Wednesday, October 11, 2006

Formáli að skrifum um Norður-Kóreu

Á næstu dögum ætla ég mér að skrifa nánar um Norður-Kóreu.
Ég heyri sjaldan annað um Norður-Kóreu í vestrænum fjölmiðlum en illa dulbúin simpansaöskur um hvað Kim Jong-il sé klikkaður. Velkist einhver í vafa um að það er massíft áróðursstríð í gangi gegn Norður-Kóreu? Allavega, það er slagsíða og það hallar alvarlega á Kim og félaga. Áætlunarbúskapur og samhyggjulegt þjóðskipulag eru nefnilega eitur í beinum hins alþjóðlega auðvalds.
Allavega, ég hef það á tilfinningunni að einhverjir hafi aðrar hugmyndir um mínar hugmyndir um Norður-Kóreu en ég hef sjálfur. Það er að segja, ég held að einhverjir sem lesa bloggið mitt kunni að misskilja mig. Ég hef frekar dregið taum Norður-Kóreu hingað til, í aðra röndina vegna þess að ég er með ofnæmi fyrir pólitískri slagsíðu gegn löndum sem dirfast að standa gegn bandarískri (og annarri) heimsvaldastefnu, og í aðra röndina af einlægri samúð með kóresku þjóðinni.
Það er auðvelt fyrir okkur, pattaraleg dekurrassgöt á Íslandi, að gleyma Kóreustríðinu (öðru nafni Frelsisstríði föðurlandsins). Ég get hins vegar lofað ykkur því að við hefðum engu gleymt ef 2,5 milljónir Íslendinga hefðu farist í stríði fyrir 50 árum.
Meira um þetta fljótlega, hef ekki tíma til að skrifa meira að sinni...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fyrir þá sem þyrstir í lesefni, þá er hins vegar grein eftir mig á Vantrú í dag: Er í lagi að vera á móti hvalveiðum? En kristni?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Aukinheldur er ný grein eftir Jón Karl Stefánsson á Egginni, Örbirgð þjóðanna heitir hún. Hún er ansi hreint góð, drullist til að lesa hana.

Monday, October 9, 2006

Norður-Kórea gerir kjarnorkutilraun

Rússar fordæma Norður-Kóreustjórn fyrir vel heppnaða kjarnorkutilraun sína. Tala um að Norður-Kórea „hundsi einróma vilja alþjóðasamfélagsins“. Heyr á endemi! Rússar tala út um afturendann á sér. Það er auðvelt fyrir þá að rífa sig yfir því að fleiri vilji koma sér upp fælingarmætti, þeir hafa verið með kjarnorkuvopn áratugum saman. Sama með Bandaríkjastjórn, Kínastjórn og aðrar ríkisstjórnir sem ráða yfir kjarnorkuvopnum. Ríkisstjórn sem ræður sjálf yfir kjarnorkuvopnum hefur engan rétt til að æsa sig yfir því að Norður-Kórea vilji komast í hópinn. Engan rétt. Norður-Kórea hefur sama rétt til að verja hendur sínar og hvaða annað land sem er.
Og hvað viðvíkur „einróma vilja alþjóðasamfélagsins“ þá er hann ekki til. Almennur vilji alþjóðasamfélagsins er hins vegar til og hann er sá að Kóreustríðið verði ekki endurtekið. Öruggasta leiðin til þess að fyrirbyggja að það gerist er að Norður-Kórea sé ekki framar skotspónn fyrir heimsvaldasinna. Það fokkar enginn í þeim sem á kjarnorkusprengjur, sjáiði til. Þegar Kórea getur varið sig, þá er líka útséð um þreifingar bandarísku heimsvaldastefnunnar um frekari áhrif á Kóreuskaga.
Ég er ekki hrifinn af kjarnorkuvopnum né, ef út í það er farið, öðrum vígatólum. Hins vegar ber ég kennsl á rétt landa til að verja íbúa sína. Þegar eitt land er höfuðsetið af heimsvaldasinnum, hvað á það þá að gera? Hvað á Kim Jong-il að gera? Halda áfram að vera peð í valdatafli stórveldanna, halda áfram að láta Kínverja nota Kóreu fyrir tromp eða jafnvel að þeir fórni henni í einhverjum samningum? Nei, Kórea á ekki að vera leiksoppur neins. Hún ætti hvorki að vera háð Kínverjum né neinum öðrum um öryggi. Sá sem er háður öðru ríki um öryggi getur eins sleppt því að kalla sjálfan sig sjálfstæðan. Hvaða þjóðfrelsi er það, sem þrífst í skjóli erlends valds?
Já, það er leitt að til þessa hafi komið. Ég get hins vegar ekki með nokkru móti áfellst Kóreumenn. Hvernig á ríkisstjórn Norður-Kóreu að segja íbúum landsins að annað Kóreustríð sé hugsanlegt? Svarið er einfalt: Hún getur það ekki. Það er fullkomlega skiljanlegt að þjóð sem hefur einu sinni gengið í gegn um Kóreustríð geri allt -- ég endurtek: allt -- til þess að fyrirbyggja að það endurtaki sig. Það er leitt að Kóreumenn hafi neyðst til að ganga þetta langt, en um leið viss léttir yfir því að óvissan sé ekki lengur fyrir hendi.
Norður-Kórea ræður yfir kjarnorkuvopnum og nú skulu heimsvaldasinnar bara reyna að hræða hana.

