Tuesday, February 28, 2006

Það er eitthvað verulega fokkt öpp með veðrið þessi árin, eins og allir hafa tekið eftir. „Is the problem weather, or is it war?“ spyr Robert Fisk í grein sem vert er að gefa gaum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Evo Morales þakkar Kúbönum stuðninginn við Bólivíu.
Af honum er það annars að segja að hann nýtur stuðnings 79% bólivísku þjóðarinnar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
FARC heita Hugo Chavez skilyrðislausum stuðningi, ef til þess kæmi að Bandaríkin réðust á Venezuela.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Við getum rætt frið,“ segir Ismail Haniye, „þegar Ísraelar draga lið sitt aftur til landamæranna frá 1967.“ Þetta er réttmæt krafa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Moazzam Begg skrifar um „My years in captivity“ -- þegar hann var fangi Bandaríkjamanna og sætti harðneskju og smán.

Monday, February 27, 2006

Nýjasti glæpur Ísraela

ESB styrkir Palestínumenn“ með því að gefa þeim peninga. Hvers vegna setur ESB ekki frekar þrýsting á Ísrael að skila peningunum sem Ísraelar hafa tekið a heimastjórninni!? Ísraelar heimta skatt fyrir heimastjórnina og neita nú að skila peningunum! Þetta er glæpur. Þetta er stuldur og ekkert annað. Láta menn þá komast upp með stuld, rán um hábjartan dag?
Í beinu framhaldi af því: „Ávísun Palestínumanna vegna bensínkaupa reyndist innistæðulaus“ -- en „Ísraelskur embættismaður sagði við fréttastofuna AFP að stjórnvöld gætu ekki gripið inn í mál sem tengdist einkasamningum.“ Í alvöru talað, hvern eru þeir að blekkja?

Friday, February 24, 2006

Í kvöld er fjáröflunarkvöldverður í Friðarhúsinu á horni Snorrabrautar og Bergþórugötu. Hann hefst klukkan 19:00 og kostar aðeins 1000 krónur inn. Gott mál -- snáfum þangað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
http://alver.muna.is/ -- undirskriftalisti gegn álveri á Norðurlandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talið er að uppreisnarmenn súnníta hafi verið að verki.“ Telur hver? Ekki ég, svo mikið er víst. Agentes provocateurs blanda loft lævi í Írak, sá misklíð og espa menn til flokkadrátta. Breskir hermenn hafa nú þegar orðið uppvísir að því að planta sprengjum í Basra, svo eitt dæmi sé tekið. Þannig að, hverjir tel ég að hafi verið að verki? Svar: Ég veit það ekki, en hitt veit ég: Árás sem þessi þjónar hagsmunum bandaríska hernámsliðsins, ekki írösku þjóðarinnar. Dragi fólk þær ályktanir sem það vill.

Monday, February 20, 2006

Víetnam í kvöld + Gyanendra vill semja

Í kvöld, mánudagskvöld, mun Sveinn Rúnar Hauksson koma í Snarrót og segja áhugasömum frá Víetnam-nefndinni á Íslandi, sem var og hét á tímum Víetnam-stríðsins. Svein þekkja margir sem formann Félagsins Íslands-Palestínu, með meiru, en hann var einnig formaður Víetnam-nefndarinnar. Áhugasamir velkomnir. Byrjar klukkan 20:00 í Snarrót (sem er í kjallaranum á Laugavegi 21 ef þið vissuð það ekki).

