Saturday, December 22, 2007

Gleðilegar vetrarsólstöður!

Málflutningurinn er Askasleikis-kortinu skemmir ekki málstað femínismans -- jafnréttið -- en spillir hins vegar fyrir baráttunni. Einhver bloggari kom með ágætan samanburð; að kalla karlmenn nauðgara á einu bretti er áþekkt því að kalla konur hórur á einu bretti. Hvernig mundi það hljóma, ef Gáttaþefur óskaði þess að konur hættu að vera hórur? Ömurlega, auðvitað! Líkingin við útlendinga og afbrot er líka jafn nöturleg og góð. Móamangi óskar þess að útlendingar hætti að brjóta lögin. Er einhver hissa á því að mér, sem karli, finnist þetta móðgun?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað sagði ég ekki, Þorsteinn Davíðsson hefur "einstaka reynslu" í starf héraðsdómara. Einstaka, hvorki meira né minna. Árni veit hvað hann syngur. Að fólk skuli nenna að vera að býsnast yfir þessu. Hvað er þetta, á að refsa blessuðum manninum fyrir að vera sonur föður síns? Er hann verri manneskja vegna þess? Er einhver pólitísk erfðasynd í beinum hans?

Friday, December 21, 2007

Askasleikir óskar sér þess ...

Ég veit ekki hvort mér finnst rétt að kæra, en ég er sammála FÁF um að þetta jólakort sé ósmekklegt. Að karlar hætti að nauðga? Ég biðst forláts! Hvað eiga svona alhæfingar að þýða? Þeir sem ég hef talað við eru hér um bil á einu máli um að svona tal sé móðgun við karla. Ég held að það sé ekki bara gagnslaust, heldur beinlínis skaðlegt fyrir málstað femínismans og samskipti kynjanna.

Saturday, December 15, 2007

Illugi, gefðu þig fram!

Í leiðara Morgunblaðsins í fyrradag skrifaði leiðarahöfundur (Styrmir, vænti ég):
Hér skal dregið í efa að íslenzkur þegn hafi nokkru sinni fengið aðra eins
meðferð og Erla Ósk lýsir, m.a. í Morgunblaðinu í dag, hjá ríkjum kommúnismans
eða fasismans eða nokkru einræðis- og kúgunarríki í veröldinni.
Aldrei nokkru sinni? Jæja, aldrei að segja aldrei. Fyrir rúmum tveim árum hlaut Arna Ösp Magnúsardóttir sambærilega meðferð þegar hún kom til Ísraels. Henni var haldið í um 30 klukkutíma og síðan snúið öfugri úr landi eftir ógnanir og illa meðferð. Hvað hafði aðstoðarmaður forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson, um málið að segja? Jú: »Ísraelar hafa nú rétt til að verja sig,« sagði hann. Það var og! Hvar er Illugi núna, að segja að Bandaríkjamenn hafi nú rétt til að verja sig? Illugi, gefðu þig fram!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær birti Fréttablaðið grein eftir mig: Trúleysingjar eru líka fólk heitir hún, og mun líklega birtast á Vantrú innan skamms. Kannski að það sé bara tilviljun, en vegna veðurs var einmitt þetta tölublað Fréttablaðsins ekki borið út í hús. Var guð að leggja stein í götu mína?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er búið að laga dálkaskiptinuna á Egginni, svo síðan er aðeins þægilegri í meðförum núna. Þar skrifaði Þórarinn Hjartarson einmitt í gær: 11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum“ og Hrafn Malmquist á miðvikudaginn: Hver eru leikföng? Hvað er bara fyrir krakka? -- lesið þetta og hafið gagn og gaman af.

Monday, December 10, 2007

Mikil er trú þín, Karl

Siðmennt hefur svarað bréfi Karls Sigurbjörnssonar. Ég á bágt með að trúa að Karli finnist hann hafa sterka stöðu í þessum deilum. Og þó, maður veit aldrei. Hugrænt misræmi getur verið furðulega sterkt afl og tekið stjórnina af skynseminni þegar hagsmunir, sjálfsmynd eða annað merkilegt er í húfi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar: Burt með hryðjuverkalögin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvernig geta Ísraelar haft áhyggjur af því að Rússar vilji fá þá Rússa heim til Rússlands, sem hafa flutt til Ísraels?„“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Er þetta grín? Ég leyfi mér að halda því fram að hækkun olíuverðs eigi ekki nema að litlu leyti rætur að rekja til aukinnar olíunotkunar í olíuframleiðsluríkjum.

Friday, December 7, 2007

„Skalat maðr rúnir rísta, nema ráða kunni“

Það eru gömul sannindi að maður á ekki að vekja upp drauga sem maður getur ekki kveðið niður aftur. Það hefði áróðursdeild Þjóðkirkjunnar átt að geta sagt sér sjálf. Nú virðist herferðin, sem hefur staðið yfir undanfarna daga, vera að snúast í höndunum á þeim. Það er sama sagan og alltaf, að ódrengileg framkoma Þjóðkirkjunnar við aðra -- hvort sem það eru samkynhneigðir eða trúlausir -- kemur sér verst fyrir hana sjálfa. Á dögunum birti Vantrú greinaflokk eftir mig sem kallast Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni, I: Opnið augun, II: Rætur vandans og III: Ráðið ykkur framkvæmdastjóra. Kirkjan hefði gott af því, og allir aðrir líka, að hún tæki það til athugunar sem ég skrifaði þar.

Í dag er heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu (s. 25), sem Siðmennt keypti til þess að koma því á hreint hvað hún vill og hvað hún vill ekki. Þessar rangfærslur eru óþolandi, og étur hver eftir öðrum. Ábyrgð Bjargar Evu Erlendsdóttur er mikil í því máli, eftir að hún ranghermdi það eftir Bjarna Jónssyni að Siðmennt væri á móti litlu jólunum í skólum. Þvílík fásinna. Siðmennt er á móti helgileikjum að svo miklu leyti sem í þeim felst trúboð. Það er málstað kirkjunnar síst til framdráttar að halda þessu blaðri áfram, til viðbótar við allan þann ófögnuð sem talsmenn hennar hafa látið út úr sér um trúleysingja í gegn um tíðina. Dylgjur og vísvituð ósannindi fara henni illa.

Trúboð í leikskólum er ekki spurning um vinsældakosningar trúarbragða, heldur um mannréttindi. Einstaklingsbundin mannréttindi og ófrávíkjanleg.

Tuesday, December 4, 2007

Siðmennt. Líka Venezuela.

Rógsherferð Þjóðkirkjunnar undanfarið gegn Siðmennt er með ólíkindum. Eða, öllu heldur, hún er dæmigerð í eðli sínu þótt umfangið sé meira en maður á að venjast. Talsmenn Siðmenntar hafa staðið sig vel; það er kúnst að halda stillingu og þolgæði frammi fyrir svona breiðsíðu af dylgjum og rangfærslum, þar sem bloggarar og fjölmiðlamenn éta vitleysu hver upp eftir öðrum og láta liggja óbættar hjá garði -- það er að segja, óleiðréttar. Svakalegt. Ef ég væri ekki orðinn félagi í Siðmennt fyrir löngu mundi ég gerast það á stundinni. Ég mæli með því að fólk skoði heimasíðu Siðmenntar og gangi jafnvel í félagið. Það er margur húmanistinn sem ætti heima meðal skoðanasystkina sinna og leggja lóð á vogarskálarnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandaríkin fagna ósigri Chavez -- ekki undrast ég það. Þau reru líka öllum árum að honum. Þetta kemur samt á óvart, verð ég að segja. Ekki held ég samt að öll kurl séu komin til grafar -- þeir eiga fleira í pokahorninu og eru með virk og svæsin plön um að steypa Chavez með illu. Tapið í kosningunum er bara hluti af stærra plotti. Venezúelsk stjórnvöld komust að því um daginn, fundu leyniskjöl þegar þau rótuðu í tösku bandarísks diplómata, og gerðu plönin opinber. Verkbönn, samgöngutruflanir, valdarán. Þetta er í pípunum, en dokum við og sjáum. Ég reikna með að tjá mig meira um þetta áður en langt um líður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um glæpamanninn Pútín hef ég ekki annað að segja en að hann mundi ekki þekkja lýðræði þótt því væri vafið um hálsinn á honum og hert að. Ég skil ekki að nokkur stjórnmálamaður með heiðarlega hugsjón fyrir lýðræði vilji nokkuð saman við hann sælda ótilneyddur. Þessi ófyrirleitni asni og ruddi.

Monday, November 26, 2007

Hagkerfi með sótthita

Gullverð er barómeterinn sem er hvað áreiðanlegastur til þess að spá fyrir um veðrið í hagkerginu. Í augnablikinu er únsan í rúmum 820 dölum. Fyrir ári var hún á tæpa 650 dali. Fyrir tveim árum á 500 dali. Fyrir fimm árum í tæpum 350 dölum. Eftir 11. september 2001 STÖKK verðið upp í 290 dali únsan. Og núna er það um 820 dalir, sem áður sagði. Þeir sem vilja hafa sitt á þurru þegar kreppan kemur, kaupa gull.

Hver er skýringin? Jú, þumalputtareglan er að únsa af gulli kosti sirka sama og tíu tunnur af olíu. Verðið á olíutunnunni hefur verið á bilinu 85-100 dollarar undanfarinn mánuð. Gullverðið lætur ekki á sér standa. Það tók tind fyrir viku, en á eftir að snarhækka áfram. Tal um Íraksstríð eða yfirvofandi stríð gegn Íran er fyrirsláttur. Skýringin er einföld: Markaðurinn finnur að olían fer þverrandi. Hann finnur strax og eftirspurnin fer fram úr framboðinu. Hvað þá þegar hún hendist fram úr því. Eða, réttara sagt, þegar framboðið steypist niður úr eftirspurninni.

Gott fólk, olíukreppan nálgast. Ekki af pólitískum ástæðum og varla einu sinni af hagfræðilegum ástæðum heldur. Ástæðurnar eru jarðfræðilegar. Reynið bara að deila við þann dómara.
--- ---- ---- --- ---- ---- ---
Það er grein eftir mig á Egginni í dag, um frönsku verkföllin: Hvað er með Frökkum? Lesið hana. Hrósið henni.

Wednesday, November 21, 2007

Í dag er 21. nóvember

Í dag á ég grein á Egginni: Jibbí, jólin koma! heitir hún og er, því miður, löngu tímabær.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag er líka grein eftir mig á Vantrú: Hinn mikli velunnari samkynhneigðra. Umfjöllunarefnið eru Þjóðkirkjan og biskupinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ian Smith er dauður! Sá ljóti og heimski kúkalabbi mun þá varla gera fleira saklausu fólki skráveifu. Í Moggafréttinni er hann sagður hafa gagnrýnt Mugabe harðlega, sakað hann um að hafa eyðilegt landið og að vera ekki með réttu ráði. Kostulegt. Smith getur trútt um talað, eins og títt er um aflóga stjórnmálamenn. Í fyrsta lagi voru það Smith og kúkalabbavinir hans sem héldu Ródesíu í greipum óréttlætis en Mugabe braut þá á bak aftur (þá var hann hetja). Í öðru lagi hefur Smith tekið þátt í MDC (Movement for Democratic Change) með Morgan Tsvangirai og félögum, og þannig verið þeim til þeirrar óþurftar að afhjúpa hvað er í rauninni á bak við þá hreyfingu: Vestræn heimsvaldastefna. Smith hefur ekki bara tekist að stjórna landinu svo illa og óréttlátt að Mugabe hafi komist til valda, heldur hefur hann auk þess óvart gert stjórnarandstöðuna gegn Mugabe ótrúverðuga og þannig óbeint hjálpað honum að halda í völdin!
Var ekki Halli málaliði frá Akureyri annars í skítverkum í Ródesíu?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Frostrósir“ halda tónleika í desember og okurverð er rukkað fyrir aðgöngumiða, eins og títt er orðið um stærri tónleika hér á landi.
Hvað með það? Hverjum er ekki sama? Hvern langar að fara? Verður einhver súr yfir að komast ekki?

Bíræfni, ófyrirleitni, gnístran tanna

Ég fór á Þjóðarbókhlöðuna á mánudagskvöldið, skildi hatt minn, jakka og trefil eftir í fatahenginu eins og ég er vanur, og leit síðan á tölvuverið. Undi mér þar í á að giska klukkutíma og stóð síðan upp til þess að yfirgefa svæðið.

Ég gekk berhöfðaður heim. Einhver asni hafði verið svo óprúttinn að taka hattinn minn úr fatahenginu. Ég var rændur!

Hatturinn hefur ekki komið í leitirnar ennþá. Ég hef ekki alveg gefið upp vonina, en hún er satt að segja ekki mikil. Til bráðabirgða hef ég tekið gamalt pottlok í notkun, en er ekki eins ánægður með það og hattinn góða. Þessi hattur var keyptur í lítilli hattabúð í London í júníbyrjun 2002. Hann var hugsaður sem eins konar sólhlíf, þar sem ég var á leiðinni til hinnar sólríku Palestínu. Sem slíkur reyndist hann óaðfinnanlega; sólarljós sleppur illa í gegn um hnausþykkt leður.

