Friday, September 30, 2005

Þetta er skólabókardæmi um aðgerð sem íraska andspyrnan ætti að láta eiga sig. Árásir á þjóðernis- eða trúarhópa eru heimskulegar fyrir málstað þjóðfrelsisbaráttunnar og vinna að því helst að kljúfa samstöðu írösku þjóðarinnar. Auðvitað er nóg af heimskingjum í írösku andspyrnuhreyfingunni eins og hvarvetna annarsstaðar, en ég spyr mig samt hvort svona árásir geti verið skipulagðar af andstæðingum andspyrnunnar til að vinna gegn hagsmunum hennar?
Árásir ættu að beinast að bandarískum hermönnum og samverkamönnum þeirra, quislingum og málaliðum, öðrum ekki.
Styrktartónleikar Ungrótar eru í kvöld á Kaffi Hljómalind, Laugavegi 21. Þar verður Kommadistró Íslands - að sjálfsögðu. Eins og fram hefur komið hafa nokkrar bækur selst upp, en nóg er eftir af úrvals kommabókmenntum, og úrvalið mun aukast talsvert fljótlega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er alltaf að renna betur og betur upp fyrir mér að pólitík snýst ekki um rök heldur hagsmuni. Með sterkum og rökföstum málflutningi má vissulega koma miklu til leiðar - en það er ekki málflutningurinn sem slíkur sem kemur neinu til leiðar, heldur viðbrögðin við honum. Ef ég gæti talað til almennings, sett málin í samhengi og tengt þau við fólk sjálft með einhverri innblásinni eldmessu sem hitti í mark á réttu augnabliki, þá gæti mundi það standa upp og koma sínu fram og draumar fallega þenkjandi fólks mundu rætast - ekki vegna málflutningsins hefldur vegna valdsins sem felst í því að fólk segi "hingað og ekki lengra" eða "við látum ekki bjóða okkur þetta" - og sé reiðubúið að fylgja þeirri afstöðu eftir.
Pólitík snýst ekki um rök. Það er engin spurning að rökin hníga gegn Íraksstríði, Afghanistanstríði, kvótakerfinu, stóriðjustefnu stjórnvalda, kapítalisma - og svo mætti lengi telja. En það er ekki það sem skiptir máli í pólitík. Þeir sem hafa valdið sín megin njóta þeirra forréttinda að þurfa ekki að hlusta á rök, því þeir hafa valdið. Til þess er valdið, að þurfa ekki að hlusta á rök. Til þess er valdið, að framfylgja hagsmunum sínum af skeytingarleysi við mótbárur annarra, óháð því hvort þeir hafa rétt fyrir sér eða ekki.
Rök geta virkað til þess að auðmýkja valdið og grafa þannig undan því, ef rökin eru sterk og vel sett fram og nógu margir heyra þau og skilja og taka til sín. En enn eru það ekki rökin sem ráða úrslitum, heldur valdið, í því tilfelli vald fólksins, vald almenningsálitsins, valdið sem felst í því að geta lagt niður vinnu, lamið stjórnmálamenn eða embættismenn, eða einfaldlega hlegið að þeim. En rökin ein og sér hrökkva skammt ef þeim er teflt gegn valdinu án þess að leikfléttan sé hugsuð út í þaula.
Borgaraleg pólitík gengur ekki út á rök. Ríkisvaldið er framkvæmdanefnd auðvaldsins, stjórnmálamenn eru pólitískir millistjórnendur þeirra sem ráða ferðinni. Stjórnmálamenn svara til herra sinna, auðvaldsins. Auðvaldið er hafið yfir einstaklinga og tekur ekki tillit til þeirra. Það er monster sem fer sínu fram samkvæmt sínum eigin lögmálum, í logandi leit að eina takmarki sínu, gróða - sem aftur kemur hvergi að nema úr höndum vinnandi fólks.
Vinna er framleiðsla, sköpun, hún er uppspretta auðs - og valds. Svo lengi sem menn vinna í fjötrum reglugerða, skatta, arðráns, einkaeignarréttar, okurs og skulda, svo lengi næra þeir valdið með vinnu sinni, svo lengi þrífst valdið og heldur áfram að koma fram vilja sínum af sama skeytingarleysinu. Valdi verður ekki svarað nema með valdi, and-valdi. Valdinu sem felst í samtakamætti vinnandi fólks. Valdinu sem felst í því að kenna sameiginlegs máttar síns og skilja hvernig má beita honum til að beina lífsbjörgum frá þrútnandi skrímslinu til þeirra sem þarfnast þeirra og verðskulda þau.
Sanngjarna samninga er ekki hægt að gera ef samningsstaðan er ójöfn, jafnt kvalítatíft sem kvantítatíft. "Deilið og drottnið" gætu verið meðal kjörorða auðvaldsins. "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" gætu verið kjörorð stéttvíss vinnandi fólks. Eða: "Öreigar allra landa, sameinist." Vinnandi fólk hefur engu að týna nema hlekkjunum, en heila veröld að vinna.
Veröldin verður ekki unnin á málfundi eða í sjónvarpskappræðu. Vígvöllurinn er efnahagskerfið, og til að eiga von um sigur þarf vinnandi fólk á öllu sínu að halda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"It's not a matter of what is true that counts but a matter of what is perceived to be true." --Henry Kissinger
Síðasta blogg mitt hér var skrifað klukkan hálf sex á miðvikudagsmorgni, og hafði ég þá verið vakandi alllengi. Skömmu eftir að ég skrifaði það fór ég í bólið, las smávegis og sofnaði svo eins og steinn. Ég vaknaði rétt fyrir klukkan níu um kvöldið - eftir hartnær sextán tíma svefn. Ég var vel að honum kominn, og veitti ekki af. Spratt á fætur, hraðaði mér á mikilvægan fund (sem ég var vitaskuld og seinn á) og leit síðan við í Snarrót, þar sem ég sat lengi kvölds. Kom heim, fór beint í tölvuna og sinnti nokkrum erindum - það tók tíma. Fór í bólið um 7 á fimmtudagsmorgni, las nokkuð í áhugaverðri bók, og ætlaði svo að sofna. Mínar eigin hugsanir héldu fyrir mér vöku. Það var byrjað að birta af degi og ég, í bjartsýni minni, lá með augnskjól á andlitinu og reyndi að sofna. Átti erfitt með að festa svefn, lá því í staðinn og hugsaði. Eftir korter áttaði ég mig á að ég hafði fengið góða hugmynd, settist upp og skrifaði eina blaðsíðu (A4) af hugleiðingum. Lagðist niður aftur. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Klukkan 10:30 nennti ég þessu ekki lengur og fór á fætur, fimm eða sex blaðsíðum ríkari af hugleiðingum sem ég er feginn að hafa náð að hripa niður. Núna er ég ennþá vakandi ... og er að fara að sofa svefni hinna réttlátu.
Talandi um að misbjóða sjálfum sér.