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Gyanendra konungur í Nepal „hvatt“ stjórnmálaflokkana til að hefja samstarf að nýju um að „endurreisa“ lýðræði í landinu. Í stuttu máli sagt er þetta veikleikamerki hans; hann er að segja að hann vilji semja. Það er dæmigert fyrir valdið, það hagar sér eins og sýkópati. Stjórnar þeim sem það getur stjórnað, vingast við þá sem það getur ekki stjórnað. Gyanendra finnur að hann er að missa tökin, svo hann vill semja meðan hann hefur ennþá samningsstöðu, semja um eftirgjöf til þess að missa ekki öll völd. Sagan er full af dæmum um svipað. „Við viljum semja.“
Prachanda lýsti því yfir á dögunum, að vegna drýgðra óhæfuverka frá valdaráninu 1. febrúar í fyrra, hefði kóngur fyrirgert möguleikunum á málamiðlun við hann. Þar sem þessi yfirlýsing er ekki nema vikugömul er hún án nokkurra tvímæla í fullu gildi -- í það minnsta fyrir maóistana. Nú er spurningin, freistast þingræðisflokkarnir til að flýja aftur yfir einskismannsland í skotgrafir kóngsins? Eru þeir svo tækifærissinnaðir og óraunsæir að þeir geri það?
Nei, þeir vísa boði kóngsa á bug. Segja það vera sýndarmennsku og af sama toga spunnið og sýndarkosningarnar 8. febrúar. Tilboðið sé semsagt til þess gert að láta kónginn líta vel út. Kannski tilraun til mótleiks gegn einhliða fjögurra mánaða vopnahléi maóista -- misheppnuð tilraun.
Eða hvað? Hvað ef þetta er ekki sýndarmennska heldur sáttaboð í von um að krúnan prýði áfram daunillan skallann á Gyanendra? Í öllu falli lítur þetta út sem veikleikamerki, og það liggur beinast við að túlka það þannig. Í öllu falli er staða kóngsins of veik til að bandalag við hann borgi sig.
Nú, það spilar ekki allt gegn kóngunum. Bandalag sjöflokkanna og maóista frá því í nóvember hefur minni diplómatískan byr í seglin núna en það hafði þegar það kom fram. Moriarty, sendiherra Bandaríkjanna, hefur gefið út yfirlýsingu sem greinilega er hugsuð til að rekja fleyg milli þeirra. Sjá t.d. þessa frétt.
Þá er það stærsta fréttin: Maóistar boða allsherjarverkfall frá og með 3. apríl -- ótímabundið. Næstu þrjár vikur á udnan -- frá 14. mars -- munu þeir undirbúa verkfallið með því að loka vegum og öðru slíku. Allsherjarverkfall, það er ekkert annað. Fyrirtæki lokuð, skólar, samgöngur. Þeir hafa enn fremur skorað á landa sína að hætta að greiða krúnunni skatta, og á lögreglumenn og hermenn að gerast liðhlaupar og ganga í lið með byltingunni.
Svo er núna talað um takmarkað viðskiptabann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag hefði Bela Kun orðið 120 ára, hefði hann lifað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Al-Sadr er ekki af baki dottinn, virðist vera. Hótar báli og brandi ef Bandaríkin ráðast á Íran eða Sýrland.

Thursday, February 16, 2006

Á NFS var sagt „...nú þegar hryðjuverk eru talin vera helsta ógnin sem steðjar að Íslendingum...“ -- hvaða della er þetta eiginlega? Hvaða hryðjuverkaógn steðjar að Íslendingum? Og hvað eiga einhverjar þotur að stoða gegn bílsprengju? Ef það er eitthvað sem Íslendingum stafar hætta af, þá er það mengun. Þar við bætist óábyrg utanríkis- og varnarmálastefna -- það eina sem gæti beint sjónum óráðvandra heiðingja að landinu.
=== === === ===
9/11: The Road to Tyranny verður í Snarrót kl. 20:00 í kvöld. Nánar hér.
=== === === ===
Eggin.net -- gæðaskrif eftir undirritaðan í dag.

Tuesday, February 14, 2006

Eitt og annað

Ég held það megi vel una við niðurstöðuna í prófkjöri Samfylkingarinnar. Já, ég tók þátt í því. Er rangt að taka þátt í prófkjöri hreyfingar sem maður er ósammála í grundvallaratriðum? Það er nú það. Ef prófkjörið er opið, þá getur það varla verið rangt, eða hvað? Hefði ég þá átt að taka þátt í prófkjöri Framsóknarflokksins, með sömu rökum?
=== === === ===
Hópur hernaðarsérfræðinga varar við árásum á Íran. Ég held það megi taka undir það. Fyrir utan að árásarstríð ku vera glæpur gegn mannkyni og að manndráp eru röng í sjálfu sér, þá held ég að það væri hreint og beint heimskuleg hugmynd. Íran er nefnilega ekki árennilegur andstæðingur.
=== === === ===
Paradise Now er mynd sem ég ætla að sjá. Eftir lestur nýlegrar greinar þar sem meistari Uri Avnery fjallar um hana (varúð, hann segir frá plotti og endi) er ég viss um að hún er þess verða að sjá í kvikmyndahúsi.
=== === === ===
Morales hefur gert kunnugt hverjir skipa ráðuneyti hans.
=== === === ===
Nepal: Stjórnmálaskýrendur segja að hinar gjörsamlega misheppnuðu „kosningar“ síðasta miðvikudag séu pólitískt reiðarslag fyrir kónginn. Opinberar tölur greina frá um 20% kjörsókn, en til samanburðar var um 60% kjörsókn í síðustu kosningum, árið 1999. Af sætum sem kosið var um eru víst 54% auð ennþá! Gyanendra kveðst því ætla að efna til nýrra kosninga! Ætli hann hafi ekki fengið nóg af niðurlægingu?
Sher Bahadur Deuba, síðasti kjörni forsætisráðherra Nepals, sem sviptur var tign og stungið í steininn eftir valdaránið í fyrra, gefin spilling að sök, hefur verið látinn laus eftir úrskurð um að nefndin sem dæmdi hann hafi verið ólögleg.
Það hefur varla farið framhjá reglulegum lesendum þessarar síðu hvaða tilefni var í gær. Af því tilefni braut Prachanda formaður odd af oflæti sínu og veitti sjónvarpsviðtal við BBC. Það má lesa í heild sinni hér. Sjónvarpsviðtalið markar tímamót; þótt formaðurinn fari enn huldu höfði, þá telur hann sér greinilega óhætt núna að andlit hans sé þekkt. Það segir nú eitthvað um stöðu maóista, ef sjálfstraustið er þetta.
=== === === ===
Ég trúi þessu ekki, Bretar virðast vera að fara að taka upp nafnskírteini, „sem stjórnvöld segja að muni auðvelda baráttuna gegn glæpa- og hryðjuverkamönnum.“ -- þetta er elsta afsökun í bókinni: Að segja að eftirlitið og valdstjórnin séu til að vernda almenning -- það er, í einu orði sagt, bull. Eftirlit og valdstjórn vernda valdið. Ég skil ekki hvernig almenningur kaupir svona margtuggið yfirskyn aftur og aftur. „Nafnskírteinin eiga að vera hátæknileg með ýmsum lífkennum.“ Piff, svei.