Þegar ég kom heim hengdi ég hann upp á vegg, en nokkrum mánuðum síðar skall á ofboðsleg vætutíð. Valið stóð á milli þess að fara að nota regnhlíf eða að ganga með hatt; hatturinn varð fyrir valinu. Frá þeim degi hef ég notað hann í næstum því hvert einasta skipti sem ég hef farið út úr húsi, eins og þeir hafa séð sem hafa séð mig. Og nú virðist hann vera allur.

Friday, November 16, 2007

Bréf til Vífilfells

Ég var að senda þetta til markaðsdeildar Vífilfells hf.:

Góðan dag.
Síðasta föstudag (9. nóvember) var ég staddur á Vínbarnum í Kirkjustræti þegar inn kom hópur fáklæddra stúlkna sem voru að kynna "jólabjór" frá Vífilfelli. Ég tel rétt að segja ykkur að vegna þessarar niðurlægjandi aðferðar við markaðssetningu hef ég ákveðið að kaupa þennan svokallaða jólabjór ykkar aldrei, og mun hvetja aðra til þess sama. Ég vona að þið sjáið að ykkur og hættið að nota kvenlíkama eða karlrembu til þess að markaðssetja vörur ykkar.
Kv. Vésteinn Valgarðsson


~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Elías Davíðsson skrifar: Íslendingar að undirbúa lögregluríki með bros á vör.

Wednesday, November 14, 2007

Tilbúin undir lýðræði?

Mér finnst skondið að þegar Pervez Musharraf, Alaksander Lukashenko og fleiri af þeirra sauðarhúsi segja þjóðir sínar ekki vera tilbúnar fyrir lýðræði, að þá skuli menn fussa.
Þeir eru bara að segja sannleikann. Hvers vegna að fussa yfir sannleikanum?
Ef þjóðir þeirra væru tilbúnar fyrir lýðræði, þá væru þær búnar að sækja sér það, með góðu eða illu. Þegar þjóð verður tilbúin fyrir lýðræði, þá steypir hún viðkomandi einræðisherra og kemur því á.
Það verður sjaldan lýðræði án þess að bylting eða uppreisn spili inn í.
Það vekur aftur spurningar um lýðræði t.d. hér á Íslandi.

Friday, November 9, 2007

Æh..

Ég hélt að ég væri að skúbba einhverju svakalegu hér í síðustu færslu, brennandi skipi eða einhverju. En ég er búinn að komast að því hvaða fyrirgangur þetta var á Sundahöfn um daginn.


Það var verið að taka kvikmynd.


Það var nú allt og sumt.

Wednesday, November 7, 2007

Dagurinn í dag

Í dag er grein eftir mig á Egginni: Októberbyltingin 90 ára.
Það er líka grein eftir mig á Vantrú: Ósamræmi: Trúfélagsskráningar- og fermingaraldur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Btw, vissuð þið að það var núna í ágúst síðastliðnum, sem þrælahald var bannað með lögum í Máritaníu? Eða að það viðgengst enn í Níger, og að hundruð þúsunda eru í ánauð? Þá er ég að tala um löglegt þrælahald, ekki mansal eða aðrar tegundir þrælahalds sem viðgangast í trássi við lög.

Til hamingju með daginn!

Í dag eru 90 ár frá rússnesku byltingunni, merkilegasta atburði tuttugustu aldar!

Í tilefni dagsins stendur Byltingarráðið fyrir fundi í Friðarhúsi (Njálsgötu 87) klukkan 20:00. Rætt verður um sögu byltingarinnar, ávinninga og vandamál, og um horfur í byltingarmálum í dag og eru allir velkomnir.

Það mun birtast grein eftir mig á Egginni á eftir (þ.e.a.s. í fyrramálið; ég skrifa þetta um hánótt). Ef einhver getur ekki beðið, þá vil ég benda á aðra grein eftir sjálfan mig sem þar birtist í fyrradag, 5. nóvember: Gleymum aldrei fimmta nóvember. Umfjöllunarefni hennar er auðvitað Guy Fawkes og sú ólíkindaatburðarás sem hann var frægasti þátttakandinn í fyrir 402 árum síðan. (Þess má geta að ég ætlaði mér alltaf að skrifa grein um þetta efni og senda Lesbók Morgunblaðsins á 400 ára afmælinu fyrir tveim árum, en hvað um það...)

Það er nóg að gera við að ritstýra Frjálsri Palestínu, en verkið sækist vel ef einhver vill vita það.

Reykjarbólstrar og þyrlugnýr um nótt

Upp úr miðnætti opnaði ég bakdyrnar og brá mér út fyrir til þess að reykja eina sígarettu. Mikill gnýr var úti, og gekk ég aftur fyrir Klepp til að sjá hvað væri á seyði. Þyrla -- mér sýndist það vera þyrla Landhelgisgæslunnar -- hnitaði hringa yfir Sundahöfn og ljóskeilu sló frá henni niður yfir sundin, en mest á skip á höfninni. Fleiri ljóskeilur sá ég, eina sem mér sýndist vera frá skipinu og mér sýndist ég sjá tvær til viðbótar ofan úr einhverjum turnum nálægt því. Kleppskaft (klettur með nokkrum húsum) byrgði sýn, þannig að ég sá ekki annað af skipinu sjálfu en strompana, en mikla reykjarbólstra lagði frá því. Þeir kunna að hafa komið úr strompunum, en voru þó svo miklir að ég efast um það.
Jæja, síðan tala ég í síma við konu sem er á vakt uppi í risi hér á Kleppi. Hún hafði skiljanlega betra útsýni, og sagði mér að hún sæi tvo litla dráttarbáta úti á sundunum, og tollara keyra um, meðal annars á Kleppskafti hérna steinsnar frá, og henni sýndist skipið vera merkt Eimskipafélaginu. Eitthvað var greinilega á seyði. Ekkert hef ég ennþá séð um þetta dæmi á Rúv, Mbl eða Vísi, en verð að segja að ég er nokkuð forvitinn.
Var brennandi skipi siglt inn á Sundahöfn? Var verið að bösta heilan skipsfarm af Vítisenglum? Hvað? Hvað?

Thursday, November 1, 2007

Á heimasíðu Alcoa stendur að glæpamennirnir í BAE Systems, sem eru að funda á Hilton Nordica, kaupi álið í F-35 þoturnar af þeim, rétt eins og glæpamennirnir í Lockheed-Martin og Northrop-Grumman.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-kóreskir hásetar berjast við sómalska sjóræningja og fá síðan læknisaðstoð um borð í bandarísku herskipi. Er ég einn um að finnast þessi frétt alveg stórmerkileg?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hrafn Malmquist skrifar: Stéttabaráttan í nýju Evrópu á Eggina.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef íbúar Myanmar eru að byrja að hrista á sér hlekkina aftur, þá vil ég bara segja þetta: Ég vona að þeir geri byltingu, steypi þessum hershöfðingjum og byrji fyrir alvöru á hinni búrmísku leið til sósíalisma -- og þá er ég ekki að tala um það blaður sem herforingjastjórnin hefur viðhaft, heldur alvöru sósíalisma, sem felur í sér lýðræði, mannúð og að hagkerfið sé skipulagt eftir þörfum almennings en ekki valdastéttarinnar. Það sem væri alveg afleitt, alveg afleitt, væri ef Vesturveldin eða önnur heimsvaldasinnuð ríki færu að hlutast til um gang mála með hervaldi. Þau væru eins líkleg til að senda juntunni skipsfarma af græjum til að "stilla til friðar" eins og að reyna að koma henni frá.
Það gerir mig væntanlega að sérlegum stuðningsmanni mannréttindabrota herforingjastjórnarinnar, að ég sé mótfallinn árás á Myanmar. En alþýða Myanmar verður ekki frelsuð með öðrum vopnum en þeim sem hún hefur sjálf í höndunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þar sem við stóðum fyrir framan ameríska sendiráðið á þriðjudaginn, og vorum að reyna að gera öryggisvörðum Skúritas það skiljanlegt að við færum ekki nema lögregla bæði okkur um það, þá verður Lárusi það að orði, að ef við yrðum handteknir ólöglega, þá mundum við sækja skaðabótamál --- og þá spurði annar skúritas-gæinn hvort við værum atvinnulausir! Ég varð nú forviða og sagði bara nei (við Lalli erum sko báðir næturverðir) --- en hugmyndin var athyglisverð: Það væri sniðug aukabúgrein að drýgja atvinnuleysisbæturnar með skaðabótum fyrir ólögmætar handtökur fyrir góðan málstað!

Tuesday, October 30, 2007

Hress mótmæli

Jæja, fór við annan mann og við mótmæltum fyrir framan Hilton/Nordica. Ekki máttum við standa inni, en fengum að standa úti eins lengi og við vildum, alveg uppi við húsið (þótt það sé reyndar einkalóð og þeir hefðu þannig séð getað rekið okkur í burtu). Tvær löggur komu og höfðu svosem ekkert við friðsamleg mótmæli að athuga.
Þannig að þegar við nenntum þessu ekki lengur, þá fórum við fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna og mótmæltum þar. Þangað kom hvorki meira né minna en Stefán Eiríksson lögreglustjóri. Hann var nú ekkert að stressa sig, en útskýrði fyrir okkur hvar við mættum vera og hvar við mættum ekki vera og þannig -- og ég hugsa reyndar að það hafi þrátt fyrir allt staðist að við mættum ekki vera á stéttinni beint fyrir framan húsið. Þarf að kanna það betur. Hann var bara hress, og líka sá sem var með honum, góðlegur fullorðinn maður. Ég notaði tækifærið til að hrósa Stefáni fyrir hvað hann væri sýnilegur í starfi.
Öryggisverðir sendiráðsins voru ekki eins hressir. Það hlýtur að fara í spælurnar á þeim að mega ekki gera manni neitt þegar maður stendur þarna í sakleysi sínu, og að maður skuli þekkja rétt sinn.

BAE Systems

Það eru stríðsmangarar á meðal vor! Ég fer eftir svona hálftíma til að mótmæla þeim. Komið líka.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er hugmynd sem er ávísun að vandræðum: Takið stóran hóp blóðþyrstra og skotglaðra manna, setjið þá niður á átakasvæði, gráa fyrir járnum, og hefjið þá yfir lögin á staðnum. M.ö.o. Blackwater. Ósnertanlegir? Nú, það þýðir væntanlega að það þarf bara að fullnægja réttlætinu með öðrum, aðeins minna siðmenntuðum hætti, er það ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Olíutunnan yfir 93 dollara -- pólitískum aðstæðum kennt um. Það er auðvitað hreint bull. Pólitískar aðstæður mundu ekki hækka verðið svona mikið ef það væri ekki farið að þrengja að olíumörkuðunum.

Wednesday, October 17, 2007

Umhugsunarverð ummæli

Morgunblaðið sagði á föstudaginn, með stríðsfyrirsögn, að "borgarstjórn" hefði verið "bylt". Hver hefði búist við því að Björn Ingi Hrafnsson væri byltingarleiðtogi Íslendinga? Svandís Svavarsdóttir sagði að "hreyfing almennings" hefði fellt meirihluta borgarstjórnar á dögunum. Varð einhver var við það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef það er eitthvað sem okkur vantar, er það þá ekki önnur innrás í Írak?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Baskalands? Kannski að það sé bara ágæt hugmynd?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Til hvers að borga 200 milljónir fyrir bíl, í alvöru talað? Viskíflösku mundi ég skilja, en bíl?

Monday, October 15, 2007

Um borgarmál ... og Spán

Ekið á gangandi vegfaranda á Geirsgötu -- það minnir mig á fréttina um daginn, en tölfræði segir að hlutfall gangandi vegfarenda sé mun lægra í umferðarslysum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Sumum kann að þykja það gott, en ekki mér. Þetta er nefnilega einkenni á þeirri áráttu Íslendinga að vilja helst ekki fara gangandi milli húsa. Bílafloti landsmanna er meira en nógu stór til þess að allir komist fyrir í framsætunum einum. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Það ætti að vera ókeypis í strætó fyrir alla, alltaf. Þá mætti spara óhemjukostnað við að laga og stækka umferðarmannvirki, þjóðfélagslegan kostnað af bensíneyðslu, mengun, tryggingum, slysum og stressi. Það mætti meira að segja hækka verðið á bensíni (og kallið mig bara bandamann Búrmastjórnar!) þótt mér finnist frekar að það ætti að lækka það, en skammta það til almennings, og sama mætti reyndar gilda um einkabíla. Hjón með tvö börn þurfa ekki að eiga þrjá bíla, díses!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íbúar í Gnúpverjahreppi og víðar við Þjórsá vilja ekki virkjun. Hvers vegna dugir það ekki sem ástæða til þess að sleppa því að byggja hana?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Að hugsa sér að Batasuna-flokkur Baska hafi verið bannaður, ekki fyrir það sem hann gerði/sagði heldur fyrir það sem hann gerði/sagði ekki! Þeir neita að fordæma ETA skilyrðislaust. Það er misskilningur að Batasuna sé „pólitískur armur“ ETA -- þar eru engin skipulagsleg tengsl á milli. Banninu á Batasuna fylgir bann við því að nokkur sem hefur starfað með Batasuna megi starfa með nokkrum öðrum flokki, að viðlögðu banni við þeim flokki líka. Það jafngildir því að fjórðungur Baska sé de facto sviptur kosningarétti. Hvers vegna er þessum mannréttindabrotum ekki mótmælt? Hvar er Félagið Ísland-Baskaland?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að segja að mér finnst nýja borgarstjórnin lyktar af stækri tækifærismennsku. Björn reddar á sér rassgatinu, hin komast til valda. Kannski gerast kaupin bara svona á eyrinni; það kann að vera lítil fórn að redda rassinum í Birni í skiptum fyrir allt það sem vinstrisinnuð borgarstjórn getur gert gott fyrir borgarbúa. Skv. skoðanakönnun Fréttablaðsins mundu Sjálfstæðismenn og Frjálslyndir tapa manni hvor, en Samfylking og Vinstri-græn auka við sig manni hvor, ef kosið væri núna. Hvað með að boða þá bara til kosninga núna, og mynda fyrst nýtt sameiginlegt framboð Samfylkingar, VG og Íslandshreyfingarinnar, og koma Margréti Sverrisdóttur og Ólafi F. Magnússyni báðum inn í borgarstjórn sem aðalmönnum, en leyfa Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að éta það sem úti frýs?

