Wednesday, April 30, 2008

Hjúkrunarfræðingar vinna sigur!

Skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar draga uppsagnir sínar til baka og Landspítalinn dregur nýja vaktafyrirkomulagið til baka, segir Moggi. Þrennt vil ég segja um það, í fyrsta lagi: Til hamingju, hjúkrunarfræðingar, með þennan sigur! Í öðru lagi: Takk, hjúkrunarfræðingar, fyrir að gefast ekki upp og vera okkur hinum gott fordæmi. Í þriðja lagi: Lærið af þessu, þið vinnandi fólk, og gleymið því ekki að samstaða og þrautseigja eru það sem við þörfnumst ef við viljum geta borið höfuðið hátt!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Að því sögðu vil ég bæta því við að ekkert virðist þokast í samningaviðræðum SFR og ríkisins. Ríkið gerði SFR það bjánalega tilboð að gera samninga svipaða samningum ASÍ, sem voru gerðir við gerólíkar aðstæður í febrúar, og það til þriggja ára. Því verður tæpast tekið. Samningur til eins árs er það sem meira vit er í.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég má líka til með að benda á alveg hreint stórglæsilega grein Kára Magnússonar á Egginni: Fall bandaríska heimsveldisins.

Friday, April 25, 2008

Lögregluofbeldi og bensínverð -- og maóistar í Nepal

Jæja, ég get ekki lengur orða bundist yfir vörubílstjóramótmælunum. Á miðvikudaginn lét lögreglan heimskulega og ruddalega og það á ekki að hafa þurft að koma neinum á óvart. Það er skondin tilviljun að þetta skuli bera upp á sömu dagana og málaferlin gegn Ólafi Páli eru að hefjast, þar sem hann er ákærður fyrir að hafa skemmt lögreglubíl þegar bílnum var ekið á hann. Eins fáránlega og það hljómar. Sá sem hélt að við byggjum í réttarríki, eða að lögreglan væri skynsöm stofnun sem færi sparlega með völd sín, þarf greinilega að hugsa sig betur um. Á meðan lögreglan þumbast á móti og egnir bílstjórana til átaka (sem getur varla talist sterkur leikur) lætur ríkisstjórnin eins og þetta komi henni ekki við. Er allt í lagi? Geir Haarde segir að það sé ekki hægt að ræða við menn sem komi fram með svona ofbeldi.
En bíðum við: Í fyrsta lagi er hæpið að tala um það sem ofbeldi að loka götu. Í öðru lagi er þetta slagur sem ríkisvaldið á mjög erfitt með að vinna. Í þriðja lagi eru kröfur bílstjóranna að miklu leyti réttmætar. Það hlýtur að mega semja um hvíldartíma þannig að allir geti verið sáttir, þótt strandflutningar séu mér reyndar meira að skapi en þjóðvegatrukkar. En olíuverðið er að mínu mati aðalatriðið. Bílstjórarnir hafa sínar fjölskyldur að sjá fyrir, sínar afborganir og allt það eins og aðrir; hvers eiga þeir að gjalda? Jú -- heimsmarkaðsverð á olíu er óneitanlega hátt. Hvað skal taka til bragðs? Gera hana bara ókaupandi fyrir venjulegt fólk? Takmarka aðgengi að henni með háu verði? Það þýðir að efnaminna fólk fær ekki neitt.
Augljóslega er ein lausn sem væri auðvelt að grípa til, en hún er hugmyndafræðilegt tabú: Skömmtun. Bensín á að vera ódýrt og það á að takmarka aðgengi að því með því að skammta það til þeirra sem þurfa í alvörunni á því að halda. Við höfum ekki efni á að bruðla með bensín. Það er ekkert flóknara. Það er ekki hægt að láta eins og vandamálið sé ekki til og að menn eigi ekki skilið að það sé komið til móts við þá vegna þess að þeir séu orðnir örvæntingarfullir og farnir að grípa til örþrifaráða. Halda menn að bílstjórarnir séu að þessu að gamni sínu? Nei, vandamálið er alvarlegt og lausnin er einföld ef einhver þorir að reyna hana. Hún er ekki fólgin í því að lemja örvæntingarfulla vinnandi menn í hausinn með kylfu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held ég geti sagt að fyrirlesturinn á miðvikudagskvöldið hafi barasta heppnast vel. Hann tók rúma klukkustund í flutningi, við fórum allhratt yfir sögu en fórum þó yfir allt það helsta. Áhorfendur voru tæplega þrjátíu, sem ég tel barasta fínustu mætingu. Já, ég held ég sé bara ánægður með þetta.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal hafa maóistar unnið afgerandi sigur í kosningum til stjórnlagaþings. Þeir hafa ekki hreinan meirihluta, en standa svo sterkir að þeir hljóta að hafa tögl og hagldir á þinginu. Fyrsta mál á dagskrá: Afnema konungdæmið. Prachanda formaður sækist eftir að verða forseti landsins -- og það verða að teljast ágætar líkur á að honum takist það. Það lítur út fyrir að hafrarnir verði skildir frá sauðunum. Á meðan maóistarnir voru í baráttu gegn stjórninni gátu þeir, kannski með réttu, borið fyrir sig að hinar og þessar málamiðlanir væru nauðsynlegar af strategískum eða taktískum ástæðum. Ef þeir fá völdin í landinu í hendurnar og verða sjálfir hryggjarstykkið í ríkisstjórninni, þá eiga þeir örðugra um vik með slíkt. Það er bara ein spurning: Munu þeir nota völd sín til að koma á alþýðulýðveldi eða borgaralegu lýðveldi? Ætlar Prachanda að verða forseti öreiganna eða burgeisanna? Ætla þeir að segja þetta gott eða halda út þangað til sigur vinnst? Þetta verður æsispennandi að sjá.

Friday, April 11, 2008

Kominn aftur

Í Mogganum í dag er talað um að stjórnvöld í Kína séu grunuð um að reyna að "réttlæta harðari aðgerðir gegn andófsfólki með því að bera við hryðjuverkaógn". Finnst einhverjum þetta hljóma kunnuglega, ef maður skiptir "Kína" út fyrir "Bandaríkin", "Bretland", "Þýskaland" eða jafnvel "Ísland"?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef verið erlendis og ekki getað fylgst náið með umræðunni hér heima um málefni líðandi stundar. En mér er spurn, hefur engum dottið í hug að skammta bensín? Leyfa þeim sem þurfa í alvörunni að nota mikið af því, til dæmis vörubílstjórum, að kaupa það sem þeir þurfa á viðráðanlegu verði, en takmarka aðgengi hinna sem bruðla eins og það sé enginn morgundagur. Ég keyrði Miklubraut í gær. Orðið "einkabíll" er réttnefni; það var varla sá bíll sem tveir eða fleiri sátu í. Svifryk og mengun eru eitt -- en þverrandi olíulindir annað. Við höfum ekki efni á að bruðla svona með bensín. Það á eftir að koma okkur alvarlega í koll. Fyrr en varir. Úff, hvað það verður sárt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það var ritdómur eftir mig á Egginni á föstudaginn: Hljóð herkvaðning og grein á Vantrú á mánudaginn: Sviðsett trúarbragðastríð.