Monday, February 13, 2006

Tíu ár af stríði fólksins

Í dag er merkisdagur. Þennan dag fyrir tíu árum -- 13. febrúar 1996 -- hóf Kommúnistaflokkur Nepals (maóistar) Stríð fólksins undir forystu Prachanda formanns og Baburam Bhattarai. Á þessum tíu árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og mjög er orðið ólíkt umhorfs í Nepal. 1996 réð ríkjum Birendra konungur, og í skjóli hans sat kjörin ríkisstjórn. Misrétti var mjög mikið, erfðastéttakerfi, lénsveldi og fátækt. Maóistar einsettu sér að afhjúpa hið sanna eðli ríkisins og ganga um leið milli bols og höfuðs á því. Uppreisn hófst í afskekktum sveitahéruðum, og óx smám saman ásmegin. Friðarviðræður við ríkisstjórnina reyndust árangurslausar og ríkisvaldinu tókst ekki að brjóta uppreisnina á bak aftur með vopnavaldi.

1. júní 2001 var Birendra konungur drepinn ásamt mestallri fjölskyldu sinni. Dipendra krónprins var kennt um ódæðið, en hann lést sjálfur af sárum fáum dögum seinna -- sárum sem hann hafði átt að hafa veitt sér sjálfur. Þetta er opinbera sagan. Í Nepal telja margir að þetta hafi ekki verið einhver fjölskylduharmleikur, heldur hafi erlendir sérsveitarmenn verið að verki. Hvers vegna? Jú, Birendra og stjórn hans gekk ekki að halda aftur af uppreisnarmönnunum, og í staðinn þurfti harðari konung:
Gyanendra Shah tók við stjórnartaumum, yngri bróðir Birendra konungs, harður í horn að taka. Undir vernd hans sat áfram kjörin ríkisstjórn og áfram héldu friðarumleitanir við maóista og barátta gegn þeim. Mannfallið fór vaxandi. 2002 lýstu maóistar því að þeir væru komnir af stigi strategískrar varnar og hefðu náð stigi strategísks jafnvægis. Hverri ríkisstjórninni á fætur annarri mistókst að semja um frið, og voru látnar taka pokann sinn. Síðasti kjörni forsætisráðherra landsins var Sher Bahadur Deuba. 1. febrúar 2005 var hann rekinn frá völdum (og fangelsaður) og Gyanendra tók sér alræðisvald. Málfrelsi, prentfrelsi og fundafrelsi voru skjótlega afnumin. Hreint lögregluríki tók við af því stjórnarfari sýndarlýðræðis sem áður var. Nepalska valdastéttin stóð afhjúpuð með nakið sverðið. Landeigendur, fámenn elíta og heittrúaðir hindúar studdu kónginn en margir fátækir bændur og verkamenn maóista. Þingræðisflokkarnir, pólitískur fulltrúi óburðugrar borgarastéttar, voru settir út í kuldann. Sýnt var að hið svokallaða lýðræði í Nepal hafði staðið á brauðfótum. Hvernig er hægt að tala um að alvöru lýðræði þrífist í pólitísku skjóli einvaldskonungs?