Thursday, September 29, 2005

Ég verð á síðdegisvakt í Snarrót í dag. Ég hyggst hafa Kommadistró Íslands með mér, þannig að ef einhver hefur óstjórnlegan áhuga á einhverjum hinna æðisgengnu bóka sem þar standa til boða á vægu verði, þá er um að gera að líta við í Snarrót í dag milli klukkan 14 og 18.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dr. Mustafa Barghouthi og Joan Jubran tjá sig um Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu og hvernig hann leggur stein í götu heilbrigðisstarfs og annarra innviða palestínsks samfélags. Hvernig skyldu Ísraelar sjá fyrir sér að hægt verði að halda friðinn þegar annar aðilinn ber alltaf skarðan hlut frá borði?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Konungur Nepals býr sig undir að lögleiða nýja, gerræðislega stjórnarskrá, segja talsmenn þingræðisflokkanna. Nefnd indverskra stjórnmálamanna sem komnir eru til Nepal til að kynna sér ástandið mætir ákveðinni andstöðu konungsins og er grýtt af stuðningsmönnum hans.
Foreign Policy in Focus birtir greinargerð um ástandið í Nepal, sem ástæða er til að benda á, og Power and Interest News Report birtir einnig greinargerð um Nepal, styttri og almennari.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Viðtal Amy Goodman við meðlimi Human Rights Watch um fanga í New Orleans sem voru skildir eftir í fangelsunum þegar flóðbylgjan skall á.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég bætti nokkrum linkum inn á hinn langa lista hér til hliðar. Auk þess gerði ég eina leiðréttingu. Sá sem getur fundið hana fær að launum bók að eigin vali úr Kommadistrói Íslands.

Wednesday, September 28, 2005

Já, seljið grimmdarseggjum morðtól, glæpamennirnir ykkar! Notið síðan peninginn til að þróa ennþá svakalegri morðtól!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hér er greinargerð sem er þess virði að lesa, um uppgang lögregluríkis í Bandaríkjunum. Aukinn styrkur framkvæmdavaldsins er skýrt merki um vaxandi stéttamótsetningar. Það meikar því miður fullkomið sens að Bandaríkin leggi inn á þessa ógæfubraut nú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sagt er að kólumbísku skæruliðarnir í FARC hafi haft uppi áætlanir um stóra atlögu á sjálfa höfuðborgina Bogotá.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Engir góðir gæjar" segir Óli Gneisti um Baugsmálið. Ég held ég megi segja að það sé eins og talað út úr mínu hjarta. Ef tvö lið takast á, og maður telur þau bæði til andstæðinga sinna, á maður þá að taka afstöðu með öðru gegn hinu? Á maður að taka afstöðu með andstæðingi sínum?
Þetta er að vísu snúin spurning; ég býst við að svarið fari eftir atvikum. Stundum held ég að svarið sé "já". Þannig held ég að Vesturveldin og Sovétríkin hafi gert vel, að snúa bökum saman gegn Hitler á sínum tíma. En þarna er reyndar enginn Hitler. Þannig að ég held að í þessu máli, eins og fleiri nýlegum málum hér á Íslandi, sé best að vera á móti báðum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"How stupid can you be, arresting Cindy Sheehan while the whole world is watching?" spyr Bev Conover (hverslags nafn er það?) forseta Bandaríkjanna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sen. Joseph R. Biden Jr., Delaware Democrat, yesterday strongly endorsed giving soldiers the power to arrest American civilians.

Tuesday, September 27, 2005

Aðeins um nokkra vonda kommúnistaleiðtoga, einn meira en aðra


Best að láta dæluna ganga...
Öll þessi umræða sem maður sér annað slagið skjóta upp kollinum, öll þessi umræða um kapítalisma og kommúnisma, anarkisma, Stalín, Trotskí, Maó, Lenín, Marx. Öll þessi umræða fer meira og minna fram með einhverju skotgrafahugarfari. Það er sjaldan að maður sér málflutning sem maður finnur að er hlutlægur, sanngjarn. Það er eins og það komist ekki annað að hjá hægrimönnum en að Maó og Stalín hafi umfram allt verið vondir menn og í því ljósi beri að skoða sögu Sovétríkjanna og Kína, og að Lenín hafi verið persónulega ábyrgur fyrir flestum dauðsföllum sem urðu í Sovétríkjunum 1917-1924. Auðvitað, hann var leiðtoginn. Það hlýtur að þýða að hann hafi haft fulla stjórn á öllu sem gerðist og því verið persónulega ábyrgur fyrir öllu.

Che Guevara, "svali morðinginn". Umfjöllun hægrimanna um hann er full af yfirdrepssakp og hræsni. Það er umfjöllun vinstrimanna oft líka. Spánska borgarastríðið. Stalín bar ábyrgð á því að vondu kommarnir snerust gegn góðu anarkistunum. Var það svo einfalt? Ég er ekki sannfærður. Griðasáttmáli Hitlers og Stalíns, rýtingsstunga Stalíns í bakið á góðu Vesturveldunum. Rugl. Griðasáttmálinn var örþrifaráð aðþrengdra manna, ráð til að kaupa Sovétmönnum frest og til að draga Vesturveldin með inn í stríðið, sem hlaut óhjákvæmilega að skella á. Planið hjá Vesturveldunum var að nota Þýskaland eins og boxhanska til að lúskra á Sovétríkjunum, Stalín tókst að snúa boxhanskanum til föðurhúsanna. Hvað sem má segja um hann að öðru leyti, þá var þetta diplómatíska manjúver meistarastykki.

Millistríðsárin í Sovétríkjunum. Hroðalegar mannfórnir. Hvers vegna? Vegna þess að Stalín var vondur? Bull. Þær eiga sér jarðneskar skýringar.

(1) Iðnvæðing var nauðsynleg fyrir Sovétríkin - svo hratt sem auðið var. Það kom líka á daginn þegar Þýskaland réðst á þau. Hvernig hefði stríðið farið ef iðnvæðingin hefði ekki verið komin svona langt? Þjóðverjar hefðu valtað yfir Sovétmenn. Hvað kostaði iðnvæðing Vesturlanda miklar mannfórnir? Ekki minni, það get ég leyft mér að fullyrða. Þær mannfórnir teygðust bara yfir tíu eða tuttugu sinnum lengri tíma og fóru að miklu leyti fram í nýlendunum. Rússland hefur tvíeðli heimalandsins og nýlendunnar og það iðnvæddist sirka tífalt hraðar en flest Vesturveldin. Auðvitað urðu mannfórnirnar hræðilegar - en við hverju var hægt að búast?