Friday, October 12, 2007

Það sem mér finnst um atburði dagsins í borginni

Þann 9. nóvember 1932 var Gúttóslagurinn. Formaður Kommúnistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason var að kenna námsmeyjum í Kvennaskólanum, og gat með öngu móti komist frá. Í dag voru sviptingar í borgarstjórn, og næturvörðurinn ég var sofandi. Breytir það einhverju? Nei -- ekki öðru en því að ég blogga ekki um málið fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Big deal.
Mér finnst kostulegt að fylgjast með þessu máli. Þvílík spilling! Þórólfur Árnason hafði manndóm til að segja af sér þegar hann fann að hans vitjunartími var kominn, og gat haldið ærunni svona nokkurn veginn. Það sama verður ekki sagt um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.
Við hverju er að búast, þegar maður hefur hrapp í herbúðum sínum, öðru en að maður fái rýting í bakið? Eru Sjálfstæðismenn virkilega svo grænir að þetta komi eins og þruma úr heiðskíru lofti?

Fleyg orð
Í umræðum dagsins hafa nokkur gullkorn hrotið af lyklaborðum landsmanna. Hér eru nokkur dæmi sem mig langar að halda til haga:
Ég les oft blogg Jóhannesar Ragnarssonar. Hann veifar oft réttu tré og kemst auk þess vel að orði. Í kommenti um blogg um mál dagsins kemst hann svo að orði, og ég leyfi mér að vitna beint í hann: „Ég held ... að minnihlutaflokkarnir hefðu líka getað hafnað því að draga kjölturakka Halldórs Ásgrímssonar upp úr drullunni og leyft honum, þess í stað, að veltast um í svaðinu með Villa og frjalhyggjuæskunni. Ég er þeirrar skoðunnar að ætíð fari best á, að asninn fylgi eyrunum.“ Pragmatistinn í mér hefur efasemdir um þessa skoðun, en púrítaninn í mér skríkir af kæti!
Ég kútveltist af ... öh ... andakt yfir þeirri speki hins geðþekka Stefáns Friðriks Stefánssonar segir að nýr meirihluti sé „án málefnagrunns“ -- það var og!
Sjálfstæðismaðurinn Þrymur Sveinsson hefur lært þá lexíu að það „borgi sig illa að treysta Framsókn“ -- tími til kominn!
Óskar Helgi Helgason leggur Vilhjálmi fleyg orð í munn: „Og þú líka, Brútus, sonur minn!“ Vel að orði komist.
Mbl.is hefur eftir Vilhjálmi að þetta komi á óvart því engin „önnur alvarleg ágreiningsmál hefðu komið upp“ í samstarfinu!
***************************************
Í öðrum fréttum, þá fylgist ég nokkuð spenntur með gangi mála í Pakistan. Mér sýnist samt að þar séu, eins og svo víða annars staðar, úlfar og refir að bítast um sauðina. Ég held að það væri bara best að Pakistanar gerðu bara byltingu og steyptu þessum spilltu pólitíkusum af stóli, en kæmu sér í staðinn upp ráðstjórnarskipulagi og sósíalisma.
***************************************
Sex uppreisnarhópar í Írak taka höndum saman gegn Bandaríkjunum -- það gæti orðið athyglisvert. Ég sakna þess samt frá Írak að andspyrna á forsendum sósíalisma sé ekki meira áberandi. Það er btw. villandi fréttaflutningur af andspyrnunni. Hún er alls ekki eins trúarleg og halda mætti ef maður læsi bara Morgunblaðið, heldur er, merkilegt nokk, ennþá sterk þjóðleg andspyrna. Það er nú snöggtum skárra.

Thursday, October 11, 2007

Rant dagsins

Jæja, fyrst utanríkismálanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins hefur samþykkt það, þá er víst engum blöðum um það að fletta, að Tyrkir frömdu þjóðarmorð á Armenum. Ég skil ekki hvað Lýðveldið Tyrkland hefur á móti því að viðurkenna að Ottómanska ríkið hafi framið þjóðarmorð. Hvers vegna að verja gjörðir harðstjórans? Framdi Atatürk kannski valdarán og stofnaði lýðveldi vegna þess að soldáninn hafi verið svo góður? Ég hefði haldið að viðurkenning þjóðarmorðsins, ásamt fordæmingu á því og heitstrengingu um að slíkt mundi aldrei endurtaka sig, mundi frekar styrkja lýðveldið í sessi en hitt.
Það má segja framboði Íslands til Öryggisráðsins til málsbóta, að hér hefur þó aldrei verið framið þjóðarmorð. Alla vega hefur þá verið þagað rækilega um það. Eða, ætli Spánverjavígin á Vestfjörðum geti annars talist þjóðarmorð? (Austurríkismenn tóku þátt í Helförinni, en hafa ekki afneitað henni.) Ekki það, að þetta skipti miklu máli pólitískt séð, því pólitíkin fer gjarnan eftir öðrum brautum en siðferðinu.
Nú munu þeir sem telja herforingjastjórnina í Búrma vera Mahómet Samtaka hernaðarandstæðinga væntanlega telja þetta ósigur fyrir SHA. Ætli það komi ekki ályktun frá miðnefndinni, þar sem eindregnum stuðningi er lýst við Mehmet V soldán, og lygar Armena fordæmdar...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Og ég er hræddur um að einhverjir eigi líka eftir að reka upp stór eyru þegar þeir heyra þessa frétt: Mahmoud Abbas segir að Ísraelar verði að skila hernumdu svæðunum! Ismail Hanyeh segist reiðubúinn að ræða við Fatah og að Hamas geti vel láti völdin á Gaza af hendi! Hafa verið gerð endaskipti á góðu og vondu gæjunum eða hvað?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held að það sé alveg rétt hjá Pétri Blöndal, að regluverk heilbrigðiskerfisins sé á of háu flækjustigi. Það eru líka ýmsar reglur sem eru beinlínis ósanngjarnar. Er t.d. sanngjarnt að fólk geti ekki átt lögheimili á spítala, þótt það hafi verið inniliggjandi í áratugi og eigi enga von um að útskrifast? Er sanngjarnt að fólk geti ekki komist inn á hjúkrunardeild á dvalarheimili fyrir aldraða vegna þess að það er með skráð lögheimili í bæjarfélagi þar sem það býr ekki lengur? Er eðlilegt að fólk sem einu sinni er lagt inn á geðdeild sé dæmt inn á geðdeild ef það veikist líkamlega?
Það er annars fleira en regluverkið sem er torvelt. Skriffinnskan og smákóngaveldið eru yfirgengilega þunglamalegar fjárhítir og taka fé og tíma frá nauðsynlegri þáttum. Valkvæm einkavæðing á ýmsu, t.d. ræstingum, er einnig til vandræða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Smælki: Bojkotta Samskip? *** Kallið mig fasista, en mér finnst rétt að íslenska verði opinbert tungumál Íslands. *** Mér finnst að Guðfinna Bjarnadóttir hefði átt að greiða atkvæði með þessari tillögu um sköpunarskáldsöguna. En það er nú bara það sem mér finnst. *** Ætli þessi fréttatilkynning hafi verið skrifðu undir þrýstingi? *** Þetta kalla ég borgaralega óhlýðni!

Wednesday, October 10, 2007

Eva norn skrifar um gengisfellt orð, um klisjuna að „nauðgun sé sálarmorð“. Ég tek í sama streng og hún.
Arngrímur Vídalín leggur sín lóð á vogarskálarnar til að leiðrétta átta algenga misskilninga; eins og ég segi í kommenti þar, þá væri aðeins skemmtilegra að lifa ef allir vissu þetta. Þannig að lesið leiðréttingar hans og bætið heiminn smávegis með því að tileinka ykkur þær, ef þið hafið ekki þegar gert það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mér finnst alveg sérlega langt seilst í vitleysunni, þegar hægrimenn halda því fram að herforingjastjórnin í Mjanmar sé einhver Mahómet íslenskra vinstriróttæklinga. Þó hef ég séð því haldið fram, taki sá til sín sem á.

Tuesday, October 9, 2007

9. október

Elías skrifar: Vændi -- tvöfalt siðgæði á Eggina, og ég skrifa um Che Guevara: Che Guevara -- 40 ára minning. Það þarf varla að segja neinum, en í dag eru fjörutíu ár síðan hann var drepinn. Ég er ekki yfirlýstur Che-aðdáandi, og á ekki einu sinni bol með honum á. Hins vegar fer það óskaplega í taugarnar á mér hvernig oft er fjallað um hann. Ekki vegna þess að það megi ekki gagnrýna hann, heldur vegna þess að skrifin eru svo oft svo ósanngjörn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
GT verktakar fyrir austan fóru aldeilis illa að ráði sínu með þetta útlendinga. Ég vona að það verði komið lögum yfir þessa glæpamenn. Það er óþolandi, alveg gjörsamlega óþolandi, hvað atvinnurekendur komast upp með í viðskiptum sínum við erlent verkafólk. Það er auk þess óþolandi að íslenska verkalýðshreyfingin skuli ekki vera þess megnug að stöðva þetta í eitt skipti fyrir öll. Gott og vel, þau gera alveg heilmikið, en halda samt ekki í við glæpamennina sem hlunnfara saklaust fólks em þekkir ekki rétt sinn eða er minni máttar af öðrum ástæðum.
Ef réttarkerfið lætur svona menn ekki fá það sem þeir eiga skilið, þá endar þetta með því að einhver annar mun gera það. Þætti hinu opinbera það skemmtilegra? Þætti hr. GT skemmtilegra sjálfum ef góðir menn tækju niður um hann og hýddu á honum sitjandann?
Sumir segjast skammast sín fyrir land okkar. Ekki skil ég í því. Hins vegar finnst mér valdastéttin hérna hreint ekki merkilegur pappír.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var spurður hvort mér fyndist að OR ætti að setja hlut sinn í GGE og REI eða ekki. Ef satt skal segja, þá finnst mér bara hvorugt. Ég held hvorki með prívatauðmagni né opinberu auðmagni. Mitt svar við þessu OR dæmi er að við ættum að gera byltingu og steypa valdastéttinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fjöldaaftökur í Afghanistan. Jæja, svo lengi sem þeir eru ekki að eyðileggja ævafornar Búddastyttur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Getur einhver sagt mér hvort starfsfólk McDonalds á Íslandi er í stéttarfélagi, og þá hverju?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru önnur tímamót sem má minnast í dag: Eitt ár liðið síðan Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengjuna sína, og reistu þar með rándýrinu enn frekari skorður. Ef ég væri Kóreumaður, þá mundi ég leggja býsna mikið í sölurnar til þess að Kóreustríðið endurtæki sig ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Friðarsúlan heillar mig ekki svo. Ég er ekki búinn að sjá hana; hún gæti vel verið falleg, það er ekki það, en hvað er málið? Hvað á hún að tákna? Einhverja naíva bæn fyrir friði? alla vega er hún ekki tákn fyrir hvað Ísland sé friðsamt, svo mikið er víst. Þátttaka í Nató og árásarstríðum þess er ekki beinlínis friðsamleg. Það er líka fyndið, að hún skuli vera vígð á sama tíma og þessi glæpafundur er haldinn hérna, og að þegar hún var kynnt fyrst hafi viljað svo til að heil þrjú Nató-herskip voru í höfninni! Gárungar þurfa að finna þessu gott nafn.

Wednesday, October 3, 2007

Moggalygi eða...