Svo vildi til, að um sömu mundir og konungur tók sér alræðisvald, varð klofningur í maóistaflokknum. Vegna mikilla sigra misserin á undan hafði félögum fjölgað mjög ört og flokkurinn leið fyrir pólitíska þenslu. Ekki hafði tekist að mennta nýja félaga eins hratt og þeir voru teknir inn, og misbrestur varð á flokksaga. Baburam Bhattarai var rekinn úr flokknum og flúði land. Eftir heiftúðugar yfirlýsingar á báða bóga slíðruðu þeir Prachanda sverðin og flokkurinn sameinaðist aftur, sterkari en áður. Á eftir fylgdi erfið en nauðsynleg sjálfsendurskoðun.

Næstu mánuði eftir valdatökuna var barist sem aldrei fyrr. Konungsmönnum sóttist í fyrstu heldur betur, en stríðsgæfan snerist þeim þó fljótlega í óhag. Er hér var komið sögu -- síðasta sumar -- réðu maóistar milli 50 og 80% ríkisins (að flatarmáli) og vald konungsins var ekki óskorað nema í stærri borgum og virkjum.

Í september lýstu maóistar yfir einhliða vopnahléi. Þetta kom flatt upp á konung og menn hans. Konungur aflýsti ávarpi við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðarinnar. Það hefði enda verið hrein auðmýking, þar sem öllum er ljóst að hann er rúinn stuðningi þjóðarinnar, ekki síst eftir að maóistar og þingræðisflokkarnir sjö tilkynntu í október að þeir hefðu náð samkomulagi um að stefna að lýðveldisstofnun og nýju stjórnlagaþingi.

Hinu þriggja mánaða vopnahléi var ekki svarað með gagnkvæmu vopnahléi af hálfu konungshersins, en í byrjun desember tilkynnti Prachanda að vopnahléð yrði framlegnt -- aftur einhliða -- um mánuð enn. Þar sem konungsmenn héldu enn uppi árásum gátu maóistar ekki setið þegjandi lengur og framlengdu vopnahlé sitt ekki aftur. Miklir bardagar hófust; yfir 60 féllu í janúar 2006.

Konungur vildi ljá einræði sínu lýðræðislegan blæ, svo hann boðaði til sveitarstjórnakosninga 8. febrúar sl. Í þessu skrumi tóku nepalskir lýðræðissinnar ekki þátt, heldur sniðgengu kosningarnar og beittu sér gegn þeim af alefli. Maóistar lýstu fyrir fjögurra daga allsherjarverkfalli og í áhlaupi þeirra á virki í vestanverðu landinu feldu þeir um 20 af konungsmönnum. Kosningaþátttaka var með því minnsta sem um getur, aðeins nokkur prósent. Kosningarnar voru enn ein auðmýkingin fyrir konunginn.

Núna lítur landslagið svona út: Konungurinn stendur pólitískt nakinn á berangri og aðeins tímaspursmál hvenær hann fer í útlegð eða verður tekinn af lífi. Maóistar eru greinilega komnir á stig strategískrar sóknar og vald þeirra er orðið slíkt að Prachanda formaður hefur komið fram á nýjum ljósmyndum eftir að fara huldu höfði árum saman. Þingræðisflokkarnir skilja að maóistar hafa mátað kónginn og hans vitjunartími er kominn og maóistar skjila að óraunhæft er að ætla að koma á sósíalisma í Nepal samtíðarinnar. Bandalag maóista og þingræðisflokkanna er því næsti handhafi pólitísks valds í Nepal.

Þeir stefna að því að gera eftirfarandi: Þingræðisflokkarnir, sem ráða um 2/3 þingsæta á gamla þinginu, kalli saman þingið, þingið lýsi sig réttmætt þjóðþing Nepals og myndi bráðabirgðaríkisstjórn með stuðningi maóista. Bráðabirgðaríkisstjórnin og maóistar semji um frið sína á milli og kalli eftir pólitískri viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Gengið verði milli bols og höfuðs á konungdæminu og her maóista renni eftir það saman við lýðræðislegri element af konunglega hernum. Að því búinu verði boðað til nýs stjórnlagaþings og nepalska ríkið gert upp.

Í dag, þegar skyggnst er yfir völlinn, má sjá að nepalska konungdæmið hefur dagað uppi og það á ekki langt eftir. Það hyllir undir frið og lýðveldisstofnun í Nepal og að lýðræðissinnaðir Nepalir fái næði næstu árin til að byggja upp innviði landsins og efnahagskerfi.

Af þessu tilefni verðu Nepal-kvöld í Snarrót, kjallara Laugavegar 21 (kjallara), í kvöld milli klukkan 20:00. og 22:00. Sýnt verður í mynd sem maóistar gáfu út á 8 ára afmæli stríðs fólksins og málin verða rædd. Látið endilega sjá ykkur.