(2) Ofsóknir og hreinsanir. Stalín átti nóg af óvinum, ég held að engum detti annað í hug. Hvað átti hann að gera, bíða eftir að hann yrði myrtur sjálfur? Hann gat auðvitað ekki annað en losað sig við þá sem hann gat ekki treyst. Blóðugt já, en skilaði þeim árangri að hann hélt velli sjálfur. Frá macchiavellísku sjónarmiði stóð hann sig eiginlega bara vel.
Í gær gekk ég út af bókasafninu. Það erekki í frásögur færandi nema vegna þess að það fauk fimmhundruðkall framan í smettið á mér. Honum verður vel varið í kvöldm en það kostar einmitt aðeins 500kall inn á giggið þar sem allir töffararnir verða. Viltu vera töff? Komdu þá á Andspyrnutónleika.
Hérinn minn og ég á Wacken...

Monday, September 26, 2005

...og Abimael Guzman, einnig þekktur sem Gonzalo hershöfðingi, leiðtogi perúvíanskra maóista, sem setið hefur í dýfflissu síðan 1992, kemur aftur fyrir rétt á næstunni. Það má varla búast við öðru en að lífstíðardómurinn verði endurnýjaður yfir þessum grandvara fyrrum prófessor í heimspeki sem hefur lýst sjálfan sig "fjórða sverð marxismans" á eftir Marx, Lenín og Maó. Já, svona getur nú lífið verið skrítið.

Kommadistró Íslands með bás á morgun


Á morgun, 27. september, verða Andspyrnutónleikar. Það verður bás með Kommadistrói Íslands, sem er troðfullt af spennandi bókum og ýmsu öðru.
Skömmu seinna, eða 30. september, verða síðan Styrktartónleikar Ungrótar, ungliðahreyfingar Snarrótar, og þar verður einnig bás hins sívinsæla Kommadistrós!
Ef einhver getur hugsað sér að taka þátt í að manna básinn ásamt umsjónarmanni, þá væri það vel þegið. Áhugasamir eru beðnir að hafa samband: vangaveltur@yahoo.com

Ef maður vill að eitthvað sé almennilega gert ætti maður að gera það sjálfur...


...eða svo er sagt. Væri það hrokafullt eða yfirlætislegt ef ég tæki mig til, upp á eigin býti, og stofnaði Kommúnistaflokk Íslands? Ég gæti verið eini meðlimurinn til að byrja með, samþykkt metnaðarfulla stofnskrá og skipulagsskrá og lög, skipulagt flokksfélög og haldið stofnfund og gert allt sem þarf að gera. Svo þegar flokkurinn minn flokkur alþýðunnar væri tilbúinn og væri skipulagður á fullkomnn hátt, þá gæti ég farið að dorga eftir fleiri félögum. Væri nokkuð að því?

Saturday, September 24, 2005

Ég held að það þurfi á næstunni að opna umræðu um borgaralega óhlýðni og beinar aðgerðir, um mótmæli og handtökur, um álit almennings og hlutverk almennings, sóknarfæri og getu til að halda uppi baráttu. Það þarf að ræða strategísk og taktísk sjónarmið. Það verður að taka tillit til beggja og þetta tvennt verður ekki slitið úr samhengi nema með neikvæðum afleiðingum fyrir baráttuna. Ofuráhersla á taktík með vanrækslu á strategíu er það sem kallast tækifærismennska. Til að ná árangri þarf fyrst að svara strategískum spurningum; hvað er markmiðið og hvernig aðferðir eru líklegar til að skila oss áleiðis? Taktískar spurningar koma á eftir, hvort þessi aðferðin eða hin er gagnleg eða ekki.

Thursday, September 22, 2005

Yfirlýsing mín frá þriðjudeginum, þar sem ég lýsti skilyrðislausum stuðningi við baráttuna gegn stóriðjustefnu stjórnvalda, virðist hafa misskilist af sumum. Svo virðist sem sumir hafi skilið hana þannig að ég styddi hana í orði en ætlaði mér að sitja með hendur í skauti og láta aðra um skítverkin. Um það er varla annað að segja, en að það er misskilningur.

Wednesday, September 21, 2005

Ítrekun og leiðrétting


Fór á stúfana í morgun og náði mér í eplakinnar við Nordica hótel. Á slaginu 18:00 verða önnur mótmæli, þau verða við Ráðhús Reykjavíkur. Það eru eindregin fyrirmæli mín að fólk hypji sig þangað, hafi fleiri með sér, og gleymi ekki að klæðast hlýjum fötum ef það skyldi verða kalt. Auk þess er góð hugmynd að hafa með sér pottlok, dómaraflautu eða eitthvað annað sem hægt er að nota til að framkalla hávaða.

Í þarsíðasta bloggi mínu varð mér á í messunni. Sagði að rafskautaverksmiðjan mundi menga á við 172.000. Hið sanna er að það er álverið í Reyðarfirði sem mun gera það. Í einum lygnasta firði landsins. Ferlíkið í Hvalfirði mun hins vegar menga á við fjórðung bílaflota landsmanna (sem ég giska á að séu þá ~30.000 bílar). Ég læt fylgja hluta af leiðréttingunni, sem er frá Örnu (vona að mér fyrirgefist):
"Rafskautaverksmiðja í Hvalfirði mun skila meira af krabbameinsvaldandi eiturefnum út í andrúmsloftið en áður eru dæmi um hérlendis og láta frá sér álíka mikið af gróðurhúsalofttegundum og fjórðungur bílaflota landsmanna." [linkur]
...
Landverndarvefurinn er með nokkuð af upplýsingum: [linkur]
...
Engir Íslendingar sitja í stjórn Kapla hf. sem mun byggja rafskautaverksmiðjuna. [linkur]
Nepalska krúnan útilokar viðræður við maóista nema þeir afvopnist.
Gefur ekki auga leið hvað krúnan vill? Eða, réttara sagt, hvað hún vill ekki? Hún vill bersýnilega ekki friðarviðræður. Þá mundi hún ekki setja óaðgengileg skilyrði. Eins og maóistar færu að afvopnast núna, ráðandi meira en hálfu landinu. Það er ekki eins og krúnan fari að afvopnast, er það?
Þankabankinn International Crisis Group í Bruxelles gerir grein fyrir stjórnmálaástandinu í Nepal. Þar segir meðal annars: „The Maoists are militarily strong and control much of the countryside but have failed to win popular support.“ Ég býst við að margir séu hræddir við þá. Herskáir byltingarsinnar eru ógnvekjandi, á ég von á, og svo býst ég við að margir álíti þá hafa átt upptökin að ófriðnum sem hefur skekið landið undanfarin níu ár. „History may credit Gyanendra for forcing the pace of political developments, albeit not as he had hoped.“ Þessi setning er náttúrlega gull. Þetta er svo satt. Með einræðistilhneigingum og beinum yfirgangi, siðferðislega gjaldþrota valdbeitingu og ribbaldaskap, þá hefur Gyanendra konungi tekist eitt: Að flýta gangi sögunnar. Út af fyrir sig má segja að það sé jákvætt. „The Maoists are strong and determined, possibly serious about peace talks but also reluctant to give up the advantages they have won through force.“ - Það þykir mér vel skiljanlegt! Lesið afganginn af greininni hér. Á heimasíðu ICG má lesa meira um Nepal hér.