Í dag var þing sett hér í Danmörku og af því tilefni fór ég á mótmæli á ráðhústorginu í Árósum, þar sem ég er staddur. Þau voru ekki nærri því eins kröftug og í fyrra, þegar Fjogh gat ekki orða bundist um þessa "socialistiske ballademagere", en hress voru þau nú samt. Ég sá vini mína í KP, og fleiri á svipuðum pólitískum slóðum, og tók m.a. við flæer um nasistafund á sama stað á laugardaginn -- þar sem fólk er hvatt til að mæta og mótmæla nasistunum. Ég er ánægður með hvað vinstrivængurinn hérna lætur nasistana ekki komast upp með neitt múður. Það er gott að nasistar eru varla til á Íslandi, annars veit ég ekki hvernig væri tekið á þeim þar.
*************
Það mætti halda að það væri lygi, en skrifast líklega á reikning hroðvirkni vegna sparnaðar, en að segja að Ayan Hirsi Ali hafi verið "fræðimaður við rannsóknastofnun" er beinlínis rangt. American Enterprise Institute er áróðursstofnun, og það sem þaðan kemur og er kennt við akademíu er sniðið að þörfum últrahægrisinnaðra hagsmunaafla í Bandaríkjunum. Hirsi Ali er í vondum félagsskap ef hún er ekki últrahægrisinnuð sjálf, svo mikið er víst.
*************
Það verður ekki sagt að Mogginn sé fyrstur með fréttirnar, að Blackwater séu að gera eitthvað vafasamt í Írak. Málaliðar heimsvaldasinna þar hafa svo sannarlega ekki fengið þá athygli sem þeir verðskulda, en það er nú samt æði langt síðan a.m.k. ég frétti af framferði þeirra.
*************
Mér ofbýður stundum hvað gagnrýni á Saving Iceland er oft grunnhyggin og, já, ég segi það bara: heimskuleg. Það er ótrúlegur fjöldi kjána sem básúnar kjánaskap sinn með digurbarkalegum en heimskulegum yfirlýsingum um SI.

Wednesday, September 19, 2007

Nepal, Taser, Eggin

Í Nepal eru maóistar hættir þátttöku í bráðabirgðaríkisstjórninni. Hún var mynduð eftir að konungurinn lét undan margra daga óeirðum í Katmandú, og hlutverk hennar var að undirbúa nýtt stjórnlagaþing. Maóistar kröfðust þess að landið yrði gert að lýðveldi fyrst, auk þess sem hlutfallskosning yrði viðhöfð þegar fulltrúar yrðu valdir á stjórnlagaþingið. Þegar hinir flokkarnir neituðu að mæta þeim kröfum, sögðu maóistar sig úr stjórninni. Þetta var í gær. Baburam Bhattarai, næstráðandi flokksins, boðar friðsamleg mótmæli og segir að fyrst ríkisstjórnin neiti að lýsa yfir stofnun lýðveldis, þá muni maóistarnir gera það á götunni í staðinn, meðal fólksins sjálfs. Aðgerðirnar verða friðsamlegar, en maóistar áskilja sér rétt til að svara fyrir sig ef á þá verður ráðist.
Her maóistanna hefur meira og minna yfirgefið búðirnar þar sem hann er undir eftirliti SÞ, til að taka þátt í götumótmælum og kröfugöngum, en vopn þeirra liggja enn í geymslum undir vökulum augum friðargæsluliða SÞ.
Maóistar hafa þó ekki alveg lagt árar í bát með þingræðisleið til lýðveldis, en þeir eru líka að reyna að fá þingið kallað saman til aukafundar, þar sem þeir vilja leggja fram vantrauststillögu gegn forsætisráðherranum.
Álitsgjafar segja þetta vera sjónarspil sjá maóistunum, því þeir óttist að bíða afhroð í kosningunum. Ég hef ekki forsendur til að meta hvort það er rétt, en í öllu falli gæti þetta verið til marks um jákvæða breytingu í baráttutilhögun þeirra. Það kemur bara í ljós.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
John Kerry hélt fyrirlestur og í fyrirspurnatíma spurði ungur maður hvers vegna hann hefði gefið forsetakosningarnar hér um árið þótt brögð hefðu verið í tafli, og vitnaði í Armed Madhouse eftir Greg Palast. Spurningin var aðeins lengri en sú eina mínúta sem honum var gefin -- og hvað gerist? Jú, lögregluþumbar taka hann fastan og rota hann með Taser-stuðbyssum, af sömu gerð og lögreglan hérna er að íhuga að taka upp. Horfið á vídeóið. Samstúdentar hans hreyfa hvorki legg né lið, sumir brosa jafnvel. Ógeðslegt, hreint ógeð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Hjálp, þjófar! og Halldór Carlsson skrifar Lesendabréf um fyrirhugað niðurrif Metelkova-hverfisins í Ljubljana.

Monday, September 17, 2007

Palestína, Írak, Íran...

Ég veit ekki hvað Mahmoud Abbas heldur að hann sé að gera; í mínum augum lítur þetta út eins og leikrit, að hann sé að reyna að gefa sig út fyrir að standa fastur á sínu gagnvart óvininum, til þess að styrkja stöðu sína heima fyrir. Ég gæti meira að segja trúað því að hugmyndin sé komin frá Ísraelum. Hvað ætti hann svosem að gera á einhverja "friðarráðstefnu"? Heldur hann að hann hafi einhverja samningsstöðu? Ísraelar með öll þau ráð hans í hendi sér sem þeim sýnist, og stendur auk þess á pólitískum brauðfótum heima fyrir. Þótt hann færi á einhverja ráðstefnu og skrifaði undir einhver plögg sem Bandaríkjastjórn mundi fagna sem "tímamótaárangri", þá væru slíkir samningar ómark. Nauðungareiða er ekki skylt að halda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alan Greenspan færir okkur aldeilis fréttirnar. Svo þetta snerist þá um olíu allan tímann? Hver hefði trúað því? Það getur verið skemmtilegt að heyra það sem pólitíkusar og embættismenn á eftirlaunum segja, sbr. Jón Baldvin Hannibalsson síðasta vetur. Þegar menn hafa lokið ævistarfi sínu fyrir Valdið, þá er eins og þeir séu lausir úr fjötrum ábyrgðarinnar og getur jafnvel ratast satt orð á munn. Ef þið vissuð það ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þórarinn Hjartarson skrifar á Eggina: Heimsvaldasinnaður femínismi? -- og Eyja Margrét Brynjarsdóttir mótmælir "með-eða-á-móti"-hugsun gagnvart heimsvaldastefnu og pólitískum íslamisma á bloggi sínu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég trúi því ekki að árásir á Íran séu yfirvofandi. Ég held hreinlega að Bandaríkjastjórn hafi ekki bolmagn í þær. Eða, réttara sagt, þá er ég alveg handviss um það. Ahmadinejad veit það vel, og ráðgjafar Bush vita það líka vel. Þeir láta eins og tveir bavíanar sem öskra og gretta sig og fetta og bretta, í trausti þess að hvorugur muni bíta hinn. Þetta er skúespil, ætlað til þess að hvor um sig geti gert sig breiðan, "staðið uppi í hárinu á andstæðingnum", verið "fastur fyrir" og ég veit ekki hvað, hvor um sig rúnkar sínu pólitíska baklandi og hræðir heimsbyggðina, en í rauninni er engin hætta á ferðum.

FINNTROLL

Djöfull var ógeðslega gaman á Finntroll!
Ég hef séð þá tvisvar á Wacken og nú bæði á Grand rokk og Gauknum. Ég held að mér sé óhætt að segja að þeir séu uppáhalds hljómsveitin mín, eða, í það minnsta ein af örfáum sem deila fyrsta sætinu. Á Grand rokk í fyrradag fór ég í moshpyttinn og sleppti gersamlega fram af mér beislinu. Ég geri það ekki svo oft í seinni tíð, en var í pyttinum nánast óslitið frá upphafi til enda í fyrradag. Á Gauknum var ég temmilegri, bæði vegna þess að ég var að fara á næturvakt og bragðaði því ekki deigan dropa af áfengi, en líka vegna þess að ég er með alvarlegar harðsperrur í hálsinum og öxlunum. En sjitturinn, hvað það var þess virði.
Hið íslenska tröllavinafélag tók fullan þátt í þessu. Bæði með aðstoð við eitt og annað, en líka með nærveru sinni. Ég hengdi gunnfánann góða upp á Grand rokk, og hékk hann þar alla tónleikana og undurfögur ásjóna Járngríms jötuns vakti yfir herlegheitunum með velþóknun. Mæting tröllavina var góð, bæði á Jötunmóð (upphitun) fyrir tónleikana og á tónleikana sjálfa. Ég dreifði tugum eintaka af Tröllafréttum á báðum tónleikunum.
Á Gauknum vannst einn stórsigur. Fjórum sinnum hafa tröllavinir fjölmennt á Finntroll-tónleika -- þ.e.a.s. í þessi fjögur skipti sem ég hef séð þá -- og í öll skiptin hefur verið reynt að fá þá til að gefa okkur eiginhandaráritun á gunnfánann. Í þetta skipti, #4, heppnaðist það. Ég komst baksviðs og fékk eiginhandaráritanir þeirra allra á fánann. Ég kiknaði í hnjáliðunum á meðan; sigurinn var sætur.
Þorsteinn Kolbeinsson er maður mánaðarins, fyrir að hafa fært okkur Finntroll.

Friday, September 14, 2007

Í gærmorgun þegar ég kom heim af vaktinni, drap ég sjö geitunga. Bessi, frændi minn og meðleigjandi, hafði drepið eina fimm. Það gerir tólf stykki sama morguninn. Það sér ekki fyrir endann á þessari andskotans óværu ennþá, en við hvikum hvergi!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í morgun tók ég mig loksins til og hófst handa við að sortera umfangsmikið geisladiskasafn mitt. Fyrsta skref var að skipta þeim í tvo afarstóra stafla, annan með diskum sem ég er ákveðinn í að eiga áfram, og hinn með diskum sem ég þarf að gera upp við mig hvort ég ætla að halda eða losa mig við. Sú flokkun verður óhjákvæmilega nokkuð tímafrek, en á endanum ætti ég að geta glaðst yfir því að verða 100-200 diskum fátækari.
Mér fannst fyndið að í Mogganum í gærmorgun (fimmtudag 13. sept) var grein um að Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir væru með plön á prjónunum um allsherjar náttúruverndar/nýtingaráætlun, dálítið í ætt við skrif mín frá því á mánudaginn (Hvað viljum við vernda?), þótt þau reki sína áætlun einhver ár aftur í tímann.
Mér fannst samt neyðarlegt þegar Össur talaði um að þetta væri til marks um einhverja sátt í nýtingar/verndarmálum, þar sem nú sætu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hlið við hlið og stæðu saman að þessu. Eins og Siv Friðleifsdóttir hafi andæft Valgerði frænku eitthvað þegar sú síðarnefnda hélt um stjórnvölinn?!? Siv tók við ráðherrastól og afsalaði sér um leið fyrri skoðunum sínum á umhverfismálum. Hvað er slíkt atferli aftur kallað?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fyndið að fagna lokum hvalveiða á Íslandi með því að sökkva norskum hvalabát.

Wednesday, September 12, 2007

12. september

Ég hvet fólk til að mæta við Stjórnarráðið klukkan 12 á hádegi og taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn stóriðjustefnu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dan Shapley skrifar um hugleiðingar þess efnis, að á OPEC-fundi sem var settur í gær, muni Saúdi-Arabía sýna spilin sín og viðurkenna að þeir, og þar með heimsbyggðin öll, séu komnir á hátind olíuframleiðslu sinnar. Það er frétt sem við munum heyra, ef ekki á næstu dögum, þá á næstu misserum. Það gæti hæglega orðið versta frétt mannkynssögunnar, svo ég taki ekki dýpra í árinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl átti grein á Egginni í gær: Það á að rífa Metelkova.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í tilefni af því að ellefti september er nýafstaðinn, þá vil ég taka fram að ég skil ekki þá áráttu margra, þegar heimsvaldastefna er gagnrýnd, að þurfa í sífellu að afsaka sig með því að segjast ekki styðja hryðjuverk eða fjöldamorð. Er eðlilegt að reikna með því að sá sem gagnrýnir Ísraelsríki sé gyðingahatari? Eða að sá sem gagnrýnir Bandaríkjastjórn hafi eitthvað á móti Bandaríkjamönnum sem slíkum? Eða að sá sem er á móti morðum sé líka hlynntur þeim?
Ég þoli heldur ekki tal um "illsku" hinna og þessara. Ég trúi ekki á "vont fólk", bara á orsakir og afleiðingar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Vinnuhópur" Olmerts og Abbasar um stofnun "Palestínuríkis" hljómar í mínum eyrum eins og kattarþvottur. Hvað haldið þið að Ehud Olmert kæri sig um Palestínuríki sem stendur undir nafni? Abbas hefur sýnt sitt rétta andlit með samstarfi við óvinina um að bola lýðræðislega kjörinni heimastjórn frá völdum. Hvað haldið þið að hinn almenni borgari í Palestínu trúi heitt á það "lýðræði" sem borgarastéttin þar talar um? Ef ég þekki Ísraela og leppa þeirra rétt mun þessi vinnuhópur leggja drög að nokkrum dvergvöxnum bantústönum, gettóum fyrir Palestínumenn, og jafnvel þau verða ekki að veruleika vegna þess að harðlínuöfl Ísraels munu róa öllum árum gegn stofnun þeirra. Ég get ekki gert upp við mig hvort einsríkis- eða tveggjaríkjalausn er hið rétta í stöðunni, en hitt veit ég að málamyndalausnir þjóna harla litlum tilgangi fyrir Palestínumenn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skæruliðar láta til skarar skríða í Mexíkó. Það er grein á Wikipediu um þessa hreyfingu (kemur á óvart). Ég veit nú ekkert annað um hana; kannski að hún sé ekki svo galin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal hótar Prachanda því að ekkert verði af fyrirhuguðum kosningum í nóvember, nema landið verði gert að lýðveldi fyrst, og fer um landið og skorar á flokksmenn sína að vera tilbúnir fyrir nýja uppreisn. Andstæðingar hans segja að hann óttist bara að fá slæma útreið í kosningunum. Það getur verið. Eftir að maóistaflokkurinn yfirgaf próletarískar rætur sínar er ekki eins greinilegur munur á þeim og öllum þeim aragrúa flokka, sem kenna sig við kommúnisma í þessum heimshluta, eins og áður var. Maóistar gætu tekið upp vopn að nýju, en ég sé ekki hvaða gagn það ætti að gera málstað byltingarinnar nema þeir nái fyrst hugmyndafræðilegum vopnum sínum, og vinni hina stritandi alþýðu landsins á sitt band.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er á næturvöktum þessa dagana, en í gær þurfti ég að skreppa á fund í BSRB-húsinu. Fyrst ég var á fótum á annað borð leit ég fyrst að fyrirlestur Eiríks Bergmann Einarssonar, "Er Ísland í Evrópu?" í Þjóðminjasafninu. Það sem hann sagði þar var nú nokkurn veginn í takt við nýja bók hana, "Opið land", og þar sem ég er nýbúinn að lesa hana, þá hefði ég kannski getað sparað mér fyrirlesturinn og sofið klukkustund lengur um morguninn. Um kvöldið var "Sköllfest", þar sem Kommadistró Íslands hefði eiginlega átt að vera, og síðar um kvöldið var Hitt hjá Femínistafélaginu, sem ég sleppti líka vegna svefnþarfar. Það er að segja, ef einhver saknaði mín á þessu tvennu síðastnefnda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um Kommadistró Íslands, þá er dálítið nýtt á leiðinni, sem ég hlakka ósegjanlega til að geta boðið upp á næst þegar distróið fer á vettvang, sem verður vonandi fljótlega. Það kemur bara í ljós hvað það er.