Thursday, February 9, 2006

Nepal o.fl.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að sveitarstjórnarkosningar fóru fram í Nepal í gær. Þetta voru einhverjar verst heppnuðu kosningar sem ég hef heyrt um. Pólitískur ósigur fyrir Gyanendra kóng. Kjörsókn var um það bil 10% að sögn kjörnefndar (ágiskanir ná frá 2% til 20% kjörsóknar). „The low turnout was seen as a success by the main political parties and Maoist rebels who had been campaigning for an election boycott. They argued the election could not take place while King Gyanendra retains absolute power in Nepal.“ Opinberum starfsmönnum var skipað að kjósa, en eiga að öðrum kosti á hættu að missa vinnuna. Hindustan Times greina frá því að í sveitarfélögunum 58 þar sem kosið var, hafi aðeins 3255 frambjóðendur keppt um 4146 sæti í upphafi, en af þeim hafi um 650 dregið framboð sitt til baka. Því voru engir frambjóðendur til um 2100 sæta. Sums staðar var fólk boðið fram án þess að vita af því; narrað til þess, til dæmis Sunaina Devi Paswan frá Jaleswore: „They fooled me into signing the candidacy paper stating that it was a form for a women's credit group“ sagði hún. Khaleej Times greina frá því að í 22 sveitarfélögum hafi kosningar ekki farið fram vegna skorts á frambjóðendum, eða vegna þess að þeir hafi verið sjálfkjörnir. Þúsundir mótmælenda kljást við lögreglu á götum Kathmandu. Fulltrúi Bandaríkjastjórnar kallar kosningarnar réttilega „holar að innan“ og ríkisstjórn Indlands tekur í sama streng. „Analysts say the unpopular king is running out of options and his days may be numbered.“*
Af íslenskum fjölmiðlum er ég ánægður með frétt Ríkisútvarpsins um málið. Frétt Vísis er stutt en svosem ekki slæm. Morgunblaðið segir hins vegar að kjörsóknin hafi verið lítil „vegna hótana og ofbeldisverka“, sem gefur ranga hugmynd.

=== === === ===
Skopmyndir: Rice sakar ráðamenn að kynda undir reiði almennings“ -- það er vafalítið rétt hjá henni. Það er samt ekki eins og hún sé í aðstöðu til að vera merkileg með sig heldur, eða hvað?
=== === === ===
Grein eftir mig á Eggjunum:
Stéttaskipting og auðvaldsskipulag
Á meðan einn þjóðfélagshópur hefur vald til að setja öðrum þjóðfélagshópi skilyrði fyrir afkomu sinni er gátt ógæfunnar opin. Gátt stéttaskiptingarinnar. Stéttaskiptingin felst í þessu valdi, að geta sett öðrum skilyrði fyrir afkomu sinni. Það er annað mál, hvort einstakir kapítalistar gera það eða ekki; það er ekki verknaðurinn heldur aðstaðan sem stýrir því hvort einhver er kapítalisti eða ekki.“
Lesa afganginn af greininni.

Tuesday, February 7, 2006

Glænýtt viðtal við Prachanda

KantipurOnline birtir nýtt viðtal við Prachanda formann maóista í Nepal. Formaðurinn segir flokk sinn vera reiðubúinn til viðræðna við konungsstjórnina ef hún samþykkir vopnahlé, með heiðarlegum ásetningi um að leysa stríðið. Það ehfur verið ásetningur maóistanna í nokkur ár að haldið verði stjórnlagaþing, þar sem konungdæmið verði gert upp og landinu fengin ný stjórnskipan, væntanlega þá lýðræðislegt lýðveldi. Prachanda segir í viðtalinu að maóistaflokkurinn muni hlíta úrskurði þjóðarinnar, jafnvel þótt niðurstaðan verði áframhaldandi einveldi.
Hann segist ekki hafa trú á árangursríkri sókn til sósíalisma og kommúnisma á þessu stigi stéttabaráttunnar, vegna efnahagslegra, pólitískra og félagslegra aðstæðna. Flokkurinn verði að sætta sig við það og leggja sig í staðinn fram um að spila taktíkina nógu sveigjanlega, en vera nógu trúir strategíunni. Loks segir hann að ef flokkur hans kæmist til valda mundu æðstu menn flokksins -- hann sjálfur, Baburam, Badal, Mahara og Diwakar -- ekki taka við stöðum í framkvæmdavaldinu.
Þetta þykja mér merkilegar fréttir af framvindu mála í Nepal.
Líkt og ólíkt með Samfylkingunni og VG