Stríðið gegn ónógum upplýsingum“ nefnist ný grein á Gagnauga.

„The deployment of mercenaries in New Orleans is an act of war against the American people“ segir Mike Whitney.

Lesið um ráðstefnuna sem verður í Róm 2. október, tileinkuð írösku andspyrnunni. Bandarískir og ítalskir hægrimenn hafa lagt stein í götu hennar, m.a. með því að neita Írökum á leið þangað um vegabréfsáritun.

Tuesday, September 20, 2005

Mótmæli miðvikudaginn 21. september


Á Hótel Nordica stendur yfir ráðstefna um rafskautaframleiðslu fyrir álver, en til stendur að reisa slíka verksmiðju í Hvalfirði og á hún að þjóna öllum álverum landsins ef mér skjátlast ekki. Verksmiðja þessi mun menga gífurlega - hún mun spúa eitruðum reyk á við 172.000 bíla (já, hundraðsjötíu og tvö ÞÚSUND). Þessi mengun mun taka sinn toll af Faxaflóa, sem eftir þetta mun verða eitt mengaðasta svæði Norður-Evrópu.

Ísland, best geymda leyndarmál áliðnaðarins. Látum það vera það áfram. Hver vill hafa reykspúandi monster í ósnortna landinu sínu og drekkja því í eðju til að fullnægja fýsnum monstersins? Fýsnum erlendra auð-belgja?

Enn og aftur blása álhórurnar, ráðamenn Íslands, í partí þar sem ístrukeppir brugga fósturjörð okkar launráð á daginn og svalla á kvöldin, hlæjandi með sjálfum sér yfir rányrkjunni sem þeir ætla að maka krókinn á - á kostnað fjallkonunnar, úr hverrar skauti við erum upprunnin, í hverrar skaut við munum um síðir aftur hverfa.

Með öðrum orðum: Vondir útlendingar eru hér til að rústa landinu okkar og loftinu sem við öndum að okkur - og, ef út í það er farið, hnettinum sem við búum á, við stóra fjölskyldan. Hér með er skorað á alla sem vettlingi geta valdið:

Mætið í mótmælin á miðvikudag 21. september, klukkan 8:00 um morguninn við Hótel Nordica við Suðurlandsbraut, þar sem þessi óforskammaða ráðstefna fer fram.

- Klukkan 18:00 um kvöldið verða önnur mótmæli við Ráðhús Reykjavíkur, þar sem er móttaka um kvöldið.

Á bæði mótmælin er fólk hvatt til að taka með sér skilti, borða eða annað til að gefa afstöðu sína til kynna. Enn fremur er fólk hvatt til að taka með sér eitthvað sem framkallar hávaða: Þokulúðra, flautur, trommur, pottlok, lúðra ... notið hugmyndaflugið!

Yfirlýsing um ál og baráttu gegn stóriðjustefnu


Það er að hefjast stærðarinnar ráðstefna um álsteypu í dag á Hótel Nordica. „Ísland - best varðveitta leyndarmál áliðnaðarins“ hrín í valdamönnum sem gefa skít í umhverfismál. (Að hugsa sér að „umhverfisverndarsinni“ skuli vera skammaryrði í huga sumra.) Alla vega, ef Ísland er best varðveitta leyndarmál áliðnaðarins, þá má það gjarnan vera það áfram mín vegna. Stórkostlegt umhverfisrask, loftmengun og pólitískur yfirgangur eiga þar hlut að máli. Einnig að hlaðið sé undir erlent auðmagn og því veitt inn í okkar litla hagkerfi - og þar með erlendum iðnjöfrum veitt völd í íslensku samfélagi, og var það ekki of lýðræðislegt fyrir. Loks má ekki gleyma því að drjúgur hluti af öllu þessu áli rennur til þarfa hergagnaiðnaðarins. Meira að segja störfin, sem skapast, eru sárafá miðað við útlagðan kostnað. Að landsbyggðin sé á vonarvöl vegna þess að það vantar álver? Kjaftæði. Landsbyggðin er umfram annað á vonarvöl vegna kvótakerfisins.

Ég held að ég hafi fyrir löngu gert grein fyrir afstöðu minni til stóriðjustefnu stjórnvalda. Það er kominn tími til að ég geri grein fyrir afstöðu minni til baráttunnar gegn henni. Hún er þessi: Þeir sem berjast gegn heimskulegri og ruddalegri stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda eiga skilyrðislausan stuðning minn. Með öðrum orðum, ég styð heils hugar baráttuna gegn stóriðjustefnu stjórnvalda og stuðningur minn er ekki skilyrtur af aðferðunum sem samherjar mínir á þessum vígstöðvum velja.
Það er rétt að það komi fram við þetta tækifæri, að ég tel að það fólk eigi virðingu skilda, sem fylgir hugsjónum sínum eftir í verki í stað þess að sitja bara og suða ofan í kaffið eins og við gerum felst. Þeir sem hafa kjark og framtak til að bretta upp ermarnar og taka til hendinni eru holl fyrirmynd. Ef fólk almennt fylgdi því fordæmi, þá væri öðruvísi um að litast.

Monday, September 19, 2005

Báðir stóru flokkarnir í Þýskalandi töpuðu. Gott á þá. Schröder er mér ekki að skapi en Merkel er hálfu verri. Klare Absage an rechter Politik segir Peter Schwartz í Partei für soziale Gleichheit og hittir naglann á höfuðið held ég barasta.

...og Norður-Kóreumenn hafa náð samningum í sexhliða viðræðum um kjarnorkuvopn. Mér þykir týra á skarinu. Segjast ætla að eyða kjarnorkuvopnum sínum.

Stríðið gegn ónógum upplýsingum“ nefnist ný grein á Gagnauga.

„The deployment of mercenaries in New Orleans is an act of war against the American people“ segir Mike Whitney.

Lesið um ráðstefnuna sem verður í Róm 2. október, tileinkuð írösku andspyrnunni. Bandarískir og ítalskir hægrimenn hafa lagt stein í götu hennar, m.a. með því að neita Írökum á leið þangað um vegabréfsáritun.

Nepalska krúnan útilokar viðræður við maóista nema þeir afvopnist.
Gefur ekki auga leið hvað krúnan vill? Eða, réttara sagt, hvað hún vill ekki? Hún vill bersýnilega ekki friðarviðræður. Þá mundi hún ekki setja óaðgengileg skilyrði. Eins og maóistar færu að afvopnast núna, ráðandi meira en hálfu landinu. Það er ekki eins og krúnan fari að afvopnast, er það?
Þankabankinn International Crisis Group í Bruxelles gerir grein fyrir stjórnmálaástandinu í Nepal. Þar segir meðal annars: „The Maoists are militarily strong and control much of the countryside but have failed to win popular support.“ Ég býst við að margir séu hræddir við þá. Herskáir byltingarsinnar eru ógnvekjandi, á ég von á, og svo býst ég við að margir álíti þá hafa átt upptökin að ófriðnum sem hefur skekið landið undanfarin níu ár. „History may credit Gyanendra for forcing the pace of political developments, albeit not as he had hoped.“ Þessi setning er gull. Þetta er svo satt. Með einræðistilhneigingum og beinu einræði, siðferðislega gjaldþrota einræði og ribbaldaskap, þá hefur Gyanendra konungi tekist eitt: Að flýta gangi sögunnar. Út af fyrir sig má segja að það sé jákvætt. „The Maoists are strong and determined, possibly serious about peace talks but also reluctant to give up the advantages they have won through force.“ - Það þykir mér vel skiljanlegt! Lesið afganginn af greininni hér. Á heimasíðu ICG má lesa meira um Nepal hér.