Monday, September 10, 2007

Geitungar á klósettinu og lóur úti á túni

Um daginn, þegar ég kom heim frá Evrópu, varð mér aldeilis bylt við. Ég fór í sakleysi mínu á klósettið, og glugginn var allur morandi í geitungum. Ég stökk til, greip kröftugt flugnaeitur, og drap hvern einasta sem ég fann -- það voru 13 stykki þann daginn. Síðan sprautaði ég eitri inn í rifurnar á veggnum og þykist vita að allmargir til viðbótar hafi drepist við það. Síðan þá, þ.e.a.s. undanfarnar tvær vikur, hef ég verið að drepa þetta 2-4 geitunga á dag, vanalega á klósettinu en líka einn og einn annars staðar í íbúðinni. Jibbí!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn steig ég út á hlað á Kleppi, og sá stóreflis hóp af lóum á túninu fyrir norðan húsið. Ég taldi 72 stykki. Það eru ólíkt viðkunnalegri skepnur heldur en geitungarnir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær fór ég upp í Esju og Hvalfjörð og tíndi krækiber. Mér tókst að öngla saman einu og hálfu kílói, en ekki get ég sagt að sprettan hafi verið mikil.
Berjasprettan í garðinum hjá mér er talsvert meiri. Á laugardaginn fyrir viku kom ég heim af næturvakt, fór út í garð og tíndi 11 kíló af rifsberjum. Þau, ásamt 3 sem ég hafði áður tínt, sultaði ég síðan og saftaði næstu tvær nætur, og sit nú á fullum kjallara af rifsberjaafurðum.

hóst

Það er grein eftir mig á Egginni í dag: Hvað viljum við vernda?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kemur það ekki úr hörðustu átt þegar ungir Framsóknarmenn saka ríkisstjórnina um stefnuleysi? Getur verið að Samfylkingin sé í sterkari samningsstöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum heldur en Framsóknarflokkurinn var, og þess vegna gangi ákvarðanatakan eða stefnumótunin ekki eins hratt fyrir sig?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Meirihluti Íraka telur að Bandaríkjamönnum hafi mistekist að koma á röð og reglu í Írak. Það er aldeilis stórfréttin!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn var ég spurður hvers vegna Írakar væru eiginlega að streitast gegn hernáminu. Hvers vegna menn slökuðu ekki bara á, kæmu sér saman um frið og uppbyggingu og ynnu bara saman að uppbyggingu Íraks. Það var og. Hvers vegna komu menn sér ekki saman um frið um Saddam Hussein, og uppbygigngu Íraks undir hans forystu?

Friday, September 7, 2007

Þung spor, en tímabær

Í morgun ókum við þrjú, ég, móðir mín og okkar elskaði köttur Pamína, upp í Víðidal á dýraspítalann þar. Við móðir mín ókum bara tvö til baka og var þungt í skapi.
Pamína var orðin sautján ára. Hún var alla tíð hraust -- og vissi vel af því. Hún bar sig alla tíð sem sá sanni töffari sem hún var. Auk þess var hún sá greindasti köttur sem ég hef kynnst. Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það, en þetta eru engar ýkjur. Framan af var hún frekar hörð í skapi, en varð ástleitin á miðjum aldri. Síðasta vetur var ég eitt sinn að strjúka henni, og var þá var við æxli á rófunni. Það fór stækkandi, og nú í vikunni var svo komið að það var ekki annað hægt en að binda endi á þetta. Það var erfitt að kveðja fjölskyldumeðlim.
Ég gæti haft mörg orð um Pamínu, en læt þetta nægja.

Bróðir minn minnist hennar líka í nokkrum orðum.
Ýmis orð get ég valið ríkisstjórninni, og er skemmst frá því að segja að ég er ekki einn af þessum 80% sem styðja hana víst. Mér finnst það samt skrítið; flokkarnir sem standa að henni hafa samanlagt 72% stuðning ef ég legg rétt saman. En Jóhanna Sigurðardóttir fær prik; í kladdann hjá mér.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Niðurstöður hugmyndasamkeppninnar um Lækjargötu/Austurstræti er að finna hér (pdf skjal). Þessi hugmynd sýnist mér bara ekki vea svo galin. ég sé eftir að hafa ekki sent inn hugmynd. Hvernig hefði verið að byggja hornið í vinkil sem sneri inn en ekki út, þannig að torgið stækkaði? Ég er reyndar líka efins um há hús sem mér sýnist vera gert ráð fyrir í Hafnarstræti, þar sem nú eru gömul, frekar lág hús. En ef lækurinn verður opnaður, þá kætist ég!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ríkislögreglustjóri ætlar að láta "kanna ástæður þess að lögreglumenn hafa sagt upp störfum". Ég skil þetta ekki, veit hann ekki að laun þeirra hafa dregist langt aftur úr launum samanburðarstéttanna, fangavarða og tollvarða? Veit hann ekki að það ríkir megn óánægja meðal lögreglunnar vegna bágra launakjara? Veit hann ekki að Lögregluskólinn hefur þurft að lækka standardinn hjá sér til að geta mannað bekkina nokkurn veginn? Ef löggan vill hafa nægan mannskap þarf hún að borga nógu há laun. Maður hefði haldið að það lægi í augum uppi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það væri brýnna að byggja stríðsglæpadómstól fyrir aðra Guantanamo-menn heldur en fangana, er ég hræddur um.

Wednesday, September 5, 2007

Fínt að íslenskir námsmenn fái aðgang að skólabókum á netinu -- en hvers vegna skrifar Edda undir samning við Kaupþing? Er það Kaupþing sem er svona gjafmilt? Var það ekki Samfylkingin sem lofaði þessu? Hvað eru þessar fjármálastofnanir að pósa sem góðarðasamtök?

Tuesday, September 4, 2007

DPRK og hryðjuverk

Getur einhver frætt mig um það, hvers vegna Norður-Kórea var sett á lista yfir ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi til að byrja með? Núna er verið að taka hana af honum, en hvernig komst hún á hann? Veit einhver til þess að Norður-Kóreustjórn hafi stutt hryðjuverk? Mér er að minnsta kosti ekki kunnugt um það. Hugur sem væri innstilltur á brjálæðislegar samsæriskenningar mundi kannski hugsa sem svo, að þessi listi væri fyrst og fremst pólitísks eðlis. Ætli Bandaríkjastjórn sé annars sjálf á honum?

Friday, July 20, 2007

Kenning um hugrænt misræmi

Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Kenning um hugrænt misræmi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Edinborgarsella Saving Iceland slettir málningu á ræðisskrifstofu Íslands þar. Sjáið viðbrögð allra Moggabloggaranna til hliðar við fréttina. Eru það svona fáir sem styðja aðgerðir af þessu tagi, eða þora þeir bara ekki að tjá sig um það? Hvað er málið með fólk sem skilur ekki að anarkistar, eins og fleiri, líta ekki á lög sem heilög og sjá ekki ástæðu til að fara eftir þeim bara af því þau eru lög?

Útlendingar með leikrit afla málstaðnum ekki fylgis. Þeir einu sem geta stöðvað þessa stóriðjustefnu eru Íslendingar sjálfir og sá sem vill að það verði gert þarf að vinna þá á sitt band. Byltingin verður ekki gerð með ídealíska ævintýramennsku sem leiðarstjörnu, því miður.

Thursday, July 19, 2007

Ingibjörg í Miðausturlöndum

Það var grein eftir mig á Egginni í gær: Ég er líka á móti þessari ríkisstjórn. Lesið hana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að játa að það eru vonbrigði, að þegar utanríkisráðherra Íslands fer til Palestínu -- og það var tímabært -- þá séu það Abbas og Fayed sem séu helstu viðmælendur hennar af hálfu Palestínumanna. Að vísu reikna ég með að fundurinn með Hanan Ashrawi hafi verið gagnlegur. Ashrawi veit hvað hún syngur. Það hljómar illa að hún hafi ekki heimsótt Gaza „af öryggisástæðum“ -- það liggur í augum uppi að ef Ingibjörg Sólrún vill fara til Gaza til viðræðna við Hamas-menn, þá mun Hamas ábyrgjast öryggi hennar á meðan. Létu hún og utanríkisráðuneytið Ísraela og Fatah-kvislingana ljúga því að sér að það væri ekki öruggt? Hvers vegna kalla ég þá kvislinga? Jú -- í fyrsta lagi eru margir af forystumönnum Fatah hrein og bein handbendi Ísraels. Má þar nefna Abbas og Fayad sjálfa, auk Mohammeds Dahlan, svo dæmi séu nefnd. Það sést hreinlega af verkum þeirra, eins og þegar þeir leystu þjóðstjórnina upp og nú síðast þegar Abbas bað um að Gaza yrði áfram haldið í svelti. Ég sé bara ekki hvaða gagn það gerir að tala við svona menn, samverkamenn Ísraels, og sleppa því að ræða við Hamas.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í morgun birti Eggin fréttatilkynningu frá Saving Iceland vegna aðgerða gærdagsins: Saving Iceland loka veginum að Grundartanga. Umfjöllunin um þetta mál hefur verið með mestu ólíkindum. Moggabloggarar eru þar athyglisvert dæmi, þar sem menn keppast við að dæma þetta fólk í útlegð eða til dauða fyrir að stöðva vinnu. Borgari Þór Einarssyni finnst t.d. „sannir náttúruverndarsinnar eiga ... litla samleið með því hampreykjandi hippapakki“ -- nei, ætli sannir náttúruverndarsinnar kjósi ekki Sjálfstæðisflokkinn og stóriðjustefnuna í hans augum!? Borgar kemst annars skemmtilega að orði: „Fjölmiðlar hafa veitt þessum söfnuði óskaplega athygli og fer þar fremst í flokki Morgunblaðið, kirkja skandífasismans.“ Hvað er „skandifasismi“?
Það er svo annað mál hversu gagnlegar aðgerðir Saving Iceland eru. Ég hef svosem áður gert athugasemdir við þær og sé ekki ástæðu til þess hér og nú, en ætla bráðlega að skrifa um þær.
Að því sögðu, þá tókst löggunni greinilega betur til við Grundartanga heldur en sumarafleysingafólkinu sem hegðaði sér eins og ruddar á Snorrabrautinni.
Hvað er annars málið með þennan heimskulega spuna sem veður uppi? Atvinnumótmælendur, hvað er það? Veit einhver til þess að einhver hafi þegið laun fyrir umhverfisaktífisma? Hvers vegna finnst engum neitt athugavert við að það séu til atvinnumeðmælendur, eins og t.d. Hrannar Pétursson eða Erna Indriðadóttir, nú eða Friðrik Sófusson eða Rannveig Rist? Er allt í lagi að hafa atvinnu af meðmælum, semsagt? Og hvað er málið með klisjuna „þarf þetta fólk ekki að vinna?“? Segir það sig sjálft að fólk sé atvinnulaust ef það kemur hingað til að mótmæla? Ég skil ekki í því. Er ekki sumar? Er ekki fjöldi fólks í sumarfríi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
VG lýsa áhyggjum af undirbúningi við ný álver -- hvar er Fagra Ísland núna?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kársnesingar eru gramir vegna landfyllinga -- ef gremjan er næg þá stöðva þeir þær bara. Þeim er það í lófa lagið. Það verður engin landfylling gerð við Kársnes ef Kársnesingar samþykkja það ekki. Í þessu tilfelli er þögn sama og samþykki, og það jafngildir líka samþykki ef fólk situr á rassinum þegar mótbárurnar eru virtar að vettugi.