Wednesday, October 4, 2006

Kjarnorkutilraunir í N-Kóreu gætu haft slæm áhrif á valdajafnvægi í NA-Asíu að sögn utanríkisráðherra Suður-Kóreu og Norður-Kóreumönnum verði gerð grein fyrir afleiðingum kjarnorkutilraunar, krefst forseti Suður-Kóreu. Er þetta grín eða hvað? Vefst það fyrir einhverjum hvað kjarnorkutilraun DPRK mundi breyta miklu? Breytingin yrði sú að enginn mundi framar dirfast að fokka í Norður-Kóreumönnum. Það fokkar nefnilega enginn í þeim sem á kjarnorkusprengjur. Hvað eiga Norður-Kóreumenn að gera, bugta sig og beygja fyrir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og bjóða vestrænum auðjöfrum að koma í heimsókn og slægja landið?

Tuesday, October 3, 2006

Norður-Kórea og kjarnorkuflaugar frelsisins

Norður-Kóreumenn tala um að gera kjarnorkutilraunir og heimsvaldaríkjunum verður um og ó [1]. Ríki sem eiga sjálf kjarnorkusprengjur hafa nákvæmlega enga siðferðislega stöðu til að banna öðrum ríkjum að eiga kjarnorkusprengjur. Síst af öllum litlum og fátækjum ríkjum sem reyna í heiðarlegri örvæntingu að verjast ásælni heimsvaldaríkjanna! Hvað á Norður-Kórea að gera? Opna bara hliðin og gerast enn ein þrælakista Asíu fyrir vestrænt heimsvaldaauðmagn? Ef Frakkar vilja ekki að Norður-Kórea komi sér upp kjarnorkuvopnum, þá geta þeir gjört svo vel að ábyrgjast öryggi Norður-Kóreu. Ef þeir gera það ekki, og enginn annar gerir það, þá hefur heldur enginn rétt til að segja Norður-Kóreumönnum að gera það ekki sjálfir!

Sunday, October 1, 2006

Af klerkum og öðrum í Sómalíu

Þegar er talað um harðlínuklerka er lesandanum ætlað að skilja að þar séu vafasamir menn á ferð. Ekki efast ég um að það sem sómalskir klerkar standa fyrir sé afturhaldssamt og stangist á við hugmyndir Vesturlandabúa um mannréttindi eða lýðræði. Hins vegar held ég að það sé verið að mála skrattann á vegginn, mögulega til að undirbúa jarðveginn fyrir hernaðaríhlutun Eþíópíumanna, bæði vegna eigin hagsmuna eþíópísku ríkisstjórnarinnar og sem leppa vestrænnar heimsvaldastefnu.
Þótt klerkaveldi sé arfaslæmt í sjálfu sér, þá væri það, held ég, skárri kostur en annar tveggja, áframhaldandi borgarastríð eða stríð milli Eþíópíumanna og sómalskrar andspyrnu. Það væri ekki sérlega beysinn kostur heldur, ef hin svokallaða bráðabirgðastjórn Sómalíu -- svokallaða segi ég því hún er næstum valdalaus í reynd -- sækti í sig veðrið, enda er hún líka leppur, bara fyrir önnur öfl. Í stöðunni væri því alls ekki afleitt að klerkarnir næðu undir sig landinu öllu, kannski að Puntlandi og Sómalílandi undanskildu, kæmu á röð og reglu og hæfu einhverja uppbyggingu á innviðum þess.
Pólitískur íslamismi er eins og aðrar pólitískar birtingarmyndir trúar. Þótt þær lofi öllu fögru og sveipi sig stundum byltingarsinnuðu orðfari, þá leiða þær í pólitískar gönur, blindgötur. Þær skila ekki af sér þeim ávexti sem þær lofa. Af þessum ástæðum þætti mér hvorki örvæntingarefni ef talibanar næðu aftur völdum í Afghanistan (í stað borgarastríðs eða erlendrar hersetu) eða klerkarnir í Sómalíu (í stað borgarastríðs eða erlendrar hersetu).
Ef þjóðfrelsi er tryggt, þá hafa menn frekar grundvöll til að byggja næsta pólitíska framfaraskref á. Í klerkaveldi kemur fyrr eða síðar að því að almenningur fær nóg af klerkunum og steypir þeim aftur. Það liggur í augum uppi að slík bylting er ólíklega á klerklegum forsendum. Hins vegar er hugsanlegt að hún sé á sósíalískum forsendum. Hún mundi beinast gegn innlendri valdastétt, þ.e.a.s. nærtækasta og skeinuhættasta óvininum.
Íran og Afghanistan hafa nú þegar á að skipa skæruliðum maóista og annarra kommúnista. Slík sveit gæti gagnast Sómalíu vel. Miðað við að sósíalismi virðist eiga erfitt uppdráttar í Sómalíu sem stendur, þá virðast objektífar aðstæður ekki vera hagstæðar. Ein aðalástæðan fyrir því hlýtur að vera ættbálkahyggjan (e. tribalism) sem er ríkjandi ídentítets-hugsun meðal Sómala. Klerkaveldi gæti unnið gegn ættbálkahyggju, og það mundi líklega sýna Sómölum að óvinirnir væru ekki almenningur í hinum ættbálkunum, heldur valdastéttin, sem klýfur ættbálkana. Klerkaveldi gæti tæpast þrifist án stuðnings ættbálkahöfðingjanna, svo að þeir yrðu líkast til samsekir í augum þeirra sem sæju hvernig í pottinn væri búið. Þeir gætu að vísu snúið baki við klerkunum þegar færi að halla undan fæti hjá þeim, og þannig bjargað eigin skinni, a.m.k. að einhverju leyti.
Því meiri völd sem klerkarnir öðlast, þess minni orka fer í innbyrðis átök meðal almennings í landinu. Það held ég. Þannig að það fer ekki um mig skelfingarhrollur þegar ég les fréttir um vonda harðlínumenn, hvorki í Sómalíu né í öðrum löndum þar sem pólitískur íslam er áberandi.