Thursday, September 15, 2005

Ég át áðan papriku. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég ræktaði hana sjálfur. Hún bragðaðist ágætlega, en var ekki stærri en lítill greniköngull.
George Galloway er á ferðalagi um Bandaríkin, þar sem hann talar gegn stríði og heimsvaldastefnu. Hér getur að líta ferðadagabók hans sem er skrifuð meira og minna jafnóðum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jose-Maria Sison skrifar gegn heimsvaldastefnu og skorar á fólk að flykkjast á mótmælin 24. september. Því miður verða engin mótmæli hér á landi þann dag, svo mér sé kunnugt. Þess má geta að Sison er formaður maóistaflokks Filippseyja, sem staðið hefur í skæruhernaði í mörg, mörg ár, og hann er í sjálfskipaðri útlegð í Hollandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal halda mótmælaaðgerðir áfram af miklum móði. Í gær handtók lögreglan 529 manns, sem höfðu verið á mótmælum. Fólkið hafði fordæmt gerræði konungsins og krafist lýðræðis. Það er vissara að lemja svona ólátabelgi með kylfum til að kenna þeim lexíu, ekki satt? Sjá líka frétt á Al Jazeera.
Í grein á Nepal News er farið yfir nýja viðtalið við Prachanda formann, og dregnir fram nokkrir áhugaveðustu punktarnir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
...og "fellibylurinn Bolton" ógnar fátæklingum víðs vegar um jörðina.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í tilefni þess að Ísraelsher hefur yfirgefið Gaza (a.m.k. í bili) er vert að rifja upp samhengið: Af rúmlega 150 landtökubyggðum á herteknu svæðunum hafa aðeins 25 verið lagðar niður. Í þeim bjuggu alls 8.475 landtökumenn, af alls 436.000 landtökumönnum á herteknu svæðunum. Með öðrum orðum hafa aðeins tæplega 2% ísraelskra landtökumanna á palestínsku landi verið fluttir brott. Samtímis hafa á undanförnu ári 12.800 landtökumenn sest að á Vesturbakkanum, 50% fleiri en voru fluttir frá Gaza núna. Samtímis þessu heldur bygging aðskilnaðarmúrsins áfram, en hann er meira og minna allur á palestínsku landi (ekki á landamærum Ísraels og Vesturbakkans) og innlimar mjög stórar skákir (alls 46%) af Vesturbakkanum inn í Ísrael, um leið og hann skiptir Vesturbakkanum í nokkrar aðskildar einingar þar sem samgangur á milli er alveg háður geðþótta Ísraela og erfiður sem því nemur. Hæstiréttur Ísraels var að úrskurða að múrinn væri löglegur. Það segir meira um Hæstarétt Ísraels en múrinn.
Á Gaza var ekki verið að snúa dæminu við. Það sem þar fór fram var að Ísraelar hörfuðu í taktísku skyni, til að bæta sína eigin vígstöðu. Útþenslustefna þeirra er hvergi nærri brotin á bak aftur, en reyndar var þetta dýrmætt fordæmi: Nú er sýnt að það er hægt að leggja niður landtökubyggðir gegn vilja glæpamannanna sem sitja þar, og landtökumennirnir hafa ekki það gríðarlega fjöldafylgi sem þeir montuðu sig af. Auk þess sýnir þetta að vopnuð andspyrna Palestínumanna ber árangur, semsé þann að hrekja Ísraela til baka með því að gera hersetuna of erfiða. Án vopnaðrar andspyrnu hefði þetta aldrei gerst.
Þegar friðsamlegar breytingar eru gerðar ómögulegar með rasisma, aðskilnaði, ofbeldi og ójöfnuði, þá neyðast þeir örvæntingarfullu til að grípa til annarra aðferða.

Wednesday, September 14, 2005

Hamas sprengja gat á landamærin milli Gaza og Egyptalands - sá langþráði dagur runninn upp að það sé fært á milli, eftir langa lokun af völdum Ísraela. Það er gott. Nú þarf bara að fylgja þessu eftir, aflétta hernáminu að fullu, skila Palestínumönnum Austur-Jerúsalem, hleypa flóttamönnunum heim og veita þeim svigrúm til að stofna almennilegt, sjálfstætt ríki - ellegar þá eitt ríki, sameinað Ísrael, ef menn vildu það frekar.
Málaliðar frá Blackwater eru á götunum í New Orleans og vernda eignir elítunnar fyrir fátækum. Washington Times greinir frá. "Mercenaries guard homes of the rich in New Orleans" segir Guardian. Morðingjarnir og glæpamennirnir fjórir sem æstur múgur drap í Fallujah, Írak, síðasta haust, og dró brennandi líkin um göturnar áður en hann hengdi þau upp á fótunum, voru einmitt frá Blackwater (og nei, þeir voru sko engir sakleysingjar). Nánar er sagt frá þessu á Truthout, m.a. frásagnir sjónarvotta:
[O]ne of the Blackwater men ... said he was "just trying to get back to Kirkuk (in the north of Iraq) where the real action is." Later we overheard him on his cell phone complaining that Blackwater was only paying $350 a day plus per diem. That is much less than the men make serving in more dangerous conditions in Iraq. Two men we spoke with said they plan on returning to Iraq in October. But, as one mercenary said, they've been told they could be in New Orleans for up to 6 months. "This is a trend," he told us. "You're going to see a lot more guys like us in these situations.
Málaliðar, nefnilega það. Þess má geta að þetta rudda fyrirtæki hefur á sínum snærum fjöldann allan af frv. hermönnum suður-afrísku aðskilnaðarstjórnarinnar - og aðra stríðsglæpamenn af sama sauðarhúsi. CommonDreams fjalla líka um þetta. Skoðið heimasíðu Blackwater, þetta fyrirtæki fyllir mig viðbjóði. Atvinnudráparar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
1. og 2. október nk. verður ráðstefna á Ítalíu um írösku andspyrnuna, og mun bera titilinn Leave Iraq in Peace — Support the Legitimate Resistance of the Iraqi People. Ítölsk yfirvöld hyggjast ekki hleypa íröskum þátttakendum inn í landið, eftir að 44 hægrisinnaðir (nema hvað) bandarískir þingmenn skoruðu á Berlusconi að meina þeim inngöngu. Að þessari áhugaverðu ráðstefnu standa margvíslegir vinir Íraks og heimasíðu hennar getur að líta hér.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Norður-Kóreustjórn þverneitar að leggja á hilluna áætlanir um byggingu kjarnorkuvera í friðsamlegum, borgaralegum tilgangi. Auðvitað. Norður-Kórea er rafmagns-svelt. Hún er meira og minna rafmagnslaus nokkra tíma á dag. Ég skil ekki hvernig þeim ætti svo mikið sem að detta í hug að leggja áætlunina á hilluna. Þeir ætluðu einu sinni að gera það, og í stðainn ætluðu Bandaríkjamenn að aðstoða þá við að koma sér upp öðrum orkuverum - og stóðu svo ekki við það. Norður-Kórea hlýtur að eiga heimtingu á að vera eins sjálfbjarga og hún er fær um, ekki satt?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Times of India greinir blaðamaður frá augliti-til-auglitis fundi sínum við Prachanda formann nepalskra maóista, í þorpi einu.