Monday, July 16, 2007

Það er magnað hvað það eru margir sem finnst ekkert sjálfsagðara en að lögreglan sveifli kylfunum í hausinn á fólki sem lokar fyrir umferð í mótmælaskyni á Snorrabraut. Eru umhverfisverndarsinnar bara asnar sem er réttast að lemja með kylfu ef þeir mótmæla öðruvísi en að standada með sultardropa á Austurvelli? Díses, ég er viss um að þegar stéttabaráttan harðnar aðeins og fasismi kemst virkilega á flug aftur, þá mun Valdið eiga nóg inni hjá afturhaldssömum Íslendingum. Ég meina, kommon, lögregluofbeldi? Ég veit með vissu -- með vissu -- að löggurnar beittu "disproportionate" valdi til að koma mótmælendunum á kné á laugardaginn. Þær beittu ofbeldi þar sem ofbeldis var ekki þörf. Fólk var snúið niður fyrir ekki neitt. Rúða brotin í bíl, bílstjórinn tekinn -- og aðrar löggur brostu í kampinn á meðan. Hverju sætir þetta? Hvað vann þetta fólk til saka? Díses, löggan mætti alveg slaka aðeins á. Og ýmsir Moggabloggarar líka.
Einar Rafn Þórhallsson skrifaði á Eggina á laugardaginn: Lögregluofbeldi á Snorrabrautinni í dag. Lesið það.
Trúið þið því að mannréttindabrot geti átt sér stað á Íslandi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar sleppa 250 palestínskum föngum --- og ef ég þekki þá rétt eru það næstum því allt saman fangar sem átti að sleppa eftir viku hvort sem er.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er svo bit yfir vitleysunni sem ég les á Moggablogginu að allt það vitræna sem ég les þar fellur í skuggann. Þessa stundina er Moggablogg off í mínum bókum. Lesið samt Hlyn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Stendur til að taka Taser-byssur í notkun hjá löggunni hérna?? Er þetta grín? Halda menn að þetta sé saklaust barnaglingur? Er það æskilegt að löggan beiti meira ofbeldi?

Monday, July 9, 2007

Af stóriðju- og umhverfismálum

Skoðið Alcoa Defense og sjáið hvað besta fyrirtæki í heimi er umsvifamikið í hergagnaiðnaðinum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lesið úttekt Einars Rafns Þórhallssonar á seinni degi ráðstefnunnar sem var austur í Ölfusi um helgina.
Mogginn í dag er 40 blaðsíður. Fasteignablaðið er 64 blaðsíður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar þykjast ætla að sleppa föngum til að styrkja Abbas. Er það ekki bjarnargreiði við lepp sinn að afhjúpa hann svona? Hvað hugsar hinn almenni Palestínumaður? Styður hann þann sem Ísraelar styðja? Mundu Ísraelar styðja raunverulega baráttumenn fyrir réttlæti og þjóðfrelsi? Ætli það?

Saturday, July 7, 2007

07:07, 07. 07. '07
Sveinn Andri Sveinsson stofnar blogg til að verja mannorð sitt fyrir vondu Moggabloggurunum sem eru ósáttir við sýknudóminn yfir nauðgaranum sem hann varði. Skrifar pistil þar sem hann rekur viðhorf sín, miklar umræður spinnast og áður en við er litið er hann búinn að eyða blogginu sínu -- þ.e.a.s. síðunni, ekki færslunni. Síðan var horfin þegar ég ætlaði að forvitnast um þetta, en ég fékk afrit af færslunni í pósti. Ég er ekki viss um að Sveinn hafi gert mannorði sínu svo mikið gagn með því að byrja á þrefi yfirhöfuð. Ef hann hefði haldið sig til hlés hefðu flestir verið búnir að gleyma þessu eftir viku.
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Um nýlendustefnuna og Grænland. Okkur hættir til að gleyma því að landið við hliðina á okkur er fórnarlamb heimsvaldastefnu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Félagi Rafauga kemst vel að orði eins og fyrri daginn, um mannskæða loftárás í Afghanistan:

Árásarmennirnir sýndu ekki einu sinni þá sjálfsögðu kurteisi að drepa sjálfa sig í leiðinni.
Á meðan lesum við um djóksprengjur á Bretlandi. Hve lélegir geta terroristar eiginlega verið?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er núorðið ekki svo margt, held ég, sem ég lúsles á netinu. Eitt af því er What's New eftir eðlisfræðinginn Robert Park í Maryland. Það er fróðlegt og hressandi að lesa hispurslaus skrif eftir mann sem vit er í.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Doddi benti á grein sem ég vil hér með benda á líka. Hugmyndasamkeppni um einföld, hugvitssamleg og gerleg hryðjuverkaplott.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og glöggir lesendur hafa án efa tekið eftir, þá hef ég tekið aðeins til í tenglasafninu hér til hliðar. Ég hef ekki hent mörgum tenglum út (nokkrum þó), en raðað mörgum þeirra upp á nýtt, auk þess sem ég hef lagað innsláttarvillur og fleira þvíumlíkt sem hefur farið í taugarnar á mér lengi.

Thursday, July 5, 2007

Ruslpóstur

Ég fékk ruslpóst um daginn, frá íslensku vefsíðunni spilverk.com. Þar stóð mér ýmislegt fínerí til boða á "ótrúlegum verðum" eins og það var orðað. Þegar ég svaraði og spurði hvar þeir hefðu fengið netfangið mitt og hvenær ég hefði samþykkt að fá auglýsingapóst, þá svaraði einhver Sigþór (eða, réttara sagt, svaraði ekki) og sagði að netfangið mitt væri "út um allt internet". Hann hlýtur að hafa verið að skoða eitthvert af bloggunum mínum, eða þá heimasíðu Félagsins Ísland-Palestína, því það eru síðurnar sem mín eigin Google-leit skilaði mér þegar ég sló netfanginu upp. Jæja, ég sagði honum að taka netfangið mitt af þessum lista þeirra og það undir eins. Ég veit ekki betur en hann hafi gert það.
Ég er hins vegar forvitinn. Hverjir aðrir fengu þennan póst? Mér þætti fróðlegt að heyra hverjir aðrir fengu sama sent og ég. Er nokkur af mínum kæru lesendum í þessum hópi? Svona, látið nú í ykkur heyra.

Hryðjuverk og Moggi

Hvaða andskotans rugl er þetta? Var dómstóll dæmdur? Þetta er komið út í vitleysu. Mogginn ætti að skipta um prófarkarlesara. Og talandi um prófarkarlestur, þá ætti ritstjórnin líka að sjá sóma sinn í því að ritstýra minningargreinum og hafna þeim sem eru ekki prenthæfar. Kannski að þessi hnignandi vandvirkni sé í einhverjum tengslum við þynnri og þynnri Mogga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Páll Hilmarsson hitti naglann á höfuðið: Alþjóðleg hryðjuverkasamtök.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Enn um Morgunblaðið: Þessi leiðari, Ný tegund hryðjuverkamanna, fær mig til að reyta af mér höfuðprýðina. Auðvitað er ekki aðalatriðið að hefna sín á þessum örmu Serkjum sem eiga að hafa framið tilræði við frelsið okkar elskaða. Það þarf ekki einu sinni að pynda þá við yfirheyrslur til að skilja "hvers vegna þetta fólk grípur til svona aðgerða" -- ég get sagt fólki það, og það þarf ekki einu sinni að pynda mig til þess. Stundum gæti maður samt haldið að það þyrfti að beita pyndingum til þess að fá ráðamenn til að hlusta. Dæs.

Wednesday, July 4, 2007

Kerfill...

Náttúrufræðistofnun hvetur til aðgerða gegn kerfli. Heyr heyr, segi ég, orð í tíma töluð! Kerfill er eitthvað illviðráðanlegasta skrímsli sem ég hef att kappi við. Undanförnum mánuðum hef ég varið að verulegu leyti í að kljást við hann í bakgarðinum. Hann er með geitungum og minkum í hópi lífvera sem ég vildi sjá upprættar á landinu.
Ég var mjög mótfallinn því á sínum tíma, að Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfallið úr 75% í 90%. Nú vill Jóhanna lækka það í 80%. Eins sakleysislega og þessar tölur kunna að hljóma, þá er þetta spurning um hvort fólk getur leyft sér að kaupa fjórfalt, fimmfalt eða tífalt dýrara húsnæði en sem nemur peningunum sem það hefur til ráðstöfunar, undir ákveðnum mörkum þó, nema ég hafi misskilið eitthvað hrapallega. Er rétt að lækka hlutfallið? Bitnar það á þeim tekjulægstu og þeim sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið? Eða er þetta nauðsynleg aðhaldsaðgerð til þess að lækka geipiverð á fasteignamarkaði, þótt hún sé sársaukafull fyrir suma?
Ég hallast að því að þetta sé hið rétta í stöðunni, að öðru óbreyttu. Offramboð á lánsfé til þess að kaupa húsnæði þýðir aðeins eitt, og það er óeðlilega mikil eftirspurn, með tilheyrandi óeðlilega háu verði. Varla hagnast hinir verst settu á því, eða hvað? Offramboðið gagnast fyrst og fremst auðvaldinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Alcoa hækkar yfirtökutilboðið í Alcan. Það verður rækilegur halli á Íslandi ef þessi tvö fyrirtæki sameinast. Ekki er nú á það bætandi.

Skemmtileg vísa, og önnur til

Ég man ekki hvort ég hef hent þessari hingað áður eða ekki, en í öllu falli verður hún seint of oft kveðin. Hún lýsir landkostum á Reykhólum á Barðaströnd:

Söl, hrognkelsi, kræklingur,
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur,
kál, ber, lundi, kolviður,
kofa, rjúpa selur.
(Eiríkur Pálsson)
Hér er önnur, ekki síður hress:
Veröld fláa sýnir sig,
sú mér spáir hörðu.
Flest öll stráin stinga mig
stór og smá á jörðu.
(Þjóðvísa, eftir því sem ég kemst næst)

Tuesday, July 3, 2007

Eitt og annað...

Elías Davíðsson skrifar: Svæsin áróðursskrif Davíðs Loga Sigurðssonar í Morgunblaðinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ætli þessi hafi verið að tuska leigt vinnudýr til? Er það ekki það sem þetta er vant úr heimalandi sínu, samkvæmt einum innflytjanda verkafólks til leigu?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ingibjörg fræðist um flóttamenn í Írak -- hvað eigum við að bíða lengi eftir því að Ísland segi sig frá stuðningi við þetta hernám?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvaða andskotans della er þetta? Skíðishvalir éta svif, það sama og loðnan étur, sem þorskurinn étur síðan, er það ekki? Einhvern tímann heyrði ég að eitt kíló af þorski þyrfti að éta ca. tíu kíló af loðnu, sem aftur þyrftu að éta hundrað kíló af svifi. Leiðréttið mig endilega ef ég fer með rangt mál. Skíðishvalur þarf að éta ca. tíu kíló af svifi fyrir hvert kíló af kjöti, skv. sömu þumalputtareglu. Þannig að til að styrkja þorskstofninn um eitt tonn þarf að drepa tíu tonn af hval. Núna eru veiddir einhverjir tugir hvala, úr stofnum sem hlaupa á þúsundum dýra. Skil ég það ekki rétt, að það hafi sama og engin áhrif á stofninn? Skil ég það ekki rétt að það þyrfti að drepa þúsundir hvala til þess að hafa mælanleg áhrif á þorskstofninn? Á svo að selja þetta í hundamat eða hvað?

Thursday, June 28, 2007

Mér er spurn...

Ísraelar drepa tólf Palestínumenn á Gaza; „flestir þeirra eru“ þó „sagðir hafa verið herskáir Palestínumenn“ þannig að við getum andað léttar, býst ég við. Mér er spurn, hver segir að þeir hafi verið það? Ísraelar? -- og annað: Hvers vegna er ekki talað um herskáa Ísraela í þessu samhengi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Rafmagnsleysi í New York -- hita kennt um. Mér er spurn, hvers vegna er kerfið ekki hannað til þess að standast aðstæður sem má búast við að komi upp? Getur verið að kerfið sé fjársvelt, eins og fleira í innviðum Bandaríkjanna? Það eru ekki mörg ár síðan rafmagnið sló út á stórum hluta austurstrandarinnar, vegna þess að viðhaldið var ekki í lagi. Getur verið að svipað sé í stöðunni núna?

