinnar, ævintýramenn og æsingamenn að reyna að príla upp eftir mótmælahreyfingu venjulegs fólks?

Á döfinni

Það var grein eftir mig á Vantrú á dögunum: Guð blessi Ísland.

Það verður borgarafundur kl. 13 á laugardaginn í Iðnó.

Gleymið ekki útifundinum á Austurvelli kl. 15 á laugardag. Takið fleiri með ykkur, látið orðið ganga. Niður með vanhæfa bjána sem ráða landinu, lifi lýðræðið!

Thursday, November 6, 2008

Burt með eftirlaunaósómann

Ég vil að einhver af góðu gæjunum á Alþingi leggi tafarlaust fram frumvarp um að eftirlaunaósóminn verði afnuminn. Ég vil að atkvæðagreiðsla fari fram með handauppréttingu. Sjáum hvort einhver er á því plani að andæfa.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði einhvers staðar um daginn að það ætti að afnema eftirlaunaósómann, og ef einhver hlutaðeigandi gæti ekki sætt sig við það gæti sá hinn sami bara farið í mál, fengið sér dæmd eftirlaunin sín og orðið sér um leið til skammar. Þetta er hárrétt hjá Árna. Hvers vegna leggur hann þetta þá ekki til?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil vekja athygli á opnum fundi Rauðs vettvangs í kvöld, fimmtudag 6. nóvember, kl. 20:00 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.
Til umræðu verða þjóðfélagsmálin og hin eilífa spurning: Hvað ber að gera?
Hvað hafa sósíalistar fram að færa í umræðuna, sem borgaraleg sjónarmið eygja ekki?
Hvernig getum við endurreist þjóðfélagið á manneskjuvænni, skynsamlegri og lýðræðislegri grundvelli en verið hefur?
Látið sjá ykkur, leggið orð í belg, verið með. Takið áhugasama með ykkur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Brósi ritar: Af forsetakosningum í Bandaríkjunum

Tuesday, November 4, 2008

Mótmæli, lýðræði og spilling

Einhver reyndi að segja okkur það einhvern tímann að kerfið á Íslandi væri hið "óspilltasta" í heimi. Ég trúði því nú aldrei, en núna hugsa ég að það séu ansi margir fleiri sem trúa því ekki. Ef mælingamennirnir voru ekki beinlínis að skrökva, þá eru mælikvarðarnir þeirra alvarlega gallaðir. Og ef mælikvarðarnir eru ekki gallaðir, þá er heimurinn í verri málum en ég hélt...

Það eru ekki lítil umbrot sem við getum séð fram á í stjórnmálaumhverfinu hér á Íslandi á næstunni. Það þarf svosem enga spádómsgáfu til að segja þetta. Ef það verður ekki beinlínis bylting, þá verða eflaust mjög miklar umbætur. Ef það verður ekki bylting, þá veit ég ekki nema ég finni óspilltasta land í heimi og flytji þangað. Og þó. Ef það verður ekki bylting, þá verður áfram þörf fyrir byltingarsinnana, er það ekki?

Enginn af stjórnmálaflokkunum er mér að skapi. Nei, ég er ekki vinstri-grænn. Ég er ekki spenntur fyrir borgaralegum stjórnmálum og hef engan áhuga á því að "bæta kapítalismann". Það þarf nýjan stjórnmálaflokk sem er ekki enn einn krataflokkurinn heldur stefnir beinlínis að því að taka hér upp nýtt þjóðskipulag sem meikar sens, er réttlátt og auk þess lýðræðislegt. Ef stefnan er á eitthvað minna, þá hef ég meiri áhuga á kartöflugarðinum mínum.

Mótmælin undanfarið hafa verið mjög áhugaverð. Mogginn dregur úr fjöldanum eins og alltaf. Mitt gisk er að það hafi verið rúmlega 2000 á Austurvelli á laugardag. Kannski 2500. Það er náttúrlega massamæting -- en hvers vegna var hún ekki tíföld það? Ég er kannski of óþolinmóður. Fólkið á eftir að vakna við vondan draum. Fleira og fleira. Það mun fjölga í mótmælunum og það kemur ekki til af góðu.

Það er til fólk sem er ennþá svo sofandi að það amast við því að það sé verið að mótmæla. Ég hreint og beint átta mig ekki á þessu. Það er pínulítill hópur óreiðumanna, klaufa og mafíósa sem er að kurla hagkerfið í smátt og leggja þrælahlekki á okkur sem tekur margar kynslóðir að losna úr. Látum það vera að einhverjum lítist vel á þær horfur. Hann um það. En að ætlast til þess að öðrum lítist líka á þær, kommon!?!

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að það er klofningur í mótmælahreyfingunni. Hann skrifast á tækifærissinna sem reyna að hædjakka þessari óánægjuöldu. Ég veit ekki í hvaða tilgangi -- en mig grunar það. Þetta er óþolandi ástand, það verður að segjast eins og er.

Lýðræði er hugtak sem margir misskilja. Sumir halda að það þýði það sama og kapítalismi. Aðrir halda að það þýði að kjósa Sjálfstæðisflokkinn á fjögurra ára fresti og halda kjafti þess á milli. Hvort tveggja er langt úti á þekju.

Að því sögðu ... þá kann að vera kominn tími til að dusta rykið af lýðræðisfrumvarpinu.