Tuesday, September 13, 2005

Bandaríkin og Norður-Kóreumenn eru sagðir þokast í samkomulagsátt.
Í gær fékk ég góðan grip í pósti: DVD-disk með áróðursmyndbandi frá Norður-Kóreu. Horfði á þetta athyglisverða myndband í Snarrót í góðum félagsskap - og þetta meistarastykki verður sko sýnt oftar!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vopnahléð í Nepal þykir ófullkomið og forysta maóista virðist ekki hafa fulla stjórn á mönnum sínum.* Maóistar hafa þó unnið einn sigur með vopnahléinu: Konungurinn hefur aflýst heimsókn sinni til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.* Pólitískt séð er kóngsi óneitanlega kominn í hann krappan, sem endurspeglast líka í því að hann ætlar að fjölga í hernum um 7000 menn.* Hann mundi varla gera það ef hann þyrfti þess ekki. Þingræðisflokkarnir skora á maóista að vera "þolinmóðir" og halda vopnahléinu áfram og eru sjálfir hvergi nærri af baki dottnir, halda götumótmælum og útifundum áfram.*
Ég er ánægður með fyrirsögnina á þessari frétt Kantipur Online: "Civil society reps urge Maoists not to lose patience" - þingræðisflokkarnir eru nefnilega nákvæmlega það: Fulltrúar fyrir borgaraleg félag í Nepal. Innanlands nýtur konungurinn nefnilega stuðnings stórlandeigendastéttar og hástéttar, maóistar njóta stuðnings dalíta, fátækra bænda og verkamanna, þingræðisflokkarnir millistéttar í þéttbýli - svo ég ofur-einfaldi um leið og ég alhæfi! Það er, með öðrum orðum, mjög rétt lýsing að kalla þingræðisflokkana fulltrúa hins borgaralega félags.
Asian Tribune gengur svo langt að spyrja hreint út: "Nepal: Countdown to Republic?"

Monday, September 12, 2005

Ég hef hingað til ekki viljað taka afstöðu með einum, gegn öðrum, í klofningnum milli kommúnista og anarkista og ég ætla ekki að fara að byrja á því núna. Ég á ýmislegt sameiginlegt með báðum, en heldur meira með þeim fyrrnefndu hygg ég þó. Mér gremst að sjá fólk sem á að heita sömu megin víglínunnar eyða púðri í að rakka hvert annað niður. Það sem mér gremst þó ennþá meira er að þeir sem gera það hafa oft nokkuð til síns máls! Ég held að fólk hefði gott af því að anda með nefinu og sjá hvaða gagn er hægt að hafa af samstarfi. Það er þörf á umræðu, rökræðu, sameiginlegu starfi. Markmiðið er það sama. Það hlýtur að mega finna strategíu og taktík sem er það skynsamleg að fólk sem á annað borð vill sjá byltingarkenndar breytingar á samfélaginu geti lagt nafn sitt þar við. En í staðinn er hangið í gömlum tuggum og uppnefnum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
V for Vendetta heitir grafísk skáldsaga sem ég var að ljúka við, að ábendingu heiðursmannsins Dodda. Bretland eftir þriðju heimsstyrjöldina ... fasistastjórn ræður ríkjum ... anarkisti sem kallar sig V og er innblásinn af Guy Fawkes hrærir upp í ástandinu. Góð saga, alveg hreint stórgóð saga.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Úr því að ég hef vísað á Dodda, þá er best að ég geri það aftur. Hann skrifar líka um þá merkilegu bók Skákað í skjóli Hitlers eftir meistara Jóhannes Björn. Sú fjallar um geðlækningar - einkum skuggahliðar þeirra og skuggalega fortíð. Bókin er aðgengileg á netinu, svo þeir sem vilja geta farið nú þegar og lesið hana.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar yfirgefa Gaza og Palestínumenn fagna.

Sunday, September 11, 2005

Frá Nepal er það að frétta, að maóistar og royalistar brigsla hvorir öðrum um ofbeldisaðgerðir: Royalistar að maóistar hafi ekki staðið við einhliða vopnahléð sem Prachanda formaður lýsti yfir fyrir nokkrum dögum, en maóistar að royalistar hafi gert árásir á flokksmenn maóistaflokksins sem séu í "virkri vörn" og svari því fyrir sig ef ráðist er á þá. Prachanda biður um að Sameinuðu þjóðirnar sendi menn til að fylgjast með því hvernig vopnahléð er haldið. Indverjar eru andvígir íhlutun SÞ í Nepal (það vekur mann til umhugsunar). Almenningur á enga von heitari en að vopnahléð vari sem lengst. Prachanda hefur varað royalista við því að ef árásir haldi áfram verði maóistar neyddir til að rifta vopnahléinu og taka aftur frumkvæði í hernaðaraðgerðum.
Ég held að sé við hæfi á þessum degi að minna á að bandarísk yfirvöld hylma ennþá yfir það sem gerðist fyrir fjórum árum. Hvers vegna hafa þau gert sér far um að leggja stein í götu rannsókna á þessum afdrifaríku atburðum? Hverjum eru þau að hlífa? Hver innan stjórnkerfisins á hagsmuna að gæta, að málið upplýsist ekki?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hahaha, þvílík della! „ABC sagðist hafa fengið myndbandið frá Pakistan. Þar segist grímuklæddur maður vera Adam Gadahn frá suðurhluta Kalíforníu.“ Hver er svo heimskur að setja á sig grímu og kynna sig svo með nafni í hótunarmyndbandi? Til hvers er þá gríman eiginlega?