Orðheppinn hægrimaður kallaði andstæðinga sína einhverju sinni pólitíska vindhana. Þessi sniðuga einkunn finnst mér lýsa Samfylkingunni vel. Ég held að stjórnmálahreyfing, sem leitast við að sameina jafn breitt pólitískt litróf og Samfylkingin, sé dæmd til að eiga í erfiðleikum með að móta sér stefnu. Hvað er Samfylkingin? Vinstriflokkur? Miðjuflokkur? Hægrikratar? Fólk af þessum þrem tegundum er innan hennar, í það minnsta. Er hægt að kalla hana krataflokk? Sú einkunn er fullvíðtæk til að gefa skýra hugmynd, þótt hún gefi vissulega óljósa hugmynd.
Samfylkingin er hentistefnuflokkur. Inntak hennar er kratamoð og það virðist sem hún geti ekki ákveðið sig hvert hún eigi að brosa hverju sinni. Hentistefna er einmitt það sem einkennir Samfylkinguna; taktíkin er oft vel útfærð, en strategíunni er minna fyrir að fara. Að hverju er stefnt? Þeirri spurningu er varla hægt að svara.
(Lesa afganginn af greininni.)


=== === === ===
Dagskrá febrúarmánaðar í Snarrót.

Monday, February 6, 2006

Eggin taka til starfa

Ný heimasíða hefur tekið til starfa:
Eggin -- vefrit um samfélagsmál
Jón Karl Stefánsson skrifar um „Hinar raunverulegu afætur“ og Þórður Ingvarsson spyr hvar skuli byrja. Meira væntanlegt næstu daga, fylgist með.

=== === === ===
Chavez segir að helsti keppinautur sinn í forsetakosningunum í desember verði Bandaríkjastjórn og varar stuðningsmenn sína við því að hún sé vís til að beita brögðum.
=== === === ===
Sem alþjóð er kunnugt (1, 2, 3, 4, 5, 6) stendur til að sveitarstjórnarkosningar fari fram í Nepal á miðvikudaginn. Þessar kosningar verða til málamynda og til þess eins ætlaðar að auka trúverðugleika konungsins Gyanendra og treysta einræði hans í sessi. Þingræðisflokkarnir sjö og maóistar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að þessi óhæfa nái fram að ganga.
=== === === ===
230 farast úr kulda í Póllandi í mesta frosti í manna minnum. Svona fer þegar samfélagið ábyrgist ekki að allir búi við lágmarkslífskjör, ábyrgist ekki lágmarksmannréttindi -- ekki einu sinni réttinn til að lifa.
=== === === ===
Ritstjórn WSWS fordæmir myndbirtingar Jyllands-Posten harkalega og setur í pólitískt samhengi. Lesið greinina. Ég get ekki annað en tekið undir það sem þeir segja, m.a.:

„The decision of the right-wing Danish government to defend the newspaper that initially published the cartoons, and of newspapers in Norway, France, Germany, Spain, Italy, Belgium, the Netherlands, Switzerland, Iceland and Hungary, both conservative and liberal, to reprint them has nothing to do with freedom of the press or the defense of secularism. Such claims make a mockery of these democratic principles.
...
It is, moreover, a continuation and escalation of a deliberate policy in Europe, spearheaded by the political right and aided and abetted by the nominal “left” parties, to demonize the growing Muslim population, isolate it, and use it as a scapegoat for the growing social misery affecting broad layers of the working class.“

Saturday, February 4, 2006

WSWS um LCR

Trotskíistarnir í WSWS birta grein þar sem trotskíistunum í LCR í Frakklandi er úthúðað fyrir undanlátssemi við auðvaldið. LCR munu, að sögn WSWS, hafa veitt borgarastéttinni stuðning sem „stoð frá vinstri“ gegn Le Pen og dónum hans. En ef fasismi er að rísa upp í Frakklandi, gera LCR -- og PCF og aðrir vinstriróttækir flokkar -- þá ekki einmitt rétt með því að styðja borgaraleg lýðræðisöfl gegn fasistunum? (Og á hinn bóginn, gerir það kommúnista ekki líka tortryggilega, að lýðræðissinnaði hluti borgarastéttarinnar þiggi stuðning þeirra?) Tja... ég veit ekki hvað skal segja.

X-H, því ef einhver var búinn að gleyma því...

...þá er ég stuðningsmaður Háskólalistans í stúdentaráðskosningunum sem fara í hönd. Einn helsti gallinn við að vera sem stendur ekki skráður í HÍ er að þá get ég ekki kosið listann minn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Greiningardeild stofnuð hjá ríkislögreglustjóra“. Það þykir mér athyglisvert. „Þessi deild á að rannsaka landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum, og meta áhættu vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi.“ Gott. Hver veit nema X. gr. Almennra hegningarlaga verði rifjuð upp á næstunni.

Thursday, February 2, 2006

Hamas, Nepal, Múlla Krekar o.fl.