Tuesday, June 26, 2007

Í gær var Morgunblaðið aðeins 44 blaðsíður. Fasteignablað Morgunblaðsins var aftur á móti 64 blaðsíður. Segir þetta ekki sitt?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hrafn Malmquist skrifar á Eggina: Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

Monday, June 18, 2007

Af fréttum dagsins -- mótmæli, Gaza, Republika Srpska

Saving Iceland fjalla um stóriðjumótmælin í gær. Það er líka fjallað um þau á mbl.is, Vísi og víðar -- og mér finnst kostulegt að sjá umræðuna. Sumir eru augljóslega að grínast með gífuryrðum, enda er það bara hlægilegt að tala um brot á fánalögum. Eins og það sé issjúið? Hversu mörg börn ætli hafi látið íslenska fánann snerta jörð í gær? Hvað ætli margir hafi verið með andlitsmálningu þar sem fáninn var í röngum hlutföllum? Brot á fánalögum -- asnalegt, segi ég.
Svo kemur sami kvakandi kórinn fram og venjulega, blaðrandi um að mótmælendur séu ómarktækir (vegna þess að þeir sjálfir eru ósammála þeim), það sé rangt að mótmæla þannig að fólk láti taka eftir sér -- best sé að vera bara einn og asnalegur og mótmæla á einhverjum afviknum stað og helst með ljósin slökkt, að mótmælendur séu letingjar (er það leti að nenna að búa til 25 metra langa borða eða skipuleggja stóreflis tjaldbúðir eða vera reiðubúinn að sitja í fangelsi fyrir hugsjónirnar?) og svo að þau séu atvinnulaus (hvernig vita menn það? eru ekki flestir annars í fríi hvort sem er á sautjánda júní?) og flest flokksbundin í VG. Þeim til fróðleiks sem ekki vita, þá veit ég satt að segja ekki um einn einasta félaga í Saving Iceland sem er flokksbundinn.
Þessi jarmandi hjörð er fyrirsjáanleg, svo ekki sé meira sagt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar loka Gaza og taka upp samstarf við valdaránsstjórn Abbasar (Vísir). Evrópusambandið er ekki lengi að stökkva til að styðja hana líka (Moggi, Moggi). Það er greinilegt að það á að ganga milli bols og höfuðs á palestínsku þjóðfrelsishreyfingunni undir því yfirskini að Hamas séu svo mikil illmenni. Ég játa að mér finnst umhugsunarefni hvað Ingibjörg Sólrún gerir nú. Viðurkennir hún kvislingana eða bíður hún átekta?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sú frétt sem kom mér samt hvað skemmtilegast á óvart var um virkjanasamninga við Serbneska lýðveldið. Republika Srpska er annað af ríkjunum tveim í Bosníu-Herzegóvínu. (Svo ég monti mig: Ég fór þar í gegn síðasta sumar og er með stimpilinn þeirra í vegabréfinu.) Þetta þykir mér gleðifrétt. Það er að segja, ekki endilega að samningarnir snúist um virkjanir (ég hef svosem ekki skoðun á því í sjálfu sér, enda veit ég ekki nóg um þetta tiltekna mál), heldur að það séu komin einhver tengsl við Bosníu-Serba. Þeir eru fólkið sem við héldum öll fyrir nokkrum árum að væri upp til hópa stríðsglæpamenn og smábarnaætur. Það er auðvitað vitleysa.
Izetbegovic í Bosníu var harðlínuíslamisti og vildi stofna íslamskt lýðveldi í Bosníu. Hans fylgismenn voru reyndar í minnihluta, en komu sér í þá stöðu að gera stefnu sína að stefnu landsins, með ýmsum og misjafnlega geðslegum leiðum. Þegar Júgóslavía var gerð upp, þá má auðvitað segja að Bosníumenn hafi haft sama sjálfsákvörðunarrétt og aðrir og ef þeir vildu vera sjálfstæðir, þá var annað ekki sanngjarnt en að þeir fengju það. En hvað með Bosníu-Serba? Rökin fyrir því að Bosnía fái að kljúfa sig út úr Júgóslavíu eru um leið rök fyrir því að Bosníu-Serbar fái að kljúfa sig út úr Bosníu. Eða áttu kristnir eða trúlausir Serbar að sætta sig við að íslömsku ríki væri troðið upp á þá? Auðvitað ekki. Fyrst Bosnía sagði sig úr lögum við Júgóslavíu til að byrja með, þá hef ég fulla samúð með Bosníu-Serbum að segja sig úr lögum við Bosníu. Sama má reyndar segja um Serbana sem búa í Kosovo, ef Albanarnir þar vilja endilega segja sig úr lögum við Serbíu. Serbneski minnihlutinn í Kosovo á ekki sjö dagana sæla, og þar eins og annars staðar hafa þeir myndað með sér samtök um að verja sig ef til þess kemur. Ansi er ég samt hræddur um að sumir fari offari ef það verður, og margur mundi snýta rauðu sem á það ekki skilið.

Sunday, June 17, 2007

Mótmæli dagsins

Jæja, ég varð við minni eigin áskorun og fór áðan og mótmælti herskipakomunni. Bjó til skilti þar sem stendur "NATO - Nazi American Terrorist Organization" þar sem "N"-ið í "NATO" er stílfærður hakakross. Þjóðverjarnir á Sachsen við Miðbakka kipptu sér ekkert upp við okkur, og stóðum við þar um hríð. Þegar við hins vegar fórum inn að Sundahöfn, þar sem amerískt morðtól flaut fyrir landi, gerði Kaninn sér lítið fyrir og lokaði skipinu fyrir gestum á meðan þessi vafasami fámenni hópur af sakleysislegu, meinleysislegu og friðelskandi fólki stóð þarna. Þeir færðu okkur vald til þess að loka skipinu með því að standa þarna! Það var nú ekki laust við að maður væri upp með sér yfir að vera álitið svona merkilegur, og varð þetta okkur hvatning til að standa lengur en við hefðum ella nennt.

Segjum nei við morðum

Það fljóta morðtól á Reykjavíkurhöfn og Sundahöfn og ég skora á andstæðinga hernaðar að
koma því til skila á einn eða annan hátt, hvaða hug við berum til svona tækja.

NATO-herskipin í Reykjavíkurhöfn verða sýnd almenningi á þjóðhátíðardaginn.
Af því tilefni munu félagar úr SHA mæta með dreifirit, þar sem dregnar eru fram
ýmsar staðreyndir um NATO og tilgang herskipanna.
Staðið verður við þýska skipið við Miðbakka í gömlu höfninni kl. 12.

Þetta er áminning hernaðarbandalagsins, sem kennt er við Atlantshaf, um hvar við eigum að standa í alþjóðamálum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Er það ekki annars hlægilegt þegar Ingibjörg Sólrún segist ekki styðja Íraksstríðið og Nicholas Burns brosir alveg jafn breitt? Það er ekki að sjá að stjórnarráðið hafi gefið til kynna að formlegum stuðningi Íslands við fjöldamorð sé lokið. Plís, leiðréttið mig ef þið vitið betur.
Er ekki annars hlægilegt þegar stuðningsmenn stríðsins láta eins og listinn sé ekki til?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Við höldum upp á þjóðfrelsi okkar samtímis því sem við erum hluti af hópnum sem neitar Írökum um þjóðfrelsi. Væri rangt að kalla það hræsni?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fatah halda valdaráni sínu áfram í Palestínu, Abbas reynir að svipta Hamas þeim völdum sem byggjast á sigri í lýðræðislegum kosningum og með stuðningi Bandaríkjanna. Það er ekki skrítið, enda er Salam Fayyad, nýi forsætisráðherrann, hallur undir Bandaríkin og hefur góð tengsl við Ísrael. Er fólk hissa? Þetta heitir að menn séu samverkamenn hernámsliðsins. Það eru til ýmis samheiti, sum hver gildishlaðnari. Og þá stendur nú ekki á Evrópusambandinu að taka aftur saman við valdaránsstjórn Abbasar -- og einhvern veginn gæti maður ímyndað sér að nú minnki andúð Geirs H. Haarde á stjórninni, fyrst hún er ekki lengur lýðræðisleg.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er greinilega nauðsynlegt að byggja álver og égveitekkihvað á Húsavík til þess að stemma stigu við þessu hvínandi atvinnuleysi.

Friday, June 15, 2007

Abbas biður um grið

Þegar Mahmoud Abbas biður um vopnahlé, um leið og hann skipar öryggissveitunum að svara árásum, um leið og bardagar eru að brjótast út á Vesturbakkanum og um leið og hann ákveður að leysa heimastjórnina upp, þá hlýtur það að teljast til marks um að hann finni að hann sé að tapa þessum slag. Það er að segja, tapa honum á Gaza. Það er tvennt ólíkt, Gazaströndin og Vesturbakkinn. Þótt Gaza sé áhrifasvæði Hamas, þá er ekki víst að áhrif þeirra séu eins sterk á Vesturbakkanum (eða, réttara sagt, þá veit ég það ekki) -- og þriðja óráðna dæmið eru svo flóttamennirnir, sem skipta milljónum í löndunum um kring. En það er greinilegt að Hamas vinna á.

Ég játa það fúslega að í þessum bardaga er mín samúð með Hamas. Það er vegna þess að Mohammed Dahlan og dauðasveitir hans, þjálfaðar af Bandaríkjamönnum, bíða með blóðbragð í munninum eftir því að sökkva tönnunum í forystu Hamas, murka úr henni lífið og skelfa almenna stuðningsmenn til hlýðni -- og slá þannig kollinn undan andspyrnunni og selja landsmenn í böðla hendur. Það er fásinna að láta eins og þetta séu einhver óskiljanleg átök eða að erfitt sé að greina hver eigi upptökin. Það er alveg skýrt. Upptökin liggja hjá gerspilltum elementum innan Fatah -- þ.e.a.s. kreðsunni í kring um Dahlan -- og það er svo aukaatriði hver skýtur fyrstu kúlunni. Í því samhengi er óhætt að halda því til haga að í desember stóðu kónar Dahlans að morðtilræði við Ismail Haniyeh.

Það er óhætt að fullyrða að atburðir næstu daga geta reynst Palestínumönnum afdrifaríkir.

Eins og þjófar að nóttu...

Eins og fyrri daginn var ég úti í garði áðan, í óða önn við að reyta skriðsóley. Hafði reytt nokkra fermetra í dag, og klukkan langt gengin eitt að nóttu. Heyri ég þá bíl nema staðar á götunni fyrir framan húsið. "Ah," hugsa ég, "minn kæri meðleigjandi er seint á ferðinni -- nema þarna fari minn kæri nágranni." Þegar ég leit upp -- ég var skríðandi í drullunni fremst í garðinum, í því horni sem er fjær hliðinu, sé ég ókunnuga menn -- þrjá talsins -- koma inn um hliðið, á milli runnanna og inn á blettinn. Með vasaljós í höndunum, og eitthvað fleira. Ég reis upp, með fíflajárnið í hendinni. Þeir komu auga á mig í rökkrinu og brá við. "Góða kvöldið," bauð ég, frekar önuglega, "var það eitthvað?" Forsprakkinn hafði orð fyrir þeim: "Böh.. við erum bara að tína orma." Ég sagði þeim að allir ormar í þessum garði væru mín eign. Það var að vísu hvít lygi -- tæknilega séð er ég ekki eigandi hússins þótt ég hafi reyndar frjálsar hendur í garðinum -- en boðflennurnar höfðu sig á bak og burt, upp í bíl og keyrðu í burtu. Var ég að koma í veg fyrir innbrot? Eða var ég að bjarga saklausu ánamöðkunum mínum úr klóm vandalausra?

Wednesday, June 13, 2007

Hamas vs. Fatah

Mohammad Dahlan er kallaður hinn tilvonandi Augusto Pinochet Palestínu. Núna þegar bardagar standa yfir, hvað ætli hann sé að gera? Jú, nema hvað, það vill svo heppilega til að hann er staddur í Kaíró, þar sem hann undirgengst aðgerð vegna meiðsla á hné. En sú tilviljun að hann skyldi vera mátulega kominn í öruggt skjól. Ismail Rudwan er talsmaður fyrir Hamas. Hann kenndi Dahlan um tilræði við Ismail Haniyeh í desember síðastliðnum -- hann nafngreindi hann.
Það er villandi og afvegaleiðandi að tala um þessi átök eins og Hamas séu öðru megin og stuðningsmenn Abbaras hinu megin. Fatah-megin eru stríðsmenn sem svara ekki til Abbasar heldur Mohammeds Dahlan -- kvislingsins sem á að ganga erinda Ísraels og Bandaríkjanna með því að kurla niður palestínsku andspyrnuna.
Ég get ekki varist þeirri tilhugsun að Hamas-samtökin séu núna -- í þessum töluðum orðum -- síðasta varnarlína skipulagðrar, opinberrar andspyrnu gegn hernáminu. Niðurstöður þessara bardaga skipta úrslitamáli fyrir framtíð Palestínu, hvort það verða kvislingar eða andspyrnan sem veita fólkinu forystu. Ef Fatah hafa betur verður andspyrnunni naumast fyrir að fara nema neðanjarðar á herteknu svæðunum.

Ekki líst mér á blikuna

Ef þessi frétt er eitthvað í námunda við atburðarásina, þá er óþverri framundan í Palestínu -- valdataka Mohammeds Dahlan og dauðasveita hans. Hann er öryggismálastjóri Fatah, með mörg hundruð manna prívat her sem er þjálfaður af Bandaríkjamönnum og Ísrael -- og hefur verið kallaður hinn tilvonandi Augusto Pinochet Palestínu. Ef hann framkvæmir áætlunina sem menn vita að hann á, semsé að ganga milli bols og höfuðs á Hamas og öðrum andspyrnuhreyfingum, þá líst mér ekki á blikuna. Þetta er kvislingur.