Thursday, September 8, 2005

"Enn allt á huldu um dánarorsök Yassers Arafats" segir á vef Morgunblaðsins. Ef allt var "með felldu" í kring um dauða hans, hvers vegna er þá ekki hægt að upplýsa dánarorsökina? Ég skil ekki hvað er verið að fela. Það getur verið að Ísraelar hafi eitrað fyrir honum (eins og þeir reyndu m.a. að drepa Khaled Meshal í Amman '97). Ef þeir gerðu það gætu læknarnir verið ráðþrota og ekki fundið hvað nákvæmlega væri að. En á hinn bóginn þurfa Ísraelar ekki að hafa eitrað fyrir hann til þess að vera ábyrgir fyrir dauða hans. Þeir höfðu haldið honum, umsetnum, í stofufangelsi í hálfhrundu húsi í nokkur ár. Að komast ekki undir bert loft svo árum skiptir og búa á meðan við óheilnæmar aðstæður inni fyrir, það dugir til að láta flesta missa heilsuna. Það er m.ö.o. Sharon sem ber ábyrgð á því að Arafat missti heilsuna, hvort sem hann var ráðinn af dögum með eitri eða ekki.

"Verjandi Saddams neitar því að hann hafi játað nokkuð" segir einnig á vef Morgunblaðsins. Athyglisvert. Mér skildist að Talabani hefði skriflega játningu og gerða í votta viðurvist. Kannski að Saddam hafi verið látinn éta eitthvað (eða sprautaður með einhverju) sem slævir dómgreindina áður en hann var látinn skrifa undir?

Jústsénkó hefur vikið Tímósénkó frá. Það hefði ég líka gert. ÉG veit samt ekkert hvað kemur í staðinn - en það er örugglega einhver sem ég hefði ekki valið!

Í Nepal virðist vera almenn ánægja með að maóistar hefi lýst einhliða vopnahléi. Ríkisstjórnin segir þeim að leggja niður vopn "til að sýna að þeim sé alvara"* en maóistar svara og segja ríkisstjórninni að lýsa líka yfir vopnahléi og þá geti viðræður hafist.* Að ríkisstjórnin krefjist þess að maóistar afvopnist held ég að sýni bara að hún vill ekki viðræður. Stjórnin getur sagt sér það sjálf að þeir munu ekki gera það. Hún setur skilyrði sem hún veit að þeir munu ekki ganga að. Ef því verður haldið til streitu getur það varla þýtt annað en: Engar viðræður. Í staðinn boða maóistar til mótmæla frá 10. september til 3. desember.*
Gyanendra einræðisherra/konungur í Nepal hefur aflýst heimsókn sinni til Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur ekki stuðning nema frekar lítils hluta þjóðarinnar, og t.d. mótmæltu þingræðislegu sjöflokkarnir væntanlegri heimsókn hans og sögðu Kofi Annan að hann hefði ekki umboð þeirra. Það er niðurlægjandi að standa umboðslaus frammi fyrir Sameinuðu þjóðunum og vera ekki trúverðugur sem fulltrúi þjóðar sinnar, svo heimsókninni var aflýst.

Tuesday, September 6, 2005

Sprengjumaðurinn í London 7/7, sem sprengdi strætóinn, reyndi að ná í vitorðsmenn sína skömmu áður en sprakk. (Sjá frétt.) Það mundi passa við þá kenningu að hann hafi verið nytsamur sakleysingi sem einhverjir óprúttnir menn drápu um leið og þeir notuðu hann í myrkraverki. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu og hringdi því í vini sína en hafði ekki erindi sem erfiði. Síðan sprakk fjarstýrð sprengja í bakpokanum hans. Kannski gerðist þetta svona.

Í skoðanakönnun á Bretlandi reyndist Karl Marx vera álitinn mesti heimspekingur sögunnar. (Sjá frétt.) Merkilegt. Líka merkilegt að þetta hafi ekki farið hærra.

Monday, September 5, 2005

LÍÚ segir að hátt olíuverð sé að sliga útgerðina. Nú stendur krónan sterk gv. dollar, þannig að olíuverðið hefur kannski ekki hækkað eins mikið hér og erlendis, hlutfallslega, en samt er hún að „sliga útgerðina“. Mér er spurn, hvernig verður þetta eftir nokkur ár?
Olíukreppan er ekki nema rétt að byrja. Loftvog efnahagskerfisins er fallandi - mjög fallandi - en miðað við það sem í vændum er, má segja að laufin séu rétt að byrja að bærast. Það er stormur í aðsigi og ég mæli með því að menn haldi fast í það sem þeir vilja ekki að fjúki, ef svo má að orði komast.
Frá sjónarhóli pólitíkur og hagfræði væri ekkert skynsamlegra núna en að hefja lífróður. Efnahagskerfi okkar er háð olíu, nei, það byggir á olíu, nánar tiltekið olíu sem er það ódýr að hún er kaupanleg. Eftirspurnin fer vaxandi en framboðið lítið eða ekki. Verðið mun ekki lækka til muna í mörg ár. Það verður að finna nýja lausn, og það er ekki eftir neinu að bíða.
Merkisfréttir frá Nepal: Skv. yfirlýsingu sem kom á laugardaginn frá Prachanda, formanni maóista, lýsa maóistar yfir einhliða þriggja mánaða vopnahléi.* Á þeim tíma munu þeir hafa svigrúm til að treysta bandalag sitt við þingræðislegu sjöflokkana gegn kónginum. Með öðrum orðum, ef fer sem horfir, þá þýðir þetta stórt skref framávið fyrir lýðræðisbyltinguna í Nepal. Maóistar leggja ekki niður vopn, og áskilja sér rétt til að svara árásum og verjast ef á þá er ráðist. Þetta er sniðugt múv hjá þeim, enda bindur það hendur hersins, sem nú getur ekki haldið áfram árásum á maóista án þess að kalla yfir sig fordæmingar fyrir mannréttindabrot.*
Á útifundi var Koirala, frv. forsætisráðherra, misþyrmt af öryggissveitum* svo hann þurfti að leggjast á spítala. Hann er 84 ára gamall. Það er víðar en á Íslandi sem gamalmennum er misþyrmt af mönnunum sem þykjast vera að vernda okkur!
Reyndar er fleira að frétta af maóistum. Nepalskir maóistar og indverskir naxalíta-maóistar hafa myndað með sér bandalag gegn heimsvaldastefnu og afturhaldi, með sósíalisma og kommúnisma í Nepal og Indlandi og heiminum öllum sem markmið sitt.* Svo segja Ganapathy aðalritari naxalíta og Prachanda formaður nepalskra maóista. Þetta hlýtur að styrkja stríð fólksins í Nepal og Indlandi.
Um daginn greindu fréttir (ekki íslenskar) frá því að í Nepal hefðu maóistar nauðgað svo mörgum sem 25 konum af stétt dalíta. Nú hefur komið á daginn að vestrænar fréttastofur létu gabbast af miklum ýkjum. Í alvörunni var einni konu nauðgað, af manni sem sagðist vera maóisti.* Ég veit ekkert um það hvort hann var maóisti í alvörunni eða ekki, en það er greinilega ekki fyrir neðan virðingu sumra að blása fréttir eins og þessa upp til þess að láta maóista líta illa út.
Það er eins og sumir trúi hverju sem er upp á kommúnista.
Mér finnst það vera til marks um að ekki sé allt með felldu, þegar menn fara að ljúga fyrir málstaðinn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vona að Halldór Jónsson sé að grínast með greininni „Stundum er ég smeykur“ á blaðsíðu 22 í Mogganum í dag. Ég er hræddur um að annars fái Styrmir Gunnarsson ekki plús í kladdann. Aumkvunarverðum rasistum er enginn greiði gerður með því að ljá þeim ræðupall til að gera sig að fífli fyrir alþjóð.