Í kjölfarið á sigri Hamas-samtakanna vil ég (með góðfúslegu leyfi) birta smá texta frá Elíasi Davíðssyni, þar sem hann segir við hverju hann býst:
I really fear that the Hamas victory will be of short duration. The crucial problem is that Hamas has no strategy for eliminating the Zionist state and its vision does not address the existence of a Jewish society in Palestine. These two main shortcomings will remain the Achilles heel of this organisation. Its ideology prevents it from addressing the Jewish population in Israel as its future constituency and building a common future. Its only viable option, within their own ideological dead end, will remain that of a rump Palestinian statelet, a dependency of Israel, leaving true liberation to Allah. Their imams will find the right religious citations to justify such an abdication. Remember my words.
Þetta er umhugsunarefni, en ég er hræddastur um að hann muni reynast sannspár.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
PINR birta grein um óstöðugleikann í Nepal með tilliti til valdabaráttu á svæðinu í víðara samhengi. Þetta er áhugaverð grein fyrir þá sem á annað borð hafa áhuga á gangi mála þar. Meðal þess sem kemur fram er að frambjóðendur í komandi sveitarstjórnarkosningum eru færri en sætin sem kosið verður um. PINR spá lítilli þátttöku.
Á einhverjum stöðum í Nepal mun ekki reynast fært að halda kjörfund. Maóistar leggja mikið á sig til að hindra kosningarnar sem víðast -- og ætla má að þar sem þeim tekst það, þar séu áhrif þeirra mikil. Með öðrum orðum, þessar kosningar munu e.t.v. sýna enn betur en áður hversu stórum hluta landsins þeir ráða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Minn pólitíski sonur Rúnar er farinn að blogga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ritræpa mín á Vantrú heldur áfram: „Rökvilla brunnmígsins“ og „Almenningur varaður við óheilnæmri hegðun“ birtust nýlega og „Myndbirting Jyllandsposten og öskureiðir múslimar“ er nýjust, en heitar umræður hafa spunnist eftir þá síðastnefndu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Múlla Krekar veður á súðum. Hann er herskár leiðtogi herskárra fylgismanna. Hann hefur hagsmuni af því að ýta undir herskáar tilhneigingar, því þá fær hann fleiri til liðs við sig og verður valdameiri sem því nemur. Mjög gott dæmi um það, hvers vegna herskáir leiðtogar eru varasamir á viðsjálum tímum.

Nepal, álver og fleira

Sjitturinn, gullverðið hækkar bara og hækkar! Stendur nálægt 570$$/oz en var um 440$$/oz fyrir hálfu ári. Við vitum hvað það þýðir, kreppa í nánd. Ef einhvern tímann var til trúverðugur mælir á yfirvofandi kreppu, þá fyrirfinnast varla sterkari kandídatar en gullverðið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á meðan Gyanendra klappaði sjálfum sér kumpánlega á bakið í 1. febrúar-ræðu sinni gerðu maóistar árás sem heppnaðist ekki bara vel sem pólitísk auðmýking fyrir kóngsgarminn, heldur líka sem hernaðaraðgerð: Eftir að rykið settist kom á daginn að þeir höfðu á brott með sér eina 26 gísla, að minnsta kosti, þar á meðal héraðsstjóra Palpa-héraðs, þar sem árásin var gerð. Jafnframt halda þeir áfram að reyna að koma í veg fyrir að málamyndakosningar til sveitarstjórna fari fram skv. áætlun 8. febrúar, hafa drepið einn frambjóðanda, sært annan og sprengt hús a.m.k. þriggja. Á meðan heitir kóngur „lýðræði“, samtímis því sem kónar hans loka lýðræðissinnaða mótmælendur í fangelsi! Hér er spurning: Er ekki eitthvað bogið við það að valdstjórnin hóti lýðræðissinnum kosningum og lokið þá inni í fangelsi?
Maóistar skora á her og lögreglu Nepals að virða vilja fólksins og hætta að ganga erinda nátttröllsins Gyanendra.
Asian Centre for Human Rights birta greinargerð um eins árs óstjórn konungsins og bera honum ekki fagra söguna. Hann virðist alveg hafa spilað rassinn úr buxunum. Kannski ekki við öðru að búast. Einræðið er að daga uppi eins og nátttröll þótt það þekki ekki sinn vitjunartíma, frekar en önnur anakrónísk stjórnarform. Það er ekki að ástæðulausu sem talað er um stéttabaráttu.
Aftur vil ég minna á orð dr. Baburam Bhattarai: „Hamar og sigð munu blakta yfir Everestfjalli.“
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bush hefur í heitingum. Ég er að reyna að böggla mér í gegn um þessa ræðu en það er hreint ekki auðvelt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Anna Margrét Björnsson skrifaði í Fréttablaðið 29. janúar (s. 26) um þessa fáheyrðu könnun sem IMG Gallup gerði fyrir álþursaauðvald.
„Er hægt að sætta umhverfissjónarmið og álframleiðslu?“ „Eruð þið hlynnt vatnsaflsvirkjunum?“ Báðar þessar spurningar eru ósæmandi fyrir könnun sem á að taka alvarlega. Auðvitað er hægt að sætta umhverfisverndarsjónarmið og álframleiðslu. Það er bara ekki gert. Vatnsaflsvirkjanir sem slíkar eru mér alveg að skapi en Kárahnjúkavirkjun og aðrar heimskulegar, mengandi, valdníðslulega skipulagðar og á annan hátt óásættanlegar virkjanir eru það ekki! Svo einfalt er nú það. Strangt til tekið hefði svar mitt við báðum þessum spurningum því verið játandi en túlkunin verið þveröfug í munni villimannanna sem eru að eyðileggja ættjörðina.
Áróðursmerðirnir sem semja spurningarnar vita vel hvað þeir eru að gera: Orða spurningarnar þannig að þeir fái niðurstöðuna sem þeim líkar.
Ég lýsi frati á málflutning sem styðst við óheiðarlegar kannanir og óheiðarlega úrvinnslu á þeim.
Það er gott hjá Önnu Margréti að vekja máls á þessu. Þetta er óþolandi og ólíðandi.

Wednesday, February 1, 2006

Ár frá valdaráni í Nepal

Hart hefur verið barist í Nepal undanfarið og mannfall verið verulegt. Yfirvöld segja maóista falla eins og flugur, en hvernig sem á því stendur vex byltinginnu samt áfram ásmegin. 8. febrúar munu fara fram kosmetískar málamyndakosningar til sveitarstjórna í Nepal, þar sem konungurinn mun sveipa lýðræðislegri slikju á einræði sitt. Þingræðisflokkarnir sjö og maóistar andæfa þessari óhæfu, þessum ólýðræðislegu kosningum. Maóistar hafa haft í hótunum, og yfir 600 frambjóðendur dregið framboð sín til baka og (nálægt 20%, af um 3200 alls) frambjóðandinn Dal Bahadur Rai var skotinn en lifði af.
En í dag er 1. febrúar. Ár er liðið frá því konungurinn tók sér alræðisvald og setti neyðarlög í landinu. Búist var við kröftugum mótmælum þingræðisflokkanna í tilefni dagsins, og árásum maóista líka. Árás hefur þegar verið gerð á herstöð og að minnsta kosti 19 féllu -- sextán lögreglumenn og þrír hermenn. „Í ræðu sinni sagði konungur að árásir andstæðinga sinna væru orðnar fáar og vanmáttugar.“ Það var einfaldlega rangt hjá honum; byltingin hefur færst meira og meira í aukana, og friðurinn sem ríkti síðustu fjóra mánuði síðasta árs voru vegna vopnahlés sem var einhliða og hann átti ekki þátt í nema til að enda það með árásum!
Árás maóista var því auðmýking fyrir kónginn, pólitískur ósigur fyrir hann.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hvað eru mannréttindi? -- fyrirlestur Elíasar Davíðssonar í kvöld
Mannréttindi ber oft á góma í fréttum. En fáir vita hvað er nákvæmlega átt við. Í erindi sínu skýrir Elías tengsl mannréttinda við skyldur ríkisvaldsins, hvernig mannréttindi eru frábrugðin gæsku og örlæti, hvernig mannréttindi festast í sessi og hverjar eru brotalamir í mannréttindamálum.
Fyrirlesturinn verður haldinn í húsakynnum Snarrótar miðvikudaginn 1. febrúar 2006 kl. 20:00. Frjáls framlög. (Nánar.)

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
We will not sell our people or principles for foreign aid“ skrifar Khaled Meshaal, formaður stjórnmálanefndar Hamas, í The Guardian.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Iran 'has bomb and trying to make more'“ hafa Gulf News eftir Mansoor Ijaz, sérfræðingi í útbreiðslu kjarnorkuvopna. Íranir séu komnir með sprengjuna, en bíði með að tilkynna það heiminum þar til þeir eigi fleiri.
Íranir segjast munu svara fyrir sig, verði á þá ráðist. En hvað það kemur mikið á óvart, að þeir ætli ekki að bjóða hina kinnina. Á þetta að heita fréttnæmt? Segir það skig ekki sjálft? Eða á þetta kannski að sýna hvað Íranir séu vondir?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að taka eftir því að Skoðun.is er komin aftur í loftið. Það er nú gott.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Áhugaverðar niðurstöður í skoðanakönnun meðal Íraka. (Meira af sömu könnun.)
Því er hótað að CPT-gíslarnir í Írak verði drepnir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á austanverðu Indlandi berjast maóískir Naxalbari-skæruliðar við lögregluna um yfirráð yfir sveitum. Undanfarna daga hafa 11 týnt lífi.