Monday, June 11, 2007

Sulta, sulta og meiri sulta

Síðasta haust bjó ég til rifsberjasultu og rabarbarasultu. Framleiðslan fór fram á næturvakt á Kleppi, rabarbarinn tíndur á lóðinni þar og rifsberin heima hjá mér. Nú í nótt sem leið bjó ég svo til 9 krukkur af rabarbarasultu, og 13 krukkur nóttina þar áður, úr rabarbara sem var allur tíndur á Kleppi líka. Segið svo að það séu ekki hlunnindi að vinna þarna! Segið svo að maður sitji auðum höndum í vinnunni!

Thursday, June 7, 2007

Afrek í garðinum

Garðurinn á hug minn allan þessa dagana, eins og fram hefur komið. Eða, réttara sagt, hann er ofarlega á forgangslistanum. Verst hvað vaktirnar á Kleppi taka mikinn tíma.
Ég er búinn að fara með líklega á annað tonn af garðúrgangi í Sorpu. Það sér, held ég, fyrir endann á kerflinum, en skriðsóleyin er meira og minna eftir. Ég ætla ekki að halda nákvæmt registur hér á blogginu yfir hverja kerru af úrgangi eða hverja skóflu af mold -- en langaði bara til að deila því með heiminum hvað það er ánægjulegt að hugsa um garðinn sinn.

Thursday, May 31, 2007

SLFÍ, reykingar o.fl.

Það er grein eftir mig á Egginni í dag: Af fulltrúaþingi SLFÍ. Sviptingarnar í Sjúkraliðafélagi Íslands hafa verið miklar í vetur; það verður athyglisvert að sjá hvernig nýendurkjörnum formanni tekst að halda friðinn á þessu kjörtímabili.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vegna þessa almenna reykbanns sem tekur gildi á morgun er rétt að minna á ágæta grein Jóns Karls Stefánssonar á Egginni í gær, um Reykingabannið og samvinnurekstur. Um leið er best að blása í sinn eigin lúður; ég skrifaði um afstöðu hins frjálslynda marxista til reykingabanns fyrir rúmum tveim árum. Ég held að það sem ég skrifaði þá standi barasta óbreytt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um reykingabannið, þá verður reykingasamkoma í kvöld. Markmið: Að reykja eins mikið á krá og hægt er á meðan það er leyfilegt. Staður: bakherbergi Celtic Cross, stund: 20:00. Áhugafólk um reykingar velkomið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Félagar í Félaginu Íslandi-Palestínu ættu að fá Frjálsa Palestínu inn um bréfalúguna eftir helgi, ef ekkert fer alvarlega úrskeiðis. Ég held að þetta tölublað sé bara frambærilegt, þótt ég segi sjálfur frá.

Friday, May 25, 2007

Ég fór með rangt mál

Í síðasta innleggi hér sagði ég að garðurinn minn hefði verið í órækt í yfir 20 ár. Það var rangt hjá mér. Mágur minn var svo vinsamlegur að leiðrétta mig og minna mig á að meðan hann bjó þarna lét hann sitt ekki eftir liggja. Þessi yfirsjón lætur mér líða bjánalega. Eftir 20 ára órækt hefði garðurinn litið mun verr út en hann gerði til skamms tíma. Nær væri að tala um að illgresi hefði lítið verið reytt og trjá- og runnagróður lítið grisjaður undanfarin ár. Það hefur svo sannarlega verið nóg að gera í garðinum undanfarið, en tíminn var gróflega ofmetinn hjá mér. Óneitanlega var hann í ágætu horfi þegar systir mín og mágur bjuggu þarna, en nú eru liðin nokkur ár síðan það var og það fennir víst hratt í sporin...

Með öðrum orðum: Ég fór með fleipur og mér þykir það leitt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Meðal annarra orða, þá stendur heilmikið til með þennan garð, bæði skammtímaáætlanir og langtímaáætlanir. Ég reikna með að fræða mína tryggu lesendur um þær eftir því sem þeim vindur fram.

Wednesday, May 23, 2007

Tony Sayegh skrifar: Is it really just an Inter-Palestinian Fight?, og fjallar um dauðasveitirnar sem Mohammed Dahlan er að koma upp með tilstyrk BNA og Ísraels, til þess að "friða" landa sína í eitt skipti fyrir öll. Lesið þetta!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Amnesty vara við óttaherferðinni sem ríkisstjórnir og fleiri valdamenn beita til þess að búa til skálkaskjól til að grafa undan mannréttindum. Þessi tilhneiging hefur ekki farið framhjá neinum sem er ekki því ákveðnari í því að sjá hana ekki.

Tuesday, May 22, 2007

Mold undir nöglunum

Fyrsta vorið sem ég hef búið á Laufásvegi hefur hingað til verið alveg hreint ágætt. Ég er svo heppinn, að umhverfis húsið er stóreflis garður. Í honum hefur varla verið tekið til hendinni í meira en 20 ár (með honorable undantekningum af hálfu föður míns og stundum mín) og í stuttu máli ekki vanþörf á. Þannig að ég hef verið með annan fótinn úti í garði í vor. Ég hef til dæmis gjarnan komið heim af næturvakt og stungið upp eða reytt kerfil í einn til tvo tíma áður en ég tek á mig náðir.
Ég hef meðal annars sett niður kartöflur, gulrætur og rósir, fellt tvö tré sem var fyrir löngu kominn tími á, brytjað mörg tonn af greinarusli niður í viðráðanleg stykki og síðast en ekki síst hef ég snúið vörn í sókn gegn erkióvininum -- kerflinum. Kerfill var orðinn of umsvifamikill í garðinum mínum (áður en ég tók til hendinni), en hefur hins vegar gleypt garð nágrannans algerlega. Það var því ekki um annað að ræða en að fara og stinga nágrannagarðinn upp eins og hann leggur sig. Ég er búinn að gera það þrisvar sinnum, og hef undanfarið verið að fínkemba hann í leit að smákerflum.
Rabarbarinn sem ég setti niður í fyrrahaust hefur það fínt og er hinn sprækasti. Ég hlakka til að éta hann.

Nýja ríkisstjórnin, Palestína, Moggablogg...

Ég vil bara segja eitt um ríkisstjórnina sem er að koma í dagsljósið, að ég er jafn andvígur henni og síðustu ríkisstjórn. Ef skipting ráðuneyta milli kynja verður jöfn hjá Samfylkingunni fær hún að vísu prik fyrir það, sem og fleira, því get ég ekki neitað. En það voru líka einstök atriði sem gamla ríkisstjórnin mátti eiga og fékk prik fyrir. Nei ég veit, mér varð nú ekki tíðrætt um þau, en þau voru nú þarna, seisei já -- skárra væri það nú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég bendi á frétt af Ortrud Gessler Guðnason, sjálfboðaliða frá Íslandi sem er í Palestínu og varð fyrir barsmíðum af hálfu ísraelskra óknyttaunglinga. Lesa má fréttatilkynningu Félagsins Ísland-Palestína í heild sinni á Egginni: Sjálfboðaliði frá Íslandi varð fyrir barsmíðum í Palestínu. Það er ljóti óaldarlýðurinn, þessir landtökumenn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eldar Ástþórsson skrifaði grein á Vísi um daginn: Til helvítis með Palestínu! heitir hún. Heill hópur zíonista skríður fram úr fylgsnum sínum til þess að kommentera á grein Eldars, og eru flest kommentin hvert öðru vitlausar. Hvar er þetta fólk dagsdaglega? Létu Zíonistasamtök Íslands (ZSÍ) boð út ganga á póstlistanum sínum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Riftir milli grasrótarhópa og austfirskra launþega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Moggablogg fer hrikalega í taugarnar á sumum. Ég er í sjálfu sér ekki í þeim hópi, en hef samt vissa andúð á því. Það er þægilegra að geta fest blogg beint við fréttir, og það er hentugt að hafa flesta bloggara landsins tengda innbyrðis, og ætli Moggabloggið hafi ekki blásið nýju lífi að glóðum kulnandi bloggmenningar? Altént er það þó eitt: Einsleitni. Þegar flest blogg eru af sama taginu, hvar er þá fjölbreytnin? Ég get svosem trútt um talað, skrifandi á blogger.com... Auk þessflokkast það tæpast undir frjálsari bloggheim, að hann sé undir valdi Morgunblaðsins. Ég er allavega ennþá hérna, og hef lítið hugsað mér til hreyfings (en stundum þó..)
Það er hins vegar eitt sem fer ósegjanlega í taugarnar á mér við sum Moggablogg. Sumir bloggarar þar hafa þann leiða ávana að kommentera á frétt á mbl.is, segja "Það var aldeilis" í fyrirsögninni eða eitthvað ámóta innihaldsríkt, copy/peista síðan allri helvítis fréttinni inn í bloggið sitt í stað þess að láta bara helvítis linkinn nægja! Hefur þetta fólk ekki áttað sig á því að aðrir eru fullfærir um að lesa fréttina sjálfir á mbl.is í gegn um linkinn? Þ.e.a.s. ef þeir komu ekki þaðan inn á bloggið? Það er til tilbrigði við þetta, sem er fólkið sem les frétt og sér ástæðu til að skrifa sérstakt blogg sem ber sama titil og fréttin, og svo gott sem ekkert nýtt kemur fram í, þótt hlutirnir séu orðaðir aðeins öðruvísi (fyrir utan titilinn). Ég held ekki að ég þurfi að nefna nöfn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að ljúka við að ganga frá efni í Frjálsa Palestínu, málgagn Félagsins Island-Palestína, sem ég ritstýri í ár. Það fylgir því viss ánægja að ljúka þannig verki. Ég hlakka til að sjá blaðið koma út. Innanbúðarupplýsingar: Takið kvöldið 5. júní frá, því þá verður félagsfundur sem verður um leið útgáfuhóf blaðsins.

Saturday, May 12, 2007

Á eftir fer ég og kýs VG

Ég er utan flokka og enginn flokkur hér er mér fyllilega að skapi. Hins vegar ætla ég að kjósa VG, og fyrir því eru einkum tvær ástæður. Flokkurinn er mun trúverðugri en aðrir flokkar í jafnréttimálum og í umhverfismálum. Þar við bætast fleiri mál, en í þessum tveim skarar hann mest fram úr.

Friday, May 11, 2007

Það sem mér liggur á hjarta í dag

Það er grein eftir mig í Mogganum í dag. Ef fólk hefur ekki tök á að kaupa Moggann til að lesa hana, þá hef ég ákveðið að vera svo rausnarlegur að birta hana einnig á Egginni: „Íraksstríðið: Mistök?“ heitir hún. Ríkisstjórnin hefur alveg verið leiðinleg við okkur hérna á köflum og svona, en hún hefur þó ekki stutt það að við fengjum sprengju í hausinn. Það er að segja, við sem búum á Íslandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hin mæta Katrín Jakobsdóttir minnist á vinnustaðalýðræði á s. 41 í Mogganum í dag. Ég gæti ekki verið meira sammála; lýðræði á vinnustöðum væri hin mesta gæfa. En gætum að: Það er ekki lýðræði að hafa samráð við undirmenn sína. Ekki heldur að bera virðingu fyrir þeim, umbera að þeir séu í stéttarfélagi, vera alþýðlegur við þá eða kaupa bakkelsi á föstudögum. Á meðan einn maður, eða nokkrir, geta ákveðið að leggja niður fyrirtækið eða hækka sín eigin laun eða þannig -- með öðrum orðum, meðan lítill hópur eigenda eða embættismanna hefur völdin á vinnustaðnum, þá er ekki hægt að segja að þar ríki lýðræði. En lýðræði er gott og æskilegt -- við ættum fyrir alla muni að reyna að koma því á á sem flestum vinnustöðum -- en það er varla nema ein leið til þess, og hún heitir afnám auðvaldsskipulagsins.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er ekki vanur að halda með stórkapítalistum. Alls eki þegar þeir beita peningum sínum í pólitísku skyni. Það er ekki lýðræðislegt að stórfyrirtæki skipti sér af stjórnmálum -- peningar þeirra koma beint úr vösum arðrændra starfsmanna og/eða kúnna, sem hafa lítið að segja um pólitíkina sem viðkomandi fyrirtæki skarar eld að. En þegar Jóhannes í Bónus birtir heilsíðuauglýsingar og skorar á kjósendur Sjálfstæðisflokksins að strika Björn Bjarnason út -- þá liggur nú við að maður geri undantekningu. Ég meina, þarna er verið að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, er það ekki? Það sem Jóhannes gerir er rangt í sjálfu sér, en inntakið í því er rétt. Ég ætla reyndar ekki að strika Björn Bjarnason út, en það er ekki vegna þess að ég sé svo hrifinn af honum...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er sagt að Kölski freisti ekki þeirra sem hann telur sér vísa. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn enn ekki hringt í mig. Hvers vegna ætli það sé eiginlega? Ég veit ekki hvort ég get kosið flokkinn sem ég fæddist inn í ef hann hringir ekki í mig til að segja mér hvers vegna ég ætti að gera það. Nú hlýt ég að hugsa minn gang.
Ég þekki pólska konu sem er á kjörskrá hérna. Um daginn var hringt í hana frá Sjálfstæðisflokknum. Hinu megin á línunni var önnur pólsk kona sem vildi útskýra fyrir henni hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri nú fínn og flottur og að hún ætti nú að kjósa hann. Mín var nú ekki alveg viss, sagðist vera efins. Hin bauð henni þá að koma á fund og kynna sér málin nú almennilega. Eftir nokkrar fortölur sagði mín: "Kannski kem ég .. ekki."