Saturday, September 3, 2005

Er Barenboim gyðingahatari?“ -- þetta er ljóta ruglið. Eins alvarlegt vandamál og gyðingahatur er, og hefur verið í taímans rás, þá er eins og zíonistar átti sig ekki á einu: Andstaða við helstefnu zíonismans stafar ekki af andúð á gyðingum. Eru menn svona tregir að þeir skilji ekki muninn? Eða blanda þeir þessu viljandi saman til þess að sverta gagnrýnendur sína með ódýrum ad hominem skotum og strámönnum? Tregða eða óheiðarleiki, eru fleiri möguleikar? Tregir eru þeir að minnsta kosti ekki.
Fyrst ég er að tala um zíonisma, þá get ég ekki annað en rifjað upp eina rauðsíldar-grein sem SUSari nokkur skrifaði fyrir nokkru síðan: „Hommar í Palestínu“ -- þar er skýrt frá því hvað staða samkynhneigðra í Palestínu er slæm, og það er líka alveg rétt, eftir því sem ég kemst næst. Það mátti skilja af greininni að þetta væri vegna þess að Palestínumenn væru vondir. Fordómar vaða vissulega uppi í Palestínu eins og fleiri arabalöndum, en gætum að: Palestínski homminn er ekki bara kúgaður af Palestínumönnum af því hann er hommi -- heldur líka af Ísraelum af því hann er Palestínumaður. Það hefði reyndar mátt bætaþví við að lesbíur í Palestínu eru auk þess kúgaðar sem konur, þær eru kúgaðar þrefalt. Þetta eru ekki rök gegn þjóðfrelsi Palestínumanna!

Thursday, September 1, 2005

Che Guevara: sálsjúkur illvirki, ótíndur þrjótur, miskunnarlaus böðull og þaðan af verra


Um daginn (24. ágúst) skrifaði Egill Helgason um Che Guevara og lagði m.a. út af orðum Ólafs Guðnasonar, sem „segir að Che hafi verið pyntingameistari og böðull. Sem er alveg rétt.“ „[Che] var ... óþjóðalýður.“ Sama hljóð heyrist úr öðrum strokkum stjórnmála („Svalir siðleysingjar“ og „Che Guevara, tískufyrirbærið og morðinginn“ til dæmis).
Mér þykir þetta athyglisvert. Mér finnst athyglisvert hvernig hlutirnir eru teknir úr samhengi. Ef borgarastríð eða bylting eru í gangi, þá gilda nefnilega önnur lögmál en á friðartímum. Og þegar annars vegar eru illskeyttir harðstjórar eða leppar heimsvaldasinna, er þá nokkuð eðlilegra en að leggja allt í sölurnar til að losna við þá?
Viðkvæðið er alltaf það sama. Che var morðingi, nauðgari, pyndingameistari, hitt og þetta. Ætli hann hafi ekki verið mannæta líka? Ég veit ekki til þess að hann hafi nauðgað einum né neinum, og miðað við annað sem ég veit um hann þykir mér það næsta ólíklegt. Ég hef heldur ekki heyrt að hann hafi pyndað fólk, og ekki hef ég heimildir fyrir því að hann hafi drepið fólk að gamni sínu. En það er víst aukaatriði. Kommúnistar eru vondir, svo það er allt í lagi að skreyta sögurnar af þeim. Fyrst Che drap menn, þá hefur hann örugglega verið nauðgari líka, ekki satt?
Þetta er dæmigert fyrir það, hvernig mettir Vesturlandabúar á hraðskreiðum bílum telja sig þess umkomna að vera fullir vandlætingar á því hvernig fólk hagar sér við harðneskjulegar aðstæður. Er það alltaf glæpsamlegt að taka sér riffil í hönd og fara og berjast við stjórnarherinn? Hvað ef það eru ekki hugsjónir heldur aðþrenging og örvænting sem ráða för? Hvað ef það er réttlætiskennd sem hefur verið misboðið vegna framferðis stjórnvalda? Hvað ef það er ekkert lýðræði og engin önnnur leið fær til að breyta stjórnarfarinu, heldur en vopnuð bylting? Það búa ekki allir í Svíþjóð.
Við getum sett okkur á háan siðferðissess og sagt að hitt og þetta sé glæpur eða hryðjuverk. Sagt að hinir og þessir séu þrjótar og svíðingar, reyndar sagt hvaðeina um þá -- því hver fer að verja þrjóta? Það er hægt að kalla Che nauðgara -- fyrst hann var manndrápari, leiðir þá ekki hitt af sjálfu sér? Er nokkuð að því að skrökva sökum upp á menn sem eru sekir hvort sem er?
Það er stundum minnst á sögu af því þegar Che drap einhvern bónda. Var það verri verknaður en þegar Che var drepinn sjálfur? Hverjar voru aðstæðurnar? Ég spyr.
Í alvöru talað, hversu trúverðuga mynd fær maður af einum manni með því að hlusta aðeins á óvini hans?
Vinstriróttæklingum er oft borið á brýn að úthúða hægrisinnuðum stríðsglæpamönnum en draga fjöður yfir stríðsglæpi vinstrisinnaðra stríðsglæpamanna. Það kann vel að vera rétt. En er það ekki hræsni þegar sömu hægrimennirnir og segja þetta gera nákvæmlega það sama: Úthúða mönnum eins og Che eða öðrum kommum, meðan menn á borð við Suharto eða Mobutu eru þægilega fjarlægir? Gleymum heldur ekki Hussein konungi, Fahd konungi, Botha, Pinocet og óteljandi öðrum hröppum.
Mér finnst lítið koma til persónudýrkunar. Ekki á ég bol með mynd af Che, og langar ekkert sérstaklega mikið í svoleiðis bol. (Á reyndar bol með Lenín, en geng sjaldan í honum!) Ef ég yrði að velja, tæki ég samt Che-bol fram yfir Thatcher-bol - enídei! En persónudýrkun, nei takk. Það er sjálfsagt að taka sér til fyrirmyndar það sem aðrir hafa gert rétt eða vel, en persónudýrkun: Nei takk. Ég sá um daginn í glugga á bolabúð bol með Che og undir stóð Che Guemerkjavara ... það fannst mér fyndið.
Að lokum ein spurning: Er Che Guevara verri fyrirmynd heldur en